145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

mótun stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum.

247. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka góðar umræður um þessa tillögu. Mér finnst þetta alveg ótrúlega mikilvægt mál. Ég var seinni en ég ætlaði mér að leggja það fram, en ég vildi leggja mikla vinnu í greinargerðina og hafa hana góða og ítarlega. Ég vann við þessi mál m.a. hjá Neytendasamtökunum þannig að ég þekki þetta. Til dæmis var það þannig að Neytendasamtökin sendu áskorun á þáverandi matvælaráðherra sem fór með þennan málaflokk um að banna BPA í pelum, að bíða ekki eftir innleiðingu á einhverri EES-tilskipun heldur bara vera á undan. Það var gert.

Ég man eftir því þegar hv. þingmaður var með sína góðu fyrirspurn til umhverfisráðherra og hvernig var í rauninni snúið út úr henni í fjölmiðlum. Það fannst mér sýna skilningsleysi á mikilvægi þessa málaflokks. Það er auðvitað þess vegna sem við erum svolítið eftir á. Annars staðar á Norðurlöndunum hafa stjórnvöld og þeir sem móta stefnu sýnt þessum málum skilning og verið í fararbroddi. Þar með eru þau skilaboð send út til almennings að þetta skipti máli. Neytendasamtök þar eru líka mjög sterk og ýmiss konar umhverfissamtök sem hafa barist fyrir þessu. Við erum svona tíu, fimmtán árum á eftir, mundi ég segja. En ég held að nú sé kannski rétti tíminn til að fara í þetta. Ég er ekkert viss um að þessi þingsályktunartillaga hefði fengið hljómgrunn fyrir tíu árum, það hefði bara verið hlegið að henni.

Ég vil þakka fyrir umræðuna. Varðandi tillögugreinina og dagsetningar þá fel ég nefndinni að skoða það, hún má breyta því eins og hana lystir. Mér finnst mikilvægt að koma málinu í umsagnarferli. Ég á allt eins von á að þurfa að endurflytja það í haust vegna þess að við erum komin það langt, en mér finnst mjög mikilvægt að það fari í umsagnarferli og við komum því þannig af stað. Ég er rosalega þakklát fyrir þverpólitískan stuðning í málinu. Ég held að við séum alveg sammála og við ættum bara að koma þessu í gegn.