145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

sáttamiðlun í sakamálum.

503. mál
[16:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ætla að freista þess að svara henni nokkurn veginn í heild sinni.

Eins og hv. þingmaður nefndi hefur sáttamiðlun reynst vel og er ágætisúrræði. Árið 2006 setti þáverandi dómsmálaráðherra á fót tveggja ára tilraunaverkefni um sáttamiðlun. Jafnframt setti hann á fót nefnd sem hafa átti eftirlit með verkefninu og skilaði nefndin skýrslu um verkefnið árið 2009.

Í tengslum við verkefnið fól dómsmálaráðherra ríkissaksóknara að útfæra tiltekna þætti sáttameðferðar, þ.e. að ákveða til hvaða brota hún ætti að taka, hver væru skilyrði fyrir meðferðinni, aldurstakmark, innan hvaða tíma henni skyldi lokið og hvernig henni skyldi lokið. Á grundvelli þessa hefur ríkissaksóknari gefið út fyrirmæli nr. 1/2011, frá 1. apríl 2011, en þar er kveðið á um hvernig standa skuli að sáttamiðlun í sakamálum og eru þau fyrirmæli enn í gildi.

Í fyrirmælunum kemur fram að ákærandi, í flestum tilvikum lögreglustjóri, meti hvort mál, sakarefni og málavextir í málum er varða þjófnað, gripdeild, húsbrot, hótun, eignaspjöll, minni háttar líkamsárás eða nytjastuld sé til þess fallið að verða vísað til sáttamiðlunar. Við matið skiptir miklu að sérstök varnaðaráhrif mæli með slíkri meðferð og að almenn varnaðaráhrif mæli því ekki sérstaklega á móti. Jafnframt kemur fram að sáttamiðlun sé sérstaklega æskilegur kostur í málum vegna ungs fólks, ungmenna á aldrinum 15–21 árs. Takist sættir með aðilum skal gert um það skriflegt samkomulag. Á grundvelli staðfestingar sáttamanns um efndir slíks samkomulags má ákærandi falla frá saksókn samkvæmt heimild í lögum um meðferð sakamála.

Því er gert ráð fyrir að unnt sé að beita sáttamiðlun í ákveðnum tilvikum og er sáttamiðlun þannig hluti af þeim úrræðum sem beita má við lausn sakamála. Hefur lögreglustjórinn tvisvar sinnum staðið fyrir námskeiði um sáttamiðlun fyrir lögreglumenn. Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara hefur sáttameðferð verið beitt í um 40 málum á ári að meðaltali frá árinu 2007. Hefur þeim flestum lokið með sátt, eða í um 80% tilfella. Þetta eru þó ekki mörg mál þegar á heildina er litið og hefur óformlegur vinnuhópur sem í sitja fulltrúar lögreglu og ríkissaksóknara rætt hvernig auka mætti veg þessa úrræðis.

Sáttamiðlun er, eins og áður sagði, hluti af þeim úrræðum sem unnt er að beita við lausn sakamála og getur verið betri lausn á máli, bæði hvað varðar brotaþola og brotamann, en dómur og refsing. Hins vegar hefur ekki verið gerð formleg könnun á því hvernig árangurinn hefur verið af þeim málum sem farið hafa í gegnum sáttamiðlunarferli. Að mínu mati er fullt tilefni til að fara yfir það hver árangurinn af þessu hefur verið og hvaða áhrif það hefur haft bæði á brotaþola og brotamann. Í framhaldi af slíkri könnun yrði þá unnt að meta hvort standa ætti að sáttamiðlun á annan hátt en nú er gert og líta til dæmis til nágrannalanda okkar um slíka útfærslu.