145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

apótek og lausasala lyfja.

570. mál
[17:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil fagna síðustu orðum hæstv. ráðherra um að það eigi að endurskoða fyrirkomulag og endurskoða reglur um sölu á lausasölulyfjum, ekki síst á landsbyggðinni.

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að halda að það væri óhætt að leyfa sölu annarra lausasölulyfja en nikótín- og flúorlyfjanna í litlum pakkningum annars staðar en í apótekum. Auðvitað vilja lyfsalar það ekki og apótekerar vilja það ekki vegna þess að þeir vilja að fólk sem þarf að kaupa sér höfuðverkjatöflu þurfi að koma í apótekið til þeirra og kaupa sér kannski gotterí í leiðinni eða eitthvað, ég veit ekki. Þannig að ég vil endilega hvetja ráðherrann til dáða í þessu, ekki síst náttúrlega fyrir hinar dreifðu byggðir þar sem er erfitt að komast í lyfjaverslanir, en ekki síður, virðulegi forseti, í þéttbýli.