145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hringdi í Hagstofuna í morgun til að fá upplýsingar um síðan hvenær þær tekjutölur væru sem notaðar eru í síðustu útgáfu af félagsvísum og lífskjararannsókn Hagstofunnar. Það stóð ekki á svari. Notaðar eru tölur úr skattframtölum frá árinu 2013. Ég spurði þá um síðustu greiningar Eurostat og svarið var: Tekjutölurnar fyrir Ísland eru líka frá árinu 2013. Og í nýjustu greiningum OECD eru eldri tölur.

Ég hélt þetta líka en vildi samt fá staðfestingu frá Hagstofunni vegna þess að hv. þingmenn Framsóknarflokksins og hæstv. ráðherrar þess sama flokks eru sí og æ að segja frá og skrifa um frábæran árangur hægri stjórnarinnar í því að ná fram auknum jöfnuði og vísa í þessar greiningar. Það er hins vegar svo að allar áreiðanlegar mælingar sem til eru eru mælingar á árangri vinstri stjórnarinnar. Mér finnst gaman að eftir þeim árangri sé tekið og svona setningar gleðja mig, eins og þær sem hv. þm. Karl Garðarsson skrifaði í grein í Fréttablaðinu á dögunum og er svona, með leyfi forseta: „Þetta er í raun lygileg staða og ótrúlegur árangur.“ Og hann heldur áfram:

„Það er hins vegar áhyggjuefni að þrátt fyrir að tekjujöfnuður sé að aukast og kaupmáttur orðinn meiri, þá upplifir þjóðin það ekki svo að á Íslandi ríki jöfnuður.“

Það er ekki von að fólk upplifi ekki nú um stundir að á Íslandi ríki jöfnuður því lygilega staðan og ótrúlegi árangurinn er ekki vegna verka hægri stjórnarinnar. Mæling á jöfnuði eftir nýlegar breytingar á sköttum og gjöldum sem gagnast ríka fólkinu best, eftir hækkun matarskatts eða síðustu meðferð á kjörum aldraðra og öryrkja, er ekki til. Árangur greininganna er vegna verka vinstri stjórnarinnar. En eftir situr áleitin spurning, herra forseti. Vita hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins ekki betur eða eru þeir vísvitandi að beita blekkingum?


Efnisorð er vísa í ræðuna