145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

hagsmunatengsl forsætisráðherra.

[15:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Forseti hefur eitthvað misskilið beiðni mína áðan, ég var ekki að óska eftir því að rædd yrðu fjármál einstaklinga utan þings. Ég var að óska eftir því að hér yrði rædd sú uppákoma sem var í fjölmiðlum í dag. Forsætisráðherra hefur, í gegnum peningafélag sitt í skattaskjólslöndum úti í heimi, verið kröfuhafi íslensku bankanna á sama tíma og íslensk stjórnvöld hafa verið að semja við kröfuhafana. Finnst hæstv. forseta ekki alvarlegt mál að sami aðili sé annars vegar þeim megin við borðið sem hrægammarnir eru í dag, en í gær hafi hann verið að semja við þá? Svo dæmi sé tekið. Þetta er grafalvarlegt mál, virðulegur forseti, og ég ítreka þá ósk mína áður en lengra er haldið, áður en þetta mál verður rætt frekar, að fundi verði frestað og forsætisráðherra gefið færi á því, sem mér finnst sanngjarnt og eðlilegt, að koma í þennan sal, í þennan ræðustól, og gera þinginu grein fyrir þessu máli. (Gripið fram í.)