145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það lá fyrir yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að hér yrðu kosningar í haust, að næsta löggjafarþing sem ætti að hefjast í september mundi falla niður og það yrði kosið í haust.

Af hverju standa menn ekki við það? Þetta er ekki flókið. Þetta eru ekki geimvísindi. Það er látið eins og það sé svo flókið verkefni fram undan að ekki sé hægt að standa við það. Mér finnst kominn tími til að hæstv. forseti taki líka ábyrgð þingsins alvarlega. Samkvæmt starfsáætlun eru bara 22 dagar eftir. Hvernig sér forseti fyrir sér að það gangi upp að ljúka hér störfum á 22 dögum og að það verði boðað til kosninga áður en þing kemur saman í haust eða að löggjafarþingið sem á að hefjast í haust falli niður?

Er ekki unnið eftir neinu plani? Á þetta að bara að ráðast frá degi til dags?

Ég vorkenni okkur í stjórnarandstöðunni ekki neitt. Þetta er bara svo ljót ímynd fyrir (Forseti hringir.) þingið og þingstörfin að það er ekki bjóðandi upp á slíkt. Það eru svo óþægileg vinnubrögð sem mest má vera í upphafi ríkisstjórnar (Forseti hringir.) sem er skipuð við þessar hörmulegu aðstæður sem menn ættu ekki að gleyma strax á fyrstu viku — að hún fór frá vegna (Forseti hringir.) hneykslis og peninga í skattaskjóli hjá ráðherrum þessarar ríkisstjórnar.