145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

lágskattalönd og upplýsingar um skattamál.

[15:03]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um ummæli mín þegar ég gekk niður stjórnarráðströppurnar samhliða blaðamanni sem spurði spurninga án þess að við værum í formlegu viðtali, verða þau ummæli að það sé erfitt að eiga peninga á Íslandi að skoðast í því ljósi að þar var ég að tala um samfélagið. Þeir sem eiga fjármuni hafa alltaf, í mjög langan tíma, verið mjög á milli tannanna á fólki. (Gripið fram í: Hættu nú.) Það er einfaldlega það sem ég átti við. Það getur stundum verið erfitt. Það er oft gagnrýnivert á Íslandi. Það er einfaldlega þannig.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við stöldrum aðeins við og veltum fyrir okkur, ef við ætlum að fara í þann leiðangur sem ég hef lýst hér yfir einlæglega að við ætlum að fara í, að taka forustu um það, ríkisstjórnin, í samstarfi við þingið, og skoðum alla þá kosti sem okkur standa til boða til að koma í veg fyrir að fólk, Íslendingar í það minnsta, geti nýtt sér slíka þjónustu sem í boði er. Það gæti þýtt að fara þyrfti yfir það hvort þeir sem veita slíka þjónustu séu með einhverjum hætti gerðir ábyrgir fyrir því eins og til að mynda ríkisskattstjóri ræddi í gær og við ræddum á þingflokksfundi okkar í gær.

Hv. þingmaður spurði meðal annars hvernig við ætluðum að beita okkur fyrir því. Jú, fyrsta skrefið er auðvitað að skoða hver hin lagalega staða er. Það þarf að greina hana. Það erum við að gera. Það þarf líka að upplýsa þingið og almenning í landinu um umfangið, hvernig staðan hjá stofnunum okkar, hjá ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, Fjármálaeftirliti, jafnvel tollstjóraembættinu, og fá fjármálaráðuneytið til þess að upplýsa um það. Hugmyndin er að gera það í þinginu á næstu dögum með opnum fundi (Forseti hringir.) eða blaðamannafundi. Ég held að það séu mjög góð skref til að byrja með en auðvitað þurfum við að gera eitthvað meira í samstarfi hér á þinginu.