145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur átti sæti í nefnd, sem vitnað hefur verið til af ráðherra og Pétur H. Blöndal fór fyrir, sem skilaði af sér í mars 2015. Mikil og löng vinna var þar að baki en sjálf átti ég mjög erfitt með þátttökuna í þeirri nefnd vegna þess að forsendurnar sem okkur voru gefnar voru þær að ekki kæmi króna til viðbótar inn í kerfið heldur var nefndinni ætlað að endurdreifa fjármunum. Um það gat auðvitað ekki skapast nein sátt og þess vegna kom engin samstaða beint út úr nefndinni heldur voru greidd atkvæði um einstaka leiðir þannig að menn sæju þó að minnsta kosti hvar meiri hluti nefndarinnar lægi. Ég greiddi engin atkvæði vegna þess að ég taldi forsendurnar rangar. Ástæðan er einfaldlega sú að þegar við förum að skoða áhrifin af þessu og þegar við förum að skoða hvernig fjármunirnir færast til þá er það alltaf þannig að það verða hópar sem taka á sig byrðar.

Það sem ég óttast er að gott markmið um að setja greiðsluþak hjá þeim sem nota heilbrigðiskerfið mest geti leitt til vandamála hjá öðrum hópum. Við höfum séð það í tannlækningunum til dæmis, að þar er hópur sem hefur bara ekki efni á að sækja sér þjónustu tannlækna. Það kemur þá út í verri lífsgæðum fyrir þann hóp og sömuleiðis í því að ýmsir hópar, sérstaklega þeir tekjulægstu, koma kannski inn í heilbrigðiskerfið sem miklu þyngri sjúklingar síðar fyrir vikið.

Ég óttast að þetta geti gerst hér. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra þeirrar spurningar. Í fyrsta lagi: Hafa verið ákveðnar einhvers konar mótvægisaðgerðir fyrir þá hópa sem eru augljóslega veikir fyrir mikilli hækkun á kostnaði í heilbrigðiskerfinu?

Í öðru lagi, ef ekki: Hvernig verður fylgst með þeim hópum sem þyngstar byrðarnar munu fá á sig samanborið við tekjur?