145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina.

Við erum alla vega í færum til þess núna að fylgjast með og greina sjúklingahópa. Það er fyrst núna, eftir alla þá vinnu sem hv. þingmaður og fleiri hafa komið að, að við getum lesið þetta einhvern veginn með skynsemi og greint betur og í þeirri stöðu segi ég, þegar við erum komin með fólk og tæki sem kann að lesa úr þessu, getum við tekið næstu skref.

Ég dreg enga dul á að inngrip með nýjum áherslum o.s.frv. gætu þess vegna farið á ranga staði. Ég tel mjög mikilvægt að við komum kerfinu á, vinnum með það og náum tökum á því og tökum svo ákvarðanir um þessa þætti sem hv. þingmaður hefur meðal annars talað fyrir og barist fyrir að komi inn með aukinni greiðsluþátttöku ríkisins í. Það er alveg óumdeilt. En við getum á sama tíma líka viðurkennt að sumir sjúklingar í heilbrigðiskerfinu höfðu til dæmis ekki hag af því að þessum kerfum yrði steypt saman, lyfjakerfinu og heilbrigðisþjónustukerfinu, því að sumir eru fastari í öðru kerfinu.

Það er því að mörgu að hyggja í þessu og þegar hv. þingmaður spyr hvort einhverjar mótvægisaðgerðir séu hugsaðar í þessu gagnvart einstökum hópum eða tilteknum sjúkdómsgerðum eða öðru því um líku þá erum við ekki komin á þann stað. Það eru meðal annars þær breytingar sem gerðar voru í greiðslukerfinu sem hafa leitt til þess hversu ógegnsætt og flókið það varð í áranna rás, að menn voru alltaf að reyna að mæta slíkum eðlilegum og sjálfsögðum óskum eða kröfum. Ég tel að þegar við erum komin með (Forseti hringir.) kerfið í þann farveg sem hér eru lögð drög að þá verðum við í miklu betri færum til þess að geta gert það með skynsamlegri hætti en hingað til hefur verið gert.