145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Jú, en það má í grunninn segja líka að okkur hafi kannski skort tækin, m.a. í þessu frumvarpi, til að heilsugæslan hefði tök á því að fá aðgang að þeim sjúklingum sem þarna undir heyra, þ.e. að hún hafi færi á því að vera sá stjórnandi sem hún þarf að vera.

Ég geri mér alveg ljóst að þessar breytingar eru umdeildar, eðlilega, á ýmsum stöðum. Ég geri alveg ráð fyrir að sérfræðingar úti á markaði verði ekki ýkja hrifnir með allt það sem stendur í þessu, m.a. út af breytingum á gjaldskrá á almenna notendur o.s.frv. En það er grundvallaratriði í mínum huga að þetta mál, eins og það er búið í hendur þingsins, létti byrðum af þeim sem veikast standa í kostnaði í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það hefur verið sem betur fer sameiginlegt áhugamál (Forseti hringir.) okkar hér inni að breyta þeim veruleika.

Ég skora á þingið að taka þessu vel og nefndina að vinna eins vel úr þessu eins og mögulegt er og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem sett (Forseti hringir.) hafa verið fram og eiga eftir að koma fram í umræðunni um málið.