145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri þá játningu í upphafi máls míns að ég hef ekki kynnt mér til hlítar innstu efnisatriði þessa máls, en mér finnst hins vegar að menn taki því furðu illa miðað við að við erum aðeins í 1. umr.

Margt í frumvarpinu horfir til framfara. Eitt af því sem ég gleðst ákaflega yfir er að í reynd er verið að skera burt versta skavanka heilbrigðisþjónustunnar, þ.e. að nokkur hópur fólks getur orðið feikilega illa úti gagnvart heilbrigðiskerfinu, getur lent í því að vera með sjúkdóma sem það þarf að leita sér lækninga við sem kostar viðkomandi nánast aleiguna. Höfum við ekki séð svakaleg dæmi í fjölmiðlum þar sem fólk þarf bókstaflega að selja ofan af sér fasteignir, missir allt sem það á til þess að standa skil á kostnaði? Slíkt á ekki að sjást í samfélagi eins og okkar. Þetta gerðist eigi að síður vegna þess að menn stóðu ekki vaktina á síðustu árum og líklega áratugum. Allt í einu erum við komin í þessa stöðu, sem var óþekkt áður fyrr. Í frumvarpinu er skorið á þetta og ég fagna því.

Eins og ég skil málið þá leiðir það líka til þess að börn sem eru innan 18 ára aldurs fá ókeypis þjónustu og ég fagna því. Í þriðja lagi fagna ég því að í frumvarpinu finnst mér verið að stíga skref að því að taka upp tilvísunarkerfi, sem þarf til þess að koma stjórn á heilbrigðiskerfið okkar. Í öllu falli ætla ég að leyfa mér þann munað að skoða þetta frumvarp með jákvæðum augum og ég hvet þingmenn til þess.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Í reynd er það þannig, er það ekki, að hægt væri að samþykkja frumvarpið með einni breytingu, hv. þingmaður gæti jafnvel gert það? Niðurstaðan er sú að 30% þeirra sem (Forseti hringir.) þurfa að greiða fyrir heilbrigðismeðhöndlun fá lækkun á kostnaði en 48% fá hækkun. En getum við, sem erum að slást fyrir því að komast inn í samfélag sem býr við gjaldfrjálst kerfi, ekki sagt að þetta sé fyrsta skrefið í átt að því? Ef við berjumst fyrir því í framhaldinu, í fagnefndinni, (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra komi með peninga sem geri að verkum að þessi 48% þurfi ekki að eiga greiða meira, (Forseti hringir.) erum við komin með mjög gott kerfi. Ég tel því að hæstv. ráðherra sé búinn að stíga fyrstu skrefin að því kerfi.