145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í þessum mikla bjölluhljómi stíg ég í pontu og svara hv. þingmanni, sem fer í mikla vörn fyrir þetta mál. Þetta mál felur margt gott í sér. Þessi vinna hefur staðið lengi og verið þverpólitísk, en menn eru samt ekki staddir á sama stað. Ég tók fram að margt væri gott og ánægjulegt eins og það að koma því fólki sem hefur glímt við langtímaveikindi eins og krabbamein og afleiðingar slysa undir þetta þak. En gallinn á gjöf Njarðar er sá að það er verið að velta kostnaði yfir á aðra notendur heilbrigðiskerfisins sem hafa ekki endilega burði til að rísa undir því. Þó að það fólk falli ekki í þann hóp að það fari undir þetta þak þá er samt sem áður um að ræða mjög hátt hlutfall af þeim tekjum sem það hefur, sem það þarf þá að greiða ef það sækir heilbrigðisþjónustu. 85.000 almennra notenda munu taka á sig 31% kostnaðarauka og 37.000 lífeyrisþegar munu taka á sig 73% kostnaðarauka. Ég tel það ekki réttlætanlegt.

Þó að margt gott hafi náðst fram í frumvarpinu vantar miklu meiri fjármuni inn. Það er ekki hægt að hræra bara upp í pottinum sem fyrir er, heldur vantar fjármuni þarna inn. Ég treysti því ekki fyrr en ég tek á því að stjórnvöld (Forseti hringir.) komi með aukna fjármuni inn í þetta. Það hefði þurft að liggja fyrir samhliða ríkisfjármálaáætlun, hún hefði átt að vera komin fram.