145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að mér þykir svolítið skrýtið að standa hér eins og þingstörf gangi sinn vanagang, sem ég tel þau ekki gera. Ég minntist örstutt á það áðan að það er sérstök tilfinning að lesa þetta ágæta mál og mynda sér skoðanir á því og vera síðan truflaður af trumbuslætti hér fyrir utan og rauðum spjöldum í okkar garð, og láta eins og ekkert hafi í skorist. Mér finnst alveg þess virði að nefna það í upphafi ræðu, sem ég ætla þó að reyna að halda efnislegri, um málið sem er til umræðu.

Við erum í 1. umr. þannig að það er ekki endalaust mikið hægt að segja um málið nema að maður fagnar auðvitað þeim málum sem maður tengist, enda sjúkratryggingar ansi viðamikill málaflokkur. Eins og ég skil þetta frumvarp núna er hugmyndin sú að draga úr því að fólk upplifi miklar sveiflur í kostnaði þegar það nýtir sér heilbrigðisþjónustu, þannig að markmiðið er mjög jákvætt að mínu mati og eftir því sem ég fæ best séð. Mér þykir rökrétt út frá hugmyndafræðinni um að við sem samfélag eigum að hjálpa hvert öðru að fólk sem þarf að nota kerfið mikið og oft fái meiri aðstoð en fólk sem þarf það lítið og sjaldan. Mér þykir hugsunin í því ágæt og virðingarverð.

Ég átti stutt þingspjall áðan við hv. 3. þm. Reykv. s. um tilvísunarkerfi og ég verð að viðurkenna að ég þekki þann málaflokk ekki mjög vel enn þá. En mér þykir þessi lausn í tilvísunarkerfi áhugaverð og málefnaleg þótt ég hafi pínulitlar áhyggjur af því að ef það myndast tortryggni í sambandi við það hvernig tilvísanir virka geti það haft einhverjar neikvæðar hliðarverkanir varðandi það hvernig fólk nýtir sér þjónustuna. Að því sögðu er auðvitað markmið frumvarpsins, eftir því sem ég fæ best séð, að tryggja að auðveldara sé fyrir fólk að finna réttan farveg innan heilbrigðiskerfisins til að nýta þjónustuna á sem bestan og hagkvæmastan hátt. Það eru því ekki áhyggjur sem mundu í sjálfu sér gera mig andsnúinn hugmyndinni heldur miklu frekar eitthvað sem þyrfti að pæla í og hafa til hliðsjónar við vinnslu frumvarpsins, til að við séum viðbúin ef það kemur upp á. Vonandi gerist það ekki. En við erum fámennt land og það er margt sem gerist í fámenninu sem gerist ekki endilega hjá stærri þjóðum. Tengsl fólks, sér í lagi á fámennari stöðum, geta haft einhver áhrif þar um og það er alveg þess virði að við áttum okkur á því fyrir fram hvað getur gerst. Þá munum við væntanlega bregðast við, ýmist í nefndarstörfum við umfjöllun þessa máls eða þá ef slíkar áhyggjur raungerast.

Það var talað um í fyrri ræðum að kerfið væri stjórnlaust, sem mér finnst áhugaverð lýsing. Það hlýtur að kosta ansi mikið, ekki aðeins í peningum heldur í skilvirkni kerfisins, og koma á endanum niður á þjónustunni sjálfri ef fólk fer á ranga staði til að leita sér hjálpar. Fyrst þegar ég fór að lesa um þetta og hlusta á ræður hafði ég reyndar smá áhyggjur af því og hef enn örlitlar áhyggjur af að fólk mundi þá veigra sér við að nýta sér þjónustu. En eftir nánari athugun dregur úr þeim áhyggjum. Ég hallast að því að þetta sé hið besta mál sem komi til með að fá jákvæða umfjöllun í umsögnum. Ég hlakka mikið til að lesa umsagnir því að þær varpa oft mjög skýru ljósi á eitthvað sem maður kemur ekki endilega auga á við lestur máls, enda oft og tíðum gert ráð fyrir því að maður hafi þekkingu sem maður hefur ekki endilega.

Í andsvörum mínum áðan við hv. 3. þm. Reykv. s. var tilvísunarkerfið kallað jarðsprengjusvæði, sem mér þykir áhugavert og er í samræmi við fyrri áhyggjur mínar sem ég reifaði áðan. Eftir stutta yfirferð mína yfir málið og eftir að hafa hlustað á ræður hv. þingmanna þykir mér málið rökrétt og greinilega afrakstur þó nokkuð mikillar vinnu, sem ég ber mikla virðingu fyrir og skil mætavel að þurfi að leiða af sér breytingar sem gerast á köflum.

Frumvarpið sjálft er ekki mjög viðamikið. Það er heldur greinargerðin og fylgiskjöl sem gera það að stærra máli, frekar en beinlínis lagagreinarnar sjálfar. Hér er ýmislegt sem er útfært í reglugerð en ekki í lögum, sem er eðlilegt. Þó er eitt atriði sem mig langar að nefna, bara til þess að hafa nefnt það og ekki vegna þess að ég hafi neinar sérstakar áhyggjur af því. Það er ákvæði um heilbrigðisgrunn. Það er um heilbrigðisgögn eða grunn, miðlægan heilbrigðisþjónustugrunn sem er lagður til að verði að 29. gr. b í lögum um sjúkratryggingar. Þar er sjúkratryggingastofnun gefin sú ábyrgð að starfrækja gagnagrunn með upplýsingum um greiðslu sjúkratryggðra sem nauðsynlegar eru vegna greiðsluþátttökukerfis heilbrigðisþjónustunnar og í ýmsum algerlega lögmætum tilgangi eftir því sem ég fæ best séð. Það huggar mann að sjá að þetta virðist vera sama útfærsla og er í núgildandi 29. gr. a í sömu lögum þar sem er fjallað um miðlægan lyfjagreiðslugrunn. Fyrst þegar ég las þetta velti ég fyrir mér hvers vegna menn hefðu ekki bara breytt 29. gr. a. Svo kemur fram í greinargerð að menn vildu hafa þessi kerfi aðskilin. Ég veit ekki hvort það skiptir máli upp á það hvaða upplýsingatækni er notuð eða hvernig reglur gera að verkum að það þurfa að vera tvær aðskildar greinar fyrir þetta. En það huggar mann að þetta er í raun afritun á þegar útfærðri leið til að meðhöndla þessi gögn, sem ég geri þá ráð fyrir að sé í lagi. Að því sögðu fylgjumst við auðvitað með umsögn Persónuverndar. En eftir stutta yfirferð mína yfir greinina sé ég ekki neina hættu umfram það sem má búast við af söfnun persónulegra upplýsinga almennt. Þá er að sjálfsögðu rík áhersla á að það sé í samræmi við lög um persónuvernd og óþarfi að nefna það sérstaklega að mínu mati, það er einfaldlega sjálfsagt.

Ég vildi vekja athygli á þessu af því að það er alltaf tilhneiging til að nýta upplýsingatæknina mikið í samfélagi okkar. Það er í grundvallaratriðum gott þegar kemur að því að leysa mjög mörg vandamál en það er alltaf mikilvægt að hafa í huga að því meira sem við notum hana og því meira sem við söfnum með henni, þeim mun erfiðara verður að sjá með tímanum hversu mikið er til af upplýsingum um okkur úti um allt. Það þýðir ekki að við eigum ekki að nýta tæknina, það þýðir einungis að við þurfum að vera á varðbergi. Eins og fyrr greinir hef ég ekki sérstakar áhyggjur af þessu en kem til með að fylgjast með umsögn Persónuverndar og umræðu um þetta mál.

Annað sem ég veit ekki er hvort nú þegar hafi verið uppi gangrýni á stöðum sem ég veit ekki af varðandi þær upplýsingar sem er farið með þarna. Þá er mikilvægt að við höfum það líka í huga við setningu nýrra laga um notkun upplýsingatækninnar, að við gerum okkur grein fyrir því hvernig staðan er þá og þegar. Þótt að það sé huggandi að í grein 29. gr. a sé miðlægur lyfjagreiðslugrunnur með útfærslu sem væntanlega hefur verið prófuð í þó nokkurn tíma þýðir það ekki sjálfkrafa að allt sé í lagi. Það er víða pottur brotinn í meðferð upplýsinga í samfélaginu öllu, þar á meðal hjá ríkinu og í öllum löndum sem nýta upplýsingatæknina á annað borð. Það er því þess virði að hafa í huga hvar upplýsingar eru til nú þegar og hvernig þær verða nýttar. Það segir sig sjálft að upplýsingar um greiðslur eru líka að einhverju leyti upplýsingar um það hvaða þjónustu viðkomandi aðili eða aðilar eru að leita sér að og þar með orðnar mjög viðkvæmar.

Sem fyrr greinir hallast ég að því að þetta sé gott mál. Fólk hefur talað um að þetta séu skref. Ég held að eðlilegt sé að svona hlutir séu teknir í skrefum. Ég held að það sé auðveldara fyrir umfjöllun málsins. Þegar ný heildarlög koma hingað inn í stórum doðröntum finnst mér mun erfiðara að eiga við það heldur en ef það er í bútum sem breyta lögum. Auðvitað er hægt að rökræða það frekar, en mér þykir þetta rökrétt skref sem stendur. Að vísu hefði ég gaman af að heyra meira um gagnrýnina sem fólk hefur á þetta, þá sér í lagi við 2. umr. eftir að umsagnir hafa borist nefnd og hún fengið tækifæri til að ræða við sérfræðinga og aðra aðila.

Það er ekki mikið fleira fyrir mig að segja um þetta mál að svo stöddu, virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna en hvái ef við ætlum að venjast því að halda áfram þingstörfum um mál eins og þessi, sem eru mikilvæg, undir trumbuslætti og mótmælum frá Austurvelli. Það finnst mér mikilvægt vegna þess að svona mál eru mikilvæg, vegna þess að það er mikilvægt að við ræðum þau hér og höfum svigrúm og næði til að ræða þau. Við eigum ekki að láta eins og ekkert hafi gerst og við eigum ekki að láta eins og það sé ekki fólk fyrir utan að mótmæla. Við eigum ekki að láta eins og við sitjum hér í þökk allra landsmanna til að halda áfram þingstörfum við þær aðstæður sem hafa skapast vegna nýliðinna atburða. Mér finnst mikilvægt að það komi fram reglulega í ræðum hv. þingmanna. Það er alveg ljóst að við þurfum að geta afgreitt svona mál í þannig aðstæðum að geta rökrætt þau, ekki aðeins hvert við annað hér inni heldur líka við fólkið úti. Ég hygg að ef ég færi út úr húsi og ætlaði að fara að ræða við einstaklinga þarna úti um þetta mál væri það mjög erfitt. Ég held að fókusinn fari ekki á mál Alþingis hjá almenningi þegar slíkt ósætti ríkir. Og ósættið er vegna þess að við sitjum hér. Það er ekki endilega út af öllu sem við gerum hérna heldur vegna þessa að við sitjum hér án þess að farið hafi fram kosningar. Það truflar. Það truflar meðferð málsins, það truflaði mig þegar ég var að lesa málið. Ég álasa mótmælendum ekki en það hefur áhrif og við eigum ekki að láta eins og ekkert sé. En eins og ég sagði ætlaði ég að reyna að halda þessari ræðu sem efnislegastri og ég tel mig hafa gert það. Að því gefnu að það verði ekki undir stanslausu ámæli sem við sitjum hér hlakka ég til að ræða málið nánar í nefnd.