145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[17:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það frumvarp til laga sem hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, hefur lagt fram er um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum, og fjallar um hámarksgreiðslu sjúkratryggðra og þjónustustýringu.

Fyrir það fyrsta vil ég segja að ég fagna mjög að þetta frumvarp sé komið fram en verð jafnframt að lýsa hryggð minni yfir því miðað við ástandið í þjóðfélaginu og á Alþingi. Eftir ótrúlega síðustu viku í stjórnmálasögu Íslands er ég hræddur um að Alþingi nái ekki að klára frumvarpið á þeim tíma sem eftir er. Þetta er stórt og viðamikið frumvarp, margt gott er í því, hugmyndin og fleira, þó svo ég ætli strax í upphafi að lýsa fyrirvara mínum um frekari útfærslu, kannski sérstaklega út frá því að í frumvarpinu kemur fram að sjúkratryggðir greiða 6,5 milljarða á ári sem sinn þátt í heilbrigðisþjónustu á landinu. Þegar við lesum athugasemdir við frumvarpið — sem eru mjög góðar að mínu mati, mikið af upplýsingum er pakkað saman eftir vinnu nefndar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal heitinn, blessuð sé minning hans, vann lengi að — kemur fram að í nóvember 2007 skipaði þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nefnd til að gera tillögur að réttlátari, einfaldari og gagnsærri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu. Þar var umræddur þingmaður, dr. Pétur H. Blöndal, í forustu fyrir nefndinni en hún starfaði til ársloka 2008. Svo kemur hrunið. Í maí 2013 var sett á laggirnar nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja sem byggðist á vinnu nefndarinnar gagnvart lyfjamálunum. Ég kem að því á eftir ef ég hef tíma.

Þann 28. ágúst 2013 skipaði heilbrigðisráðherra nefnd til að kanna hvort hægt væri að fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag. Mér finnst þetta vera svo spennandi við frumvarpið, að við skulum ætla að nýta okkur það að búa til svona kerfi, 330 þús. manna þjóð, fjöldi eins og er í smáborgum í ríkjum í kringum okkur. Það er einmitt þetta sem ég held að eigi að vera svo auðvelt fyrir okkur Íslendinga að gera, að búa til heildstætt og gott kerfi. Við ráðum yfir alveg svakalegum mannauð, miklum mannauð, til að búa til alls konar kerfi, sem á bara að vera ákveðið tölvukerfi. Þegar við förum til læknis eða þurfum að leggjast á spítala eða fara til sérfræðings á í raun og veru að vera hægt að gera það þess vegna með einu heilbrigðiskorti sem hver einasti Íslendingur fær, rafræn kort, þar sem má setja ýmsar forsendur inn, að þegar viðkomandi kemur til læknis eða sérfræðings þá eigi þær upplýsingar að vera klárar og að viðkomandi þurfi ekki að rífa upp veskið í hvert skipti sem hann kemur inn, að hreinlega sé greiðsluþátttakan þarna, þetta sé gert í miðlægu kerfi. Ég tel, virðulegi forseti, að þetta sé hægt.

Ég ætla að vitna í eitt nýlegt dæmi sem var alveg frábær útfærsla í skattkerfinu hjá ríkisskattstjóra og öðrum varðandi það kerfi sem sett var upp þegar komið var til móts við skuldsett heimili í landinu með þeim útgreiðslum á því sem þar var. Ég ætla ekki að ræða frekar um það kerfi, ekkert að fara inn í upphæðir eða annað slíkt, en útfærslan á því var mjög góð og sýnir hvað við getum gert, þessi fámenna þjóð, í skattkerfi. Nægir að minna á þegar fólk telur fram til skatts að þar er nánast allt forskráð inn og viðkomandi þarf ekki annað en að samþykkja skattframtalið og þar með er það komið fram. Ég leyfi mér að halda, virðulegi forseti, að við séum með þeim fremstu í heimi hvað þetta varðar, og við skuldaleiðréttingunni þá var þetta gert eins og ég sagði.

Þá kem ég að því og segi: Hvers vegna skyldum við ekki geta gert það líka í heilbrigðisþjónustunni? Ég held að það sé hægt. En ég ítreka þann fyrirvara að kostnaðarþátttakan sem fjallað er um að sé 6,5 milljarðar á ári hjá fólki, hann finnst mér bara of hár. Ég tek undir það sem nokkrir samflokksmenn mínir hafa sagt í dag: Ég held að markmið okkar Íslendinga og okkar jafnaðarmanna sé það og við eigum að geta sameinast um það, allir Íslendingar sama hvar þeir jafnaðarmenn eru í flokki — sé ég að tveir þingmenn úti í sal brosa mjög og horfa á hvor annan, og fleiri — við eigum að geta sameinast um það að á ákveðnu árabili færum við okkur niður í það að hafa það eins og það er í Danmörku og Noregi og öðrum stöðum, eins og fjallað er um í greinargerð með frumvarpinu, að þessi greiðsluþátttaka hverfi, að þessir 6,5 milljarðar hverfi.

Virðulegi forseti. Hvaða tala er 6,5 milljarðar? Í fljótum hugarreikningi held ég að það sé um 7,5% af því sem ríkisskattstjóri sagði í fréttum í gær að væru skattundanskot á Íslandi. Hann taldi að það væru um 80 milljarðar kr. Það má setja töluna inn í ýmislegt án þess að ýfa upp pólitísk sár eða pólitíska umræðu. Má minna á að sú tala hefur horfið úr skattkerfinu á þessu kjörtímabili á einn eða annan hátt, í ýmsum lagfæringum sem gerðar hafa verið eða breytingum sem gerðar voru, þannig að upphæðin er ekki hærri en sú.

Í frumvarpinu er nefnt það sem talað er um í skýrslu nefndar Péturs H. Blöndals, þ.e. hvernig þetta er á Norðurlöndunum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í Noregi og Svíþjóð greiða notendur fasta krónutölu fyrir heilbrigðisþjónustu á grundvelli gjaldskrár með þaki á heildarkostnað á hverju ári. Í Finnlandi er svipað fyrirkomulag en greitt er hlutfallsgjald af þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Í Danmörku er almenn heilbrigðisþjónusta gjaldfrjáls en greiða þarf t.d. fyrir sérfræðiþjónustu ef hún er sótt án tilvísunar. Í samanburði þykir núverandi kerfi á Íslandi flókið og fremur ógegnsætt.“

Það tek ég sannarlega undir. Það sjáum við líka í greinargerðinni með reglugerð sem birt er um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Virðulegi forseti. Má ég líka minna á að ég gerði fyrr á þessu þingi, að mig minnir um störf þingsins, að umtalsefni nokkur dæmi sem birt voru þá í fjölmiðlum um greiðsluþátttöku krabbameinssjúklinga á Íslandi. Má ég líka minna á þau orð sem Íslendingar búsettir erlendis hafa látið falla að þeir hafi verið svo heppnir að þegar þeir veiktust þá bjuggu þeir í því landi en ekki á Íslandi. Ég fór hér með tölur sem ég er því miður ekki með við höndina núna, en það voru mjög háar tölur um þátttöku. Hv. þm. Björt Ólafsdóttir gerði þetta líka að umtalsefni.

Ég minni á þetta vegna þess að þetta er einn mesti löstur sem mér finnst vera á kerfinu á Íslandi í dag, að þegar fólk greinist með krabbamein eða aðra alvarlega sjúkdóma þá sé það háð efnahag hvort menn komist til læknis eða ekki, eða hvort það setur heimilisreikningana á hvolf við það að veikjast. Við hljótum að geta sameinast um það sem ég sagði í upphafi að greiðsluþátttakan á að vera núll. Það er fullkomið skandinavískt norrænt heilbrigðiskerfi sem við viljum bera okkur saman við. Gerum þetta á einhverju árabili. Reynum að komast að einhverju samkomulagi um að það fari svo. Ég ætla aðeins að skjóta hér inn, virðulegi forseti, vegna þess að í umræðu um kostnaðarþátttöku krabbameinssjúklinga þá blöskraði mér. Ég hafði reyndar gert það einu sinni áður að umtalsefni eftir fund sem haldinn var í Hörpu hjá samtökum sem þar voru, þ.e. krabbameinssjúkt ungt fólk, mjög góður fundur og þá gerði ég þetta að umtalsefni, og segi að þetta á að hverfa.

Ég hef lagt fram á Alþingi frumvarp um hækkun á gistináttagjaldinu sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili, sem er 100 kr. á nótt, gistieiningu. Það skilar 300 millj. kr. Mitt frumvarp fjallaði um að hækka gistináttagjaldið upp í 750 kr. og taka upp 300 eða 350 kr. gjald fyrir heimagistingu og aðra gististaði eins og tjaldstæði og fleira. Þetta átti að gefa 2,3 milljarða kr. Það var hugsað sem fyrsta átak vegna þess að svo mörg ár eru liðin sem ekkert hefur verið gert og nauðsynlegt var að gefa í hvað þetta varðar og hluti af því átti að renna til sveitarfélaga. Hvers vegna er ég að nefna þetta hér og nú? Jú, vegna þess að þegar ég lagði frumvarpið fram þá var ég jafn ákveðinn í því, þegar fjáraukalög kæmu fram á þessu þingi, að flytja breytingartillögu um að 850 millj. kr. sem ríkisstjórnin veitir í ferðamannasjóð, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um eða ekki getað, munum sneypuför hæstv. iðnaðarráðherra með náttúrupassann, komið fram með frumvarp sem gerir það að verkum að við munum fá þennan skatt af þeim sem koma til landsins til að byggja upp innviði — að þær 850 millj. kr. sem ríkisstjórnin hefur tvisvar sinnum, í tvennum fjárlögum, sett inn í ferðamannasjóð, mundu falla niður og renna til að lækka greiðsluþátttöku krabbameinssjúklinga og annarra langveikra sjúklinga strax. Þarna vildi ég benda á þær 850 millj. kr. Og 850 millj. kr. af 6,5 milljörðum eru tæp 15% svona í snöggum hugarreikningi.

Virðulegi forseti. Ég vil segja um frumvarpið að þetta eru góðar hugmyndir og vert er að ræða það. Við þurfum að gefa þessu tíma. Ég óttast tímaskort Alþingis við að klára þetta mikla mál sem við eigum að komast með. Ég sagði áðan um dagsetningar að auðvitað hefur þetta tekið of langan tíma.

Ég hef líka verið að undirbúa fyrirspurnir til hæstv. heilbrigðisráðherra sem ég hef ekki náð að leggja fram um ýmislegt varðandi lyfjakaup til Íslands. Ég segi það vegna þess að ég hef heyrt af aðila sem ég veit að þekkir vel til að stoðnet sem keypt er til Íslands og notað er í hjartaþræðingar þar sem víkka þarf út æðar, kransæðar, kosti um 90 þús. kr. á Íslandi en sambærilegt net í Noregi frekar en Svíþjóð kostar um 30 þús. kr. Þá spyr ég: Hver fær mismuninn? Ég spyr sömu spurninga í mínum huga hvað varðar lyfjakaup Landspítalans. Stundum hefur verið rætt um það að Landspítalinn eigi bara að fara að flytja sjálfur inn, eigi að taka upp samstarf við stór sjúkrahús í einhverju nágrannalandanna, einu af skandinavísku löndunum sem við eigum mikið samstarf við. Ég spyr hvað væri hægt að lækka lyfjakostnað ríkisins, Landspítalans, mikið með því að gera þetta og fara fram hjá þeim sem flytja inn lyf, leggja kannski allt of mikið á, kannski allt of lítið að þeirra mati, en ríkissjóður borgar reikninginn. Þetta eru hlutir sem við eigum að taka inn í umræðuna og sjá hvernig við getum skorið niður án þess að skerða þjónustuna, eins og kostnað við lyfjakaup, til að setja það inn í að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga, þessa 6,5 milljarða.

Virðulegi forseti. Ég hef nefnt tvö atriði í þessari 15 mínútna ræðu sem innlegg í umræðuna. Ég á ekki sæti í velferðarnefnd þannig að ég hef ekki sett mig mikið inn í þau mál hvað varðar þetta frumvarp og ágætt minnisblað sem ASÍ hefur sett fram. En ég átti sæti í velferðarnefnd þegar greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar var breytt. Ég skal alveg fúslega viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég held að tímasetningin hafi verið slæm, sérstaklega með tilliti til kosninga og ég get alveg sagt það að við þáverandi stjórnarsinnar lentum í kosningabaráttunni í mikilli baráttu og vandræðum með að svara spurningum kjósenda sem vildu eðlilega fá upplýsingar um þetta nýja greiðsluþátttökukerfi. Nú veit ég ekki hvort velferðarnefnd hefur tekið það til umræðu til að fara í gegnum reynsluna hvernig þetta hefur reynst, þarf að bæta eitthvað? Ég segi fyrir mitt leyti að ég heyri enn þá í fólki sem er ekki ósátt við hámarkið, er það ekki 45 þús. kr. eitthvað svoleiðis? En ég heyri fólk tala um öll þau lyf sem eru ekki inni í greiðsluþátttökukerfinu. Blóðþrýstingslyf, hjartalyf, ég kann ekki að nefna hvað þetta allt saman heitir, ætla ekki að fara út í það, en það eru ákveðnir lyfjaflokkar utan við þetta sem gerir það að verkum að það fólk sem þarf þau lyf hefur fengið mikla hækkun á sig. Vafalaust hafa aðrir fengið lækkun.

Lokaorð mín, virðulegi forseti, eru þessi: Þetta frumvarp er allrar athygli vert. Það væri betra ef við hefðum (Forseti hringir.) meiri tíma til að vinna það. Ég veit ekki hvort okkur tekst að klára það, ég leyfi mér að efast um það því að þetta er stórt og mikið mál. En vonandi tekst það vegna þess að ég tel að við séum að stíga skref í rétta átt (Forseti hringir.) en ítreka þá skoðun mína að lokatakmarkið á að vera það að greiðsluþátttaka sjúklinga (Forseti hringir.) falli niður og heilbrigðisþjónustan verði í raun og veru gjaldfrjáls fyrir einstaklinga.