145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[18:07]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs í dag af því að ég sit í velferðarnefnd, en ég verð að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér og nefnt hvað það er óþægilegt að standa hér í dag og ræða þessi mál í ljósi þeirra fordæmalausu atburða sem átt hafa sér stað í samfélaginu. Ég velti því líka fyrir mér hvernig við eigum að taka á þessu máli því nú sit ég í hv. velferðarnefnd þar sem 23 mál liggja á borði hennar og mörg gríðarlega mikilvæg, ég nefni bara húsnæðismálin og aðgerðaáætlun og stefnu í geðheilbrigðismálum sem er gríðarlega mikilvægt mál og mikilvægt að við klárum núna á vorþingi. Þess vegna hefði manni fundist það mjög viðeigandi í dag á fyrsta þingdegi nýrrar ríkisstjórnar að tilkynnt væri hvernig starfsáætlun ætti að vera. Það er engin starfsáætlun og það er allt upp í loft í þeim málum sem er mjög erfitt. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvernig við eigum að fara að því að kljúfa þetta. Hvaða mál leggur ríkisstjórnin áherslu á? Ég veit náttúrlega að þetta mál er gríðarlega jákvætt og mjög jákvætt skref vegna þess að það kerfi sem við höfum búið við er náttúrlega alveg skelfilegt og hefur haft gríðarlegan kostnað í för með sér fyrir margar fjölskyldur, sérstaklega þeirra sem eiga í erfiðum sjúkdómum. Þess vegna er afskaplega jákvætt að kostnaður skuli vera að lækka, þó að mér finnist það mjög neikvætt að ekki hafi mátt bæta neinu fjármagni við, það er bara verið að færa til, það er kerfisbreyting í þessu. Það er ekki verið að setja meiri peninga í kerfið sem er mjög bagalegt.

Ég fagna því líka að efla eigi heilsugæsluna sem er náttúrlega eitt það mikilvægasta sem við getum gert í heilbrigðismálum Íslendinga. Það hefur komið fram áður í máli hv. þingmanna að bæta þurfi t.d. sálfræðiþjónustu og fá næringarfræðinga í heilsugæsluna til að takast á við þau vandamál sem við erum helst að glíma við í dag, geðheilbrigðismál og jafnvel offitu og önnur lífstílstengd mál. Það mundi örugglega lækka kostnað til lengri tíma litið, t.d. lækka sérfræðikostnað sem er gríðarlegur. Það eru ofboðslegir peningar sem fara í sérfræðinga og sérgreinalækna á Íslandi, ævintýralegar upphæðir sem væri örugglega hægt að lækka ef þetta væri gert svona. Þetta eru í raun forvarnir líka.

Hv. þm. Björt Ólafsdóttir nefndi áðan geðrænu vandamálin sem eru gríðarlega stór í dag. Ég hef miklar áhyggjur af þeim. Þrátt fyrir að verið sé að taka þetta jákvæða skref þá er ofboðslega stór hópur sem lendir utan garðs, m.a. 6 þús. börn sem líða varanlegan skort á Íslandi, eins og kom fram í skýrslu UNICEF. Það er einmitt þessi hópur sem veigrar sér við að fara til læknis. Það eru 4 þús. eldri borgarar sem búa við hungurmörk. Þeir veigra sér líka við að fara til læknis. Þó að lyfjakostnaður þeirra sé kannski ekkert mjög hár þá fara þeir samt ekki til læknis. Í öllu havaríinu fyrir áramót í sambandi við afturvirkar bætur þá fékk maður símtöl frá eldri borgurum sem sögðust neita sér um læknisþjónustu og lyf vegna þess að þeir ættu ekki peninga til þess.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmönnum sem hafa komið að því að við í þessu landi ættum að búa við nánast gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu. Þjóð sem er svona rík af auðlindum bæði til sjávar og sveita á ekki að þurfa að láta fólk borga stórar upphæðir í lækniskostnað. Þá horfir maður til dæmis til Danmörku. Ég man þegar ég bjó þar til skamms tíma þá var það fyrsta sem við fengum þar kort sem maður sýndi í hvert skipti sem maður þurfti á lækni að halda. Auðvitað ætti það að vera svoleiðis á Íslandi líka.

Ég velti því líka fyrir mér, þar sem ekki voru lagðir meiri peningar inn í þetta og fjármagn fylgdi ekki þessum breytingum heldur eiga þær bara að vera kerfisbreytingar, hvernig við náum í meiri peninga. Þessi ríkisstjórn hefur verið afskaplega dugleg við að afsala sér tekjum. Það er auðlindagjaldið í sjávarútveginum eða veiðigjaldið, lækkun á tekjuskatti, auðlegðarskatturinn sem var lagður af, 80 milljarðar í skuldaleiðréttingu sem var fáránleg ákvörðun, í staðinn fyrir að nýta það fé í að byggja upp heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi Íslands. Við ættum að vera í allt annarri stöðu í dag og ættum ekki einu sinni að þurfa að vera að ræða það, þetta frumvarp ætti að vera löngu afgreitt ef við hefðum gert þetta þannig.

En það er svona. Menn hafa misjöfn forgangsmál. Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu þeirra sem nóg eiga. Það er staðreynd. Því miður bitnar það á þeim sem minna eiga og meðal annars á heilbrigðisþjónustu í landinu.

Ég ætla samt að vera jákvæður. Þetta er jákvætt skref. Við þurfum að halda áfram á fullum dampi við að lækka þennan kostnað, lækka greiðsluþakið og gefa öllum kost á því að fá fullkomnustu þjónustu sem völ er á. Við höfum mannauð til þess. Ég vil benda á að 6 þús. íbúar landsins bíða eftir aðgerðum þannig að það er af ýmsu að taka. Það eru næg verkefni fram undan.

En þetta er jákvætt skref svo ég segi það nú einu sinni enn. Það er líka jákvætt að setja upp gagnagrunn, ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að hafa þetta allt á einni hendi. Ég var með fyrirspurn til ráðherra fyrir ekki margt löngu þar sem við vorum einmitt að tala um gagnagrunn þar sem haldið væri utan um t.d. þá sem þurfa á hjálpartækjum að halda, bílastæðakortum og öðru, þannig að ekki þyrfti endalaust að sækja um hjálpartæki.

Ég segi það að við eigum líka að fara í það á fullum dampi að klófesta skattundanskot og þá sem svíkja undan skatti á Íslandi. Talað er um að það séu 80 milljarðar á ári sem svikið er undan skatti, bara á Íslandi, fyrir utan það sem hefur verið mest til umræðu á þinginu undanfarið, aflandskóngana og þá sem fara þangað með peninga sem þeir hafa aflað sér á Íslandi. Það er svívirðilegt. Það er það sem gerir að verkum að við getum ekki rekið almennilegt samfélag, fullkomið velferðarsamfélag. Ef það er eitthvað sem við eigum að taka höndum saman um þá er það að ráðast að þessari vá og fá það fólk sem er með peningana sína í aflandseyjum og skattaskjólum til að hunskast með þá heim til að taka þátt í samfélaginu og byggja það upp með okkur sem erum að reyna af veikum mætti að reka gott samfélag. En það gerum við ekki á meðan við erum með fólk sem er tilbúið að svíkja þjóðina með því að hafa peningana sína annars staðar. Það er það sem við ættum að gera. Ef við gerðum það þá ættum við að geta rekið fullkomið heilbrigðis- og velferðarkerfi, gjaldfrjálst, og færum létt með það. Við þurfum að fá peninga frá þeim sem eiga þá á Íslandi. Það er nóg af fólki sem á peninga á Íslandi og ekki síst það sem hefur aðgang að auðlindum okkar og borgar ekki sanngjarnan arð til samfélagsins. Það er það sem við eigum að vinna að. Þá er þetta ekki vandamál.

En ég hef áhyggjur af því hvernig við förum að því að vinna þetta mál í velferðarnefnd vegna þess að þar liggur mikið á borðinu eins og húsnæðismálin og fleira. Ég nefni sérstaklega geðheilbrigðisstefnu hæstv. ráðherra. Við hefðum náttúrlega getað klárað í þessari viku ef þetta havarí hefði ekki allt saman komið. Ég mun ekki liggja á mínu liði til að vinna þessu máli brautargengi. Þetta er gott mál. Þetta er gott fyrsta skref, en við megum ekki slaka á heldur halda áfram á fullum dampi.