145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[18:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þá ágætu umræðu sem hefur átt sér stað við 1. umr. málsins þar sem ýmis sjónarmið hafa komið fram, sem eru mikið og gott veganesti inn í velferðarnefnd þar sem unnið verður með frumvarpið. Ég get líka borið fram þá ósk að sátt takist um þetta mál vegna þess að málið er, eins og ég hef áður sagt, fyrsta skref í átt að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu, en ég er þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum að taka hana upp innan nokkurra ára.

Það sem mig langar að gera að umtalsefni í þessu stutta andsvari við hæstv. ráðherra er hlutur sem ég kom ekki að áðan eða réttara sagt gleymdi. Í kostnaðarumsögninni er talað um að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir því að greiðsluþak fyrir aldraða, öryrkja og börn verði ekki hærra en nemur tveimur þriðju af greiðsluþaki annarra sjúkratryggðra. Mig langar að gera að umtalsefni og tengja svolítið við það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan að ég sé fyrir mér einhvers konar heilbrigðiskort sem hver Íslendingur fengi og notaði þegar hann þyrfti á heilbrigðisþjónustu, lyfjum eða öðru að halda. Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í er sá hópur sem er ekki talinn upp í þessu og á ekki að fara niður, þ.e. lágtekjufólk á Íslandi. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað með fullfrískt fólk sem er með útborgaðar 200 þús. kr. á mánuði eða jafnvel minna? Nú skulum við vona, virðulegi forseti, að áform okkar allra um að lágmarkstekjur á Íslandi verði 300 þús. kr. á mánuði árið 2018, 210–220 þús. kr. eftir skatt, verði að raunveruleika og þá er spurningin þessi: Hvað eigum við að gera fyrir þetta fólk? Þegar þetta fólk veikist, lágtekjufólk, getur það sett allt á annan endann. Mér finnst að við þurfum að taka tillit til þess og að það eigi að vera hlutverk m.a. velferðarnefndar að skoða þann þjóðfélagshóp sem er með lágmarkslaun útborguð (Forseti hringir.) og heilbrigðisþjónusta, mikil lyfjanotkun eða (Forseti hringir.) rannsóknir eða annað slíkt getur settu þau á höfuðið. Eigum við ekki að taka inn í lágtekjufólk?