145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

aðgerðir til að takmarka plastumbúðir.

602. mál
[16:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka innilega þessar ágætu umræður. Ég vil vekja athygli Alþingis á því að þetta virðist vera kvennamál. Ég vona svo sannarlega að karlpeningurinn láti sig þetta líka varða, því að eins og komið hefur fram í þessari ágætu umræðu þá er um vá að ræða. Þetta er sannarlega vá og á þessu eigum við að taka með öllum ráðum. Það þarf fjölbreyttar aðgerðir.

Ég heimsótti fyrirtækið Sorpu nýlega. Þau bentu mér á að plastpokar væru raunverulega angi af miklu stærra máli. Þessar miklu umbúðir væru að þeirra mati stærra og verra vandamál en plastpokarnir sem slíkir. Við höfum farið af stað með það verkefni, en auðvitað er eðlilegt að byrja einhvers staðar. Þetta PC-plast er mjög örðugt viðureignar og við getum reynt að stuðla að því að banna það.

En hér kom þessi gullna setning: „En neytendur vilja þetta.“ Þess vegna talaði ég um vitundarvakningu. Hún er mjög mikilvæg, þannig að neytendur vilji það ekki. Það er það sem við þurfum að ná fram, að framleiðendur skilji að þetta gengur ekki lengur.

Ég sé það eins og við öll að unga fólkið sleppir ekki plastflöskunni. Auðvitað getur það endurnýjað vatnið í plastflöskunni, en vandinn vex og vex. Það er eiginlega ekki boðið upp á neitt annað, á borðum þar sem maður kemur á fundi, en vatn í plastflöskum. Þó að við tækjum eingöngu á því yrði það stórt skref.