145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek alvarlega fréttum af aflandsfélögum og skattsvikum tengdum þeim og vil að öllum ráðum verði beitt til að komast til botns í þeim málum og draga hina brotlegu fyrir dómstóla. Ég treysti þeim eftirlitsstofnunum sem bera ábyrgð á þeim málum og ég vil treysta löggjöf þeirra til að hreinsa óþverrann út úr banka- og fjármálakerfinu sem ber ábyrgð á allri Tortóluskítafýlunni. Í þinginu skulum við sækja fram. Við Íslendingar erum með kjöraðstæður til að sækja fram á mörgum sviðum og við getum haldið áfram að bæta hag heimila í stað þess að glutra tækifærunum niður með innbyrðis sundrungu og upplausn eins og er í samfélaginu í dag.

Virðulegi forseti. Það er hættumerki sem okkur ber að varast þegar kynt er undir ólgu og sundrungu í samfélaginu. Ríkisstjórnin hefur rekið ríkissjóð hallalaust allt kjörtímabilið, fellt niður vörugjöld og tolla, aukið kaupmátt og launin hafa hækkað. Við höfum lækkað skatta á almenning og fyrirtæki, við höfum hækkað skatta á fjármálafyrirtæki og áfram skal haldið til að bæta lífskjör öryrkja og eldri borgara með nýjum almannatryggingalögum, barátta sem stendur yfir og er eitt af þeim stóru málum sem þetta þing þarf að klára.

Frumvarp um greiðsluþátttöku og jöfnun í heilbrigðiskerfinu sem heilbrigðisráðherra hefur lagt fram, er gott fyrsta skref. Þar má sjá að allt að 39 þús. barnafjölskyldur í landinu geta farið í gegnum kerfið með tilvísun án þess að borga krónu. Samkvæmt þjóðfélagsgæðavísitölu sem mælir árangur sem við náum varðandi lífsgæði fólks og heilbrigði þjóðfélagsins er Ísland í 4. sæti af 133 löndum á eftir Noregi, Svíþjóð og Sviss.

Virðulegi forseti. Íslenskt samfélag er í stórsókn til betri lífskjara í landinu samkvæmt öllum mælanlegum kennitölum og við þurfum ekki að deila um það. Ætlum við að glata þessu tækifæri til sóknar með innbyrðis sundrungu og upplausn samfélagsins? Ég segi nei.


Tengd mál