145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[17:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum, um eftirlit með störfum lögreglunnar. Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót þriggja manna stjórnsýslunefnd sem hafi eftirlit með störfum lögreglu og að við embætti ríkislögreglustjóra verði starfrækt innra eftirlit með störfum lögreglunnar.

Markmið frumvarpsins er að borgari sem telur að starfsmaður lögreglu hafi brotið gegn rétti sínum geti treyst því að leyst verði úr máli hans með viðeigandi hætti. Þá er það einnig markmið frumvarpsins að huga að réttindum lögreglumanna í starfi enda hagur lögreglunnar að skýrar reglur gildi um eftirlit með störfum hennar. Mikilvægt er að tryggja málsmeðferð þar sem skilvirkni, gegnsæi og aðkoma borgarans eru höfð að leiðarljósi.

Hæstv. forseti. Frumvarpið byggir á vandaðri vinnu nefndar um meðferð kvartana og kærumála á hendur lögreglu sem skilaði af sér í október á síðasta ári. Skipun nefndarinnar mátti rekja til ábendinga umboðsmanns Alþingis og ríkissaksóknara um þörf á auknum úrræðum borgaranna til að bera fram kvartanir vegna samskipta við lögreglu og þá einnig í þeim tilvikum þar sem kvörtun beinist ekki að ætlaðri refsiverðri háttsemi lögreglumanna. Nefndinni var falið það verkefni að leggja mat á núverandi kerfi og lagareglur og gera tillögu að lagabreytingum og breyttu verklagi.

Eftirlit með störfum lögreglu er almennt þríþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða innra eftirlit lögreglunnar sjálfrar með framkvæmd lögreglustarfa sem er í höndum ríkislögreglustjóra og yfirmanna lögregluembættanna, í öðru lagi meðferð kæru á hendur starfsmanni lögreglu um refsiverða háttsemi í starfi og í þriðja lagi meðferð kvartana á hendur lögreglu vegna framkvæmda í starfi.

Í núgildandi lögreglulögum er mælt fyrir um hvernig fara skuli með kærur á hendur lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa en ekki er að finna sérstök ákvæði sem kveða á um með beinum hætti hvernig fara skuli með kvartanir á hendur lögreglu vegna einstakra starfa eða starfshátta lögreglu almennt. Þannig er ekki til heildstæður farvegur fyrir kærur og kvartanir á hendur starfsmönnum lögreglu vegna starfa þeirra. Ekkert heildstætt regluverk er til um meðferð slíkra mála, auk þess sem upplýsingagjöf til almennings um úrræði til að koma kærum og kvörtunum á framfæri er af skornum skammti. Eitt af markmiðum þessa frumvarps er að bæta úr þeim vanköntum.

Hæstv. forseti. Eins og áður segir er frumvarpið að mestu leyti byggt á tillögum nefndar um meðferð kvartana og kærumála á hendur lögreglu, en megintillaga nefndarinnar var að komið yrði á fót, eins og umræða fór aðeins í gang um áðan, þriggja manna stjórnsýslunefnd sem hafi eftirlit með störfum lögreglunnar. Eftir almennt samráðsferli á vef innanríkisráðuneytisins er til viðbótar við tillögu nefndarinnar lagt til að fara eftir tillögu ríkislögreglustjóra og leggja til innra eftirlit lögreglu með störfum lögreglu sem verði starfrækt hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Í þessu frumvarpi er þannig í fyrsta lagi lagt til að ráðherra skipi þriggja manna stjórnsýslunefnd, eftirlitsnefnd með störfum lögreglu, sem hafi það verkefni að taka við erindum frá borgurunum, yfirfæra þau og greina hvort um sé að ræða kæru um refsiverða háttsemi eða kvörtun er lúti að starfsaðferðum lögreglunnar. Nefndin komi erindunum í viðeigandi farveg, hvort heldur sem er hjá héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara, viðkomandi lögreglustjóra eða ríkislögreglustjóra. Þessum embættum ber jafnframt að tilkynna nefndinni um kærur og kvartanir sem berast embættinu beint frá borgurunum og tilkynna nefndinni um niðurstöður mála þegar þær liggja fyrir. Með því verður tryggt að erindi borgarans verði tekið til viðeigandi skoðunar og meðferðar.

Nefndin mun einnig hafa það hlutverk að taka til athugunar mál þegar manneskja lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni vegna aðgerða eða aðferða lögreglunnar eða meðan viðkomandi var í umsjá hennar. Hún skal taka þessi mál til skoðunar óháð því hvort grunur sé um refsivert brot. Þá getur nefndin jafnframt tekið verklag eða atvik til skoðunar að eigin frumkvæði telji hún tilefni til þess. Ekki er gert ráð fyrir því að nefndin taki beinan þátt í meðferð máls sem hún beinir annað, hins vegar geti hún komið á framfæri athugasemdum við málsmeðferðina og niðurstöðu málsins ef tilefni þykir til. Nefndin verði skipuð þremur nefndarmönnum, einum tilnefndum af Lögmannafélagi Íslands, öðrum af Mannréttindaskrifstofu Íslands en sá þriðji verði skipaður af innanríkisráðherra sem verði jafnframt formaður nefndarinnar.

Í öðru lagi er með frumvarpi þessu lagt til að embætti ríkislögreglustjóra skuli starfrækja innra eftirlit til að auka gæði löggæslu og málsmeðferðar hjá lögreglunni. Embættið hefur nú þegar vissu eftirlitshlutverki að gegna í innra starfi lögreglunnar, en þeirri tillögu sem hér er lögð fram er ætlað að festa það hlutverk í sessi. Innra eftirliti ríkislögreglustjóra er ekki ætlað að hafa áhrif á stjórnunarheimildir lögreglustjóra sem fara með stjórn lögregluliðs, hver á sínu svæði. Í innra eftirliti felast m.a. úttektir á uppflettingum í gagnagrunnum lögreglu, vettvangseftirlit, eftirlit með því að lögum og verklagsreglum sé fylgt ásamt öðrum aðgerðum sem eru til þess fallnar að ná þeim markmiðum sem lögregla vinnur að lögum samkvæmt.

Hæstv. forseti. Er þá komið að því að ræða hvort þetta frumvarp gangi nógu langt, hvort það sé fyrsta skref eða hvort ekki eigi að leggja fram frumvarp af því tagi sem hér er lagt til. Ég vil vera einlæg við þingheim með það að ég hef sjálf verið mjög hugsi yfir því hvort það kunni að þurfa að stíga stærra skref og koma á öflugra eftirliti með störfum lögreglunnar. Í því skyni var, eftir að nefndin skilaði af sér, haldin málstofa um nákvæmlega þetta efni þar sem þeir sem sátu í þessari tilteknu nefnd ræddu málin auk lögreglumanna og fleiri aðila til að fara yfir þessar hugmyndir og enn fremur að setja málið á dagskrá. Ég er þeirrar skoðunar að ekki verði lengur búið við það að ekki séu tekin skref í þessa átt. Ég vil deila þeirri skoðun minni með þingheimi að það hefur tekið okkur of langan tíma að stíga framfaraskref þegar litið er til eðlilegs eftirlits með lögreglunni en við skulum gæta að því líka að það er nokkuð sem hún finnur sjálf að gott er að hafa.

Mínar hugleiðingar um þetta mál eru kannski ekkert svo langt í burtu frá þeim hugrenningum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræddi hér áðan og snúa ekki síst að því að um langa hríð hafa þeir sem með þessi mál fara haft þá skoðun að í tilteknum tilvikum sé rétt að auka við rannsóknarheimildir lögreglu. Mín skoðun er sú að það sé alveg ófært að stíga slík skref án þess að menn hafi fyrst farið í gegnum þá umgjörð sem um slíkt eftirlit þarf að gilda, þ.e. áður en menn koma með nánari hugmyndir. Nú skal tekið fram að menn hafa rætt þetta í þingsal mörgum sinnum áður. Gagnlegar nefndir hafa verið settar á laggirnar, t.d. um það tiltekna mál. Í allri þeirri vinnu hefur rauði þráðurinn verið sá að um leið og Alþingi veitir yfirvöldum ríkar heimildir sem þeim er treyst fyrir sé ekki óeðlilegt að Alþingi sjálft geti með einhverjum hætti haldið utan um þær heimildir sem það hefur veitt. Reynir þarna töluvert mikið á samspilið milli löggjafarsamkundunnar og framkvæmdarvaldsins.

Þess ber að geta líka að þegar þessi vinna var í gangi — ég hygg að sú nefnd sem ég er að hugsa um núna, um rannsóknarheimildirnar, hafi verið sett á laggirnar fyrir allt að þremur kjörtímabilum — höfðum við ekki breytt hér reglum um skipan nefnda Alþingis, heldur var í því tilviki verið að hugsa um gömlu hv. allsherjarnefndina. Þarna er hugsunin sú að með því að Alþingi sjálft blandi sér í þessi mál, sé fulltrúi þjóðarinnar í því að tempra vald, sé líka gætt að því að ekki bara stjórnarmeirihluti á tilteknum tíma fari með slíkt, heldur sé þetta mál af þeim toga og varði miklu um persónufrelsi og aðra hluti um leið og það skiptir miklu máli fyrir rannsóknarhagsmuni að það þurfi breytt samkomulag um að óhætt sé að veita slíkar heimildir.

Nú hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verið sett á laggirnar. Hún á að vissu leyti að vera eðlisólík öðrum nefndum. Ég hef sjálf reynslu af að sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hún hefur dálítið önnur verkefni með höndum. Auðvitað er hún enn þá að slípast til og mótast. Hún hefur t.d. það verkefni að fara yfir allar skýrslur sem koma frá ríkisendurskoðanda og er þar mikið aðhaldshlutverk á ferðinni. Svo er alls konar annað sem hún vélar um. Ég held að það muni yddast með tímanum hvernig hennar starf fer fram. Í þeirri nefnd er gríðarlega mikilvægt að þingmenn líti upp úr sínum venjulegu pólitísku átökum sem eru eðlileg í störfum þjóðþinga en dálítið aðrar kröfur eru lagðar á menn sem sitja í þeirri tilteknu nefnd af því að hún hefur, í mínum huga, töluvert mikla sérstöðu. Að því leyti til finnst mér alveg koma til álita, og er satt að segja töluvert þannig þenkjandi sjálf, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gæti haft mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að huga að lýðræðislegu eftirliti með tiltekinni starfsemi.

Ég hygg hins vegar, og vil ítreka það, að menn þurfi að vera búnir að botna þessa umræðu alla áður en menn koma síðan með hugmyndir eða tillögur um heimildir nema hægt sé að gera það í einu lagi sem að sjálfsögðu er ekki útilokað mál. Mér finnst enn þá að við séum að stíga skref inn í þessa umræðu. Við þurfum alltaf að gæta að því að við erum á dálítið ókunnum slóðum að þessu leyti til þegar við hugsum um að framkvæmdarvaldið starfi með ákveðnum hætti og síðan sé Alþingi með sitt hlutverk, en við skulum ekki gleyma því að þarna erum við að tala um hluti sem snúa að grundvelli réttarríkisins sjálfs. Það er ekkert óeðlilegt að mínu mati að reynt sé að byggja brú yfir til þingsins þegar svo er.

Virðulegi forseti. Mitt mat er það að til þess að koma með skynsamlegar tillögur af þessu tagi, og nú kem ég að því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði eftir, þurfum við töluvert meiri tíma til undirbúnings málinu, dýpri umræðu í samfélaginu, að menn takist hreinlega á um kosti og galla á leiðunum. Ég ítreka að ég er alveg eindregið þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að bíða með að stíga ákveðin skref til að auka eftirlit með lögreglunni. Þess vegna held ég því hér fram að þetta frumvarp sé fyrsta skref í því að gera frekari breytingar. Ég óska þess að Alþingi framtíðarinnar lánist að gera það og herða betur á eftirliti með lögreglunni. Ég hygg að það sé ekki óskynsamlegt fyrir okkur að þessu sinni að láta reyna á þá virkni sem í þessu frumvarpi felst, láta reyna á hugmyndina og tillögu um stjórnsýslunefnd og sjá hvernig okkur farnast með það, en á sama tíma huga að því hvernig við getum tekið stærri skref á þeim nótum sem ég hef reifað. Þá á ég jafnvel við að ræða það sem við höfum stundum verið feimin við að ræða, hreinlega hversu langt er hægt að ganga í að veita auknar rannsóknarheimildir. Það eru alltaf ytri mörk á því. Þetta vil ég að komi fram í þessari umræðu.

Á endanum var mat mitt það að ekki væri ástæða til að bíða lengur með þetta mál, það væri vert að nýta tímann og komast áfram með það. Nú fer það til meðferðar í þinginu. Ég óska þess að allsherjarnefnd ræði töluvert opinskátt tilganginn með frumvarpi af þessu tagi. Alveg eins og í þeim úrræðum sem við vorum að ræða áðan, um símahlustunina, þarf að líta á þessi atriði mjög þröngt. Menn eiga ekki að óttast að það sé skýrt og gott eftirlit með þeim störfum sem þarna eru undir af því að það gerir ekkert annað en að auka trúverðugleika þeirra sem í þessum kerfum vinna. Ég er sannfærð um að það vilja þeir sem fara með þessar viðkvæmu heimildir og það vilja þeir sem vinna þau viðkvæmu störf sem lögreglumenn og lögregluyfirvöld gera.

Nú þegar ég hef gert grein fyrir meginefni þessa frumvarps og jafnframt látið þessar hugleiðingar fylgja með, sem mér finnst brýnt að liggi fyrir af minni hálfu, legg ég til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til þóknanlegrar meðferðar og 2. umr.