145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég aðeins minna á að 26. janúar lagði ég fram tvær fyrirspurnir varðandi sölu eignarhluts Landsbankans í Borgun fyrir 2,2 milljarða. Aðeins að rifja það upp. En það sem ég vildi segja hér og nú er að fagna því og um leið þakka hæstv. forseta fyrir liðsinni hans eftir að ég skrifaði honum bréf um að ganga eftir því og fá betri og ítarlegri svör. Það kemur nefnilega fram á vefmiðlinum visir.is 9. maí að Bankasýslan hafi skrifað Landsbankanum nýtt bréf til að biðja um ítarlegri upplýsingar í framhaldi af þeim fyrirspurnum sem ég lagði fram og umræðu á Alþingi ekki alls fyrir löngu við hæstv. fjármálaráðherra. Virðist mér að Bankasýslan hafi skrifað Landsbankanum nýtt bréf með nokkuð hvössum og góðum spurningum þar sem óskað er eftir svörum, meðal annars um það sem mér finnst hafa komið fram, að til hafi verið eitthvert verðmat, sem ég hef áður sagt úr ræðustól Alþingis að er auðvitað til í öllum fyrirtækjum, ég tala nú ekki um þegar verið er að selja. Þar er verið að ganga eftir svörum um það. Jafnframt kemur þar fram að þessi 2,2 milljarða hlutur sem seldur var á þeirri upphæð, 31,2%, sé orðinn 6–8 milljarða virði í dag. Með öðrum orðum, þeir sem keyptu hafa hagnast um 4–6 milljarða kr.

Ég hlýt að fagna því og vekja athygli á þessu og jafnframt bera þá von í brjósti að þegar það svar berst sem Landsbankinn á að gefa Bankasýslunni eigi síðar en 18. maí komi fram ítarlegri upplýsingar þar sem leyndarhjúpi sem mér finnst hafa verið settur yfir þetta mál verði aflétt og allar upplýsingar verði lagðar hér á borð fyrir okkur þingmenn, og ég tala nú ekki um og fagna skýrslunni sem fjármálaráðherra ætlar að leggja fram sem hann boðaði að (Forseti hringir.) yrði þá rædd í leiðinni.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna