145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

barnabætur.

[13:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það var nú svo tveimur til þremur árum eftir hrun að aldrei fæddust jafn mörg börn á Íslandi og einmitt á þeim árum, þannig að það er ekki eingöngu efnahagssveiflan þó að hún hafi sannarlega áhrif. En það var svo að fæðingarorlofið sætti skerðingum í hruninu. Við náðum á okkar síðasta löggjafarþingi að hækka þakið í fæðingarorlofi um 50 þús. kr. Núverandi ríkisstjórn hefur hækkað þakið um 20 þús. kr. sem er nánast ekki neitt. Fæðingarorlofsþakið hefur ekki hækkað síðan 1. janúar 2014.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur lýst því yfir að hún vilji hækka fæðingarorlofið í 500 þús. kr. á mánuði. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Styður hún það að við samþykkjum þann þátt frumvarps okkar samfylkingarfólks úr velferðarnefnd þar sem við leggjum einmitt til að þakið verði hækkað í 500 þús. kr.? Við gætum gert það með mjög lítilli vinnu og lögfesta það frá og með 1. júní (Forseti hringir.) eða 1. júlí, barnafjölskyldum til bóta. Mundi hæstv. ráðherra styðja það? Ætlar hún í raun og veru að hækka fæðingarorlofsþakið?