145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

strandveiðar.

[13:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og óska honum velfarnaðar í starfi.

Ég vil ræða strandveiðar. Þær hafa verið við lýði frá árinu 2009, voru settar af stað af síðustu ríkisstjórn. Þær hafa verið að eflast og festast í sessi, en það er jafnframt ýmislegt sem betur má fara. Þar á meðal tel ég að endurskoða megi skiptingu milli svæða og þann sveigjanleika sem þarf að vera, hvort ekki megi skoða að breyta yfir í fasta daga í hverjum mánuði þar sem menn geti valið sér daga og ekki sé verið að etja mönnum út í vond veður. Og þessa miklu samkeppni sem er á milli stærri og minni báta, þegar stærri bátarnir geta farið og róið en litlu bátarnir sem eru á strandveiðum eru bundnir í höfn og potturinn sem til ráðstöfunar er minnkar og minna verður til skiptanna eins og segir sig sjálft.

Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra hafi skoðað þetta eitthvað miðað við reynsluna og skoðað möguleika á að efla þetta kerfi, sem ég held að allir sjái í dag að hafi verið mjög gott framtak að koma á og verið gott mótvægi við það niðurnjörvaða kvótakerfi sem er í dag og eflt möguleika á að byggja upp nýliðun. En betur má ef duga skal. Mig langar að heyra viðhorf ráðherra gagnvart því hvort hann hafi skoðað þetta og skoðað möguleika á föstum dögum.