145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

lækkandi fæðingartíðni á Íslandi.

[14:01]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra. Ég hef kynnt mér það sem hún hefur tekið saman á vefsíðu sinni og sé að hún er vel inni í málum og hefur greint stöðuna ágætlega. Ég segi henni það til hróss. En sú greining sem ég las, held ég alveg örugglega á vefsíðu hæstv. ráðherra, var frá 2014 en nú er 2016. Það kemur mér svo á óvart að hæstv. ráðherra keyri ekki málin hraðar í gegn. Það skiptir máli og hefur áhrif til langs tíma, hagvaxtaráhrif, svo ekki sé talað um neitt annað, að við höfum þessi mál í miklu betri farvegi strax.

Það er ekki hægt að bíða. Hrunið varð fyrir svo mörgum árum síðan. Þessi hópur hefur beðið allt of lengi eftir því að mál hans séu löguð.

Með fullri virðingu fyrir (Forseti hringir.) þeirri nefnd sem ráðherra setti á laggirnar þá hefur ekki þurft neina nefnd. (Forseti hringir.) Þetta hefur legið ljóst fyrir. Ég vona að þetta komi strax til framkvæmda.