145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Húsavíkurflugvöllur.

520. mál
[15:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ganga lengra en ég gerði í fyrra svari mínu og segja að það sé alveg augljóst mál. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður verður að hafa skilning á því að ég ætla ekki að lofa neinu um það, fyrir komandi kjörtímabil, hvernig ráðstafa skuli ríkisfé. Það eru ábyggilega aðrir hér sem eru líklegri til þess en ég, en svo verður að vera.

Þetta hefur verið góð umræða og ég tek það með mér sem hv. þingmaður sagði hér í lokin um vitana og það. Það eru að mörgu leyti mjög tæknileg atriði sem hann kom inn á, svo að ég ætla ekki að hætta mér út í það með mína lögfræðiþekkingu.

Innanlandskerfið okkar í fluginu er á margan hátt mjög merkilegt kerfi, við erum með litla flugvelli út um allt. Eins og þingheimur þekkir erum við í flestum fjörðum landsins með litla flugvelli sem margir hverjir hafa verið teknir úr notkun. Sumir hafa verið að komast aftur í notkun. Við sjáum þennan flugvöll sem er nú fjarri því að vera einn af þessum minnstu, en mikilvægur flugvöllur að sjálfsögðu.

Maður veltir fyrir sér hver þróunin verður á Íslandi með þessum mikla ferðamannastraumi o.s.frv. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi hér áðan millilandaflugið. Það má alveg eins hugsa sér að menn sjái hag sinn í því að fljúga frá Reykjavík eða Keflavík á miklu fleiri staði en nú er og ekki einungis að dreifa ferðamönnum eftir þjóðvegakerfinu, sem við kvörtum dálítið yfir að þurfi að setja mikla peninga í, heldur líka eftir flugleiðum. Ég held að miklir möguleikar séu í fluginu á komandi árum og við þurfum að vera hugmyndarík í að grípa þau tækifæri sem þar eru. En til þess að það sé hægt þá þurfum við að hafa þessa flugvelli í sæmilegu lagi. Það eru verulega miklar fjárfestingar sem við eigum þarna sem við þurfum að líta til þegar við horfum til þess hvernig við sjáum skipulag ferðaþjónustu í framtíðinni.