145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú birtast okkur svokallaðar ánægju- og óánægjukannanir meðal fyrirtækja, þ.e. starfsánægjukönnun hjá SFR. Þar er meðal annars verið að fjalla um að embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem hafnar í neðsta sæti starfsánægjukönnunarinnar annað árið í röð. Það er vegna þess að álagið þar er ekki boðlegt, hvað varðar húsnæði og annað. Við höfum haft af því fregnir að löng bið sé eftir vegabréfum og ökuskírteinum og öðru slíku; fólk bíður og tekur númer og er jafnvel númer 90 eða 100. Þetta er auðvitað algjörlega óboðlegt, það er vegna þess að það vantar fólk, það vantar líka aðstöðu.

Ég hef aðeins verið að spyrjast fyrir og það eru að tínast inn svör frá ráðuneytunum um flutning starfa til sýslumanna sem var lofað hér þegar embættin voru sameinuð. Það hefur verið að berast hægt og rólega, en það kemur í ljós að ráðuneytin eru fæst hver tilbúin til að láta nokkuð af hendi til að styrkja þessi embætti eins og ætlunin var með þessari sameiningu. Síðan birtist það í þessu líka að mannskapurinn er ekki nægur, álagið er gríðarlegt og fólk er bókstaflega að kikna undan því, sem er ekki ásættanlegt. Þetta á við um sýslumennina, þetta á við um lögregluna sem er vanfjármögnuð og undirmönnuð, og lítið gengur að ráðast að þeim vanda svo að vel sé.

Hér hefur ríkisstjórnin ekki gert nægilega vel og augljóst að gera þarf betur. Búið var að segja frá því, eftir að embættin voru sameinuð, að það ætti að gera betur, skipta um húsnæði o.s.frv., en ekkert gerist. Þetta er fólkið sem er að starfa fyrir land og þjóð og við eigum að gera miklu betur í þessu samhengi.


Efnisorð er vísa í ræðuna