145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í sjálfu sér beindist þetta andsvar hv. þingmanns ekki að ræðu minni. Það var ágætisinnlegg í umræðuna og ég staðfesti að hv. þingmaður var áhugamaður um þetta mál strax við 1. umr. og ekki ætla ég að fara að taka að mér að endursegja og túlka fyrir krötum þeirra eigin sögu varðandi tilvísunarkerfið.

Ég held að við getum öll mjög vel við unað, ég tek undir það með hv. þingmanni. Þetta er góður áfangi og ég treysti því að þeir sem voru gagnrýnastir á frumvarpið eins og það kom fram, ég nefni þar sérstaklega Öryrkjabandalagið og slíka aðila sem töldu þetta verða of íþyngjandi fyrir sína félagsmenn, Alþýðusamband Íslands sendi sömuleiðis inn mjög sambærilega umsögn þar sem það varaði við því að þetta yrði mjög íþyngjandi fyrir fjölda lágtekjufjölskyldna, muni núna sættast á málið og sjá að það er auðvitað orðið allt annað og miklu betra ef þökin verða ekki yfir 50 þús. kr. og mánaðarleg þök ekki nema 4–4.500 kr. Málið hefur tekið stórkostlegum framförum.

Það sem ég vil segja út frá hugleiðingum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar er að ég lít á þetta sem mjög mikilvægt og sögulegt skref í rétta átt, í sömu átt og þökin í lyfjakostnaðarkerfinu. Það sem fram undan er, og er reyndar boðað að hluta til í nefndaráliti, er að færa restina af þessum kostnaði inn undir þakið, sálfræðiþjónustuna, hjálpartækin, ferðakostnað vegna sóknar í heilbrigðisþjónustu milli byggðarlaga og annað í þeim dúr, þannig að þökin dekki allan þennan heilbrigðistengda kostnað, og í lokahnykknum að sameina þökin fyrir lyfjakostnað og heilbrigðiskostnað í eitt allsherjarkostnaðarþak eða eftiráuppgjör svo að það myndist eitt þak yfir árið í það minnsta, þannig að við setjum heildarskorður við því hvað hver og einn getur þurft að greiða innan árs og almennt talað í heilbrigðiskerfinu. (Forseti hringir.) Það á að vera lokatakmarkið og við eigum alveg að ná því á (Forseti hringir.) einu til tveimur ári héðan í frá.