145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Það hafa verið mikil átök í íslenskum stjórnmálum allt frá hruni enda skapar það þegar verið er að takast á um völd og yfirráð yfir auði slíkt ástand. Það hefur kveðið það rammt að þessu að stundum hefur verið hálfbugandi að vera í stjórnmálum. Ég ætla að segja það sem nefndarmaður í velferðarnefnd að eftir síðustu vikur og það samstarf sem við höfum átt þar þá man ég aftur af hverju það er svo gaman að vera í stjórnmálum þegar við getum sameinast um að leggja góðum málum lið og bæta samfélagið.

Framsögumaður málsins, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, fór vel yfir efni þess. Ég ætla ekki að endurtaka það en ég ætla að fara yfir það að hlutdeild sjúklinga á Íslandi í kostnaði við heilbrigðisþjónustu er of mikil. Frumvarpinu er ætlað að draga úr gríðarlegum kostnaði sem ákveðinn hópur fólks þarf að bera.

Eins og farið hefur verið yfir ollu hin háu þök upp á 95 þús. kr. fyrir almenna greiðendur því að við gátum ekki stutt frumvarpið þegar það kom fram. Þar er verið að skipta 6,7 milljörðum milli hópa. Það þýddi í raun að um 120 þús. manns mundu taka á sig aukinn kostnað; sumir óverulegan, aðrir verulegan. Auk þess eru ekki þarna inni tannlækningar, sálfræðiþjónusta, ferðakostnaður, hjálpartæki og fleira, en Íslendingar greiddu árið 2015 úr eigin vasa tæpa 35 milljarða fyrir lyf og heilbrigðisþjónustu og hjálpartæki.

Það er ekki eingöngu þannig að með innleiðingu á þessu greiðsluþátttökukerfi sé verið að breyta kostnaðarhlutdeildinni. Það er líka verið að efla heilsugæsluna og stuðla að því að hún verði fyrsti viðkomustaðurinn í grunnþjónustu. Ég ætla að segja það hér og nú að ég tel hæstv. heilbrigðisráðherra hugrakkan að hafa komið með þessa breytingu inn í þingið. Það var líka ljóst að samstaða var um markmið frumvarpsins, að auka hlut heilsugæslunnar og breyta greiðsluþátttökukerfinu. En það voru miklar áhyggjur af fjármálunum. Snemma hófust samtöl um það hvernig væri hægt að koma til móts við þetta. Ég ætla að segja að framsögumaður málsins, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, er einstaklega öflug þegar kemur að því að leiða til lykta flókin mál. Hún fór í það og hún hefur líka þá stöðu að fólk treystir henni í þinginu. Hún fór af stað og talaði við ráðherra og ræddi við okkur þingmennina og svo sagði hún okkur að það væri von á einhverjum fjármunum inn, en við vildum auðvitað fá eitthvað handfast í þeim efnum. Það endaði með því að ráðherra kom sjálfur til okkar og fór yfir það sem hann hafði getað fengið, hverju hann gat áorkað í öflun á frekari fjármunum, því að auðvitað var hann allur af vilja gerður til þess eins og gefur að skilja sem ráðherra málaflokksins, og við gátum sett það inn í nefndarálit.

Þess vegna ákváðum við fulltrúar Samfylkingarinnar að skrifa undir nefndarálitið án fyrirvara því að við treystum orðum ráðherra. Við skrifum undir nefndarálitið í ljósi þeirra fjármuna sem eru að koma inn. Hefðum við sett fyrirvara værum við að lýsa því yfir að við treystum ekki orðum ráðherra, en þá hefði ég frekar valið að vera ekki með á málinu. Það er eðlismunur á því hvort hámarkskostnaður á ári sé 95 þús. kr. eða 50 þús. kr., þetta er gríðarlegur ávinningur. Það er líka verið að setja 300–400 milljónir inn í heilsugæsluna til þess að styrkja hana sem fyrsta viðkomustað og það er nauðsynlegt.

Þetta er fyrsta skrefið í greiðsluþátttökunni, svo þurfum við að halda áfram. Það munum við í Samfylkingunni ótrauð gera. Við erum líka að taka ákveðnari stjórn á þróun heilbrigðiskerfisins til lengri tíma. Ég held að það sé mikilvægt að við gerum það núna því að við erum nánast runnin út á tíma.

Ég vil því að lokum þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir frumvarpið og fagna því að við höfum getað fengið inn meira fjármagn og staðið að þessu öll saman.