145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Útlendingamál hafa verið mikið til umræðu í samfélaginu upp á síðkastið í dágóðan tíma og þau verða meira og meira til umræðu vegna þess að það er málaflokkur sem krefst meiri og meiri athygli. Eins og frægt er orðið eftir atburði gærdagsins hér fyrir utan eru ekki allir á eitt sáttir um hvernig eigi að haga málum í þeim málaflokki. En það er eitt sem við ættum öll að vera sammála um, sama hvaða tölur við viljum nefna og sama hvaða afstöðu við höfum til þess hvernig reglurnar eigi að vera og hversu auðvelt það eigi að vera að koma til landsins á hvaða forsendum sem er, og það er að við verðum að taka vel á móti því fólki sem kemur hingað, sama hvort það eru fleiri en við viljum eða ekki. Þá er vel að merkja að nú er búist við því að ferðamenn verði um 1,7 milljónir á Íslandi nú í ár síðast þegar ég vissi. Við getum ekki einfaldlega lokað landamærunum. Fólk getur og mun halda áfram að geta komið hingað og það mun sækja um hæli og það mun bíða eftir niðurstöðu og því mun fylgja einhvers konar kostnaður. Það munu fylgja því ákvarðanir. Í kjölfar þeirra ákvarðana hverjar svo sem þær verða þá verðum við að hafa innviði til þess að taka á móti fólki með þeim hætti að það eigi hvað auðveldast með að taka þátt í íslensku samfélagi því að það vilja allir. Það vill fólkið sem kemur hingað. Það vill fólkið sem er hérna. Um það ættum við öll að geta sýnt samstöðu, sama hvað okkur finnst um hluta af því fólki sem kemur hingað.

Það er óhjákvæmilegt að þessi málaflokkur veki upp mjög erfiðar umræður sem oft og tíðum eru hatrammar og heiftúðlegar. En það eru hlutir sem við eigum öll að geta verið sammála um. Ég vona að getum við sýnt samstöðu í framhaldinu, því að hvað svo sem við gerum, gerum það vel.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna