145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ekki nema von að margir spyrji sig sem minna hafa milli handanna: Hvenær er komið að okkur? Ríkisstjórnin sem nú situr að völdum, sem hefur markvisst veikt tekjustofna ríkisins í þágu þeirra sem meira hafa, sér ekki ástæðu til þess í nýrri ríkisfjármálaáætlun til fimm ára að gera ráð fyrir veglegri hækkun til eldri borgara eða öryrkja þrátt fyrir að loforðið hafi verið að leiðrétta kjörin. Nú kemur félags- og húsnæðismálaráðherra fram með frumvarp þar sem hún ætlar að hækka þakið og bæta stöðu ungs fólks sem er að eiga börn, sem er af hinu góða, en það virðist vera það sem er í forgangi. Núna rétt fyrir kosningar er það unga fólkið, t.d. í formi Fæðingarorlofssjóðs þótt hann sé vanfjármagnaður, það eru ekki til peningar í honum og ekki er gert ráð fyrir því að tryggingagjaldið hækki til þess að mæta því. Öryrkjar og eldri borgarar bíða enn. Þetta er risastór hópur, vissulega, en hann bíður enn. Það er ekki gert ráð fyrir honum. Því er ekki nema von að formaður Öryrkjabandalagsins kveðji sér hljóðs og veki á þessu athygli og spyrji: Hvenær er kominn tími til að við njótum sanngirni? 190 þús. kr. eru það sem mjög margir, allt of margir, þurfa að lifa af.

Traust efnahagsstjórn að hætti sjálfstæðismanna er sem sagt ekki traustari en þetta. Þeir skila ekki til þeirra sem minna hafa og mæta ekki þörfum þeirra þrátt fyrir að hafa sagst ætla að gera það í samráði við framsóknarmenn sem voru með það stóra loforð.

Virðulegi forseti. Ég trúi því ekki að þeir sem samþykktu ríkisfjármálaáætlunina — það gerði félags- og húsnæðismálaráðherra þrátt fyrir að hún sé núna að koma fram með einhver frumvörp sem hún hlýtur að vera búin að sjá fram á hvernig hún ætlar að fjármagna, þetta er fólkið sem hún ætlar að láta bíða þótt hún hafi ætlað (Forseti hringir.) að redda því á fyrstu dögunum sem hún kom í ríkisstjórn. En það (Forseti hringir.) er ekki tími til að lækka vexti vegna þess að það er eitthvað í efnahagslífinu og það er ekki enn komið að lægst launaða fólkinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna