145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[17:18]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn er búin að greina ágætlega fyrir okkur það sem hæstv. ráðherra hefur lagt fyrir okkur, það er þessi mikli munur á kynjunum hvað varðar aldursbilið. Konurnar eru fleiri sem fara í nám 35 ára og eldri og þá vitum við niðurstöðuna, að þær munu bera hærri greiðslubyrði og líða fyrir þetta kerfi hæstv. ráðherra. Það er mjög alvarlegt. Þetta kemur fram í plaggi með frumvarpinu, sem sagt í gögnum ráðherrans. Mér finnst mjög skrýtið að ekki hafi verið staldrað við þarna, að enginn hafi sagt: Bíðið nú við, þetta getur ekki gengið svona. Nú erum við að fara að bjóða upp á aðstöðumun milli kynja. Svo er þetta líka með kvennastéttirnar og konur sem mennta sig, langskólamennta sig, ljósmæður, til að sinna störfum sem við metum allt of lágt sem samfélag. Þær eru á lágum launum miðað við menntun og miðað við umsýslu. Svo bera þær ofan á þetta mikla endurgreiðslubyrði miðað við það. Það gengur ekki upp. Ef það er þannig að stúdentaráð Háskóla Íslands og konurnar sem þar sitja, ef umsögnin frá þeim var góð varðandi þetta vona ég eiginlega að þau hafi ekki áttað sig á þessu og muni endurskoða umsögn sína hvað það varðar.