145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kemur ekki að tómum kofanum hjá mér þegar kemur að námslánum því að ég hef tekið allar tegundir lána sem í boði hafa verið. Ég hef sem sagt tekið skólagjaldalán, framfærslulán, ég hef tekið barnalán, ég hef tekið makalán og lánasjóðurinn gerði mér kleift að öðlast frábæra menntun. Það er þess vegna sem ég held að skipti mjög miklu máli að halda mjög þétt utan um þetta fjöregg, þetta hefur skipt okkur miklu máli.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra þegar hann segir að einhvers staðar þurfi að setja mörkin. Ég hef talað lengi fyrir því að alveg væru rök fyrir því að gera einhvern greinarmun þannig að menn gætu ekki safnað lánum endalaust sem engin leið væri að borga til baka. Ég tek hann trúanlegan þegar hann segir að það séu sirka 99% sem rúmist innan þessara marka. Auðvitað er það þannig að það eru ekki endilega rök fyrir því að námslánakerfið fullnægi öllu algjörlega til fulls. Ég get alveg keypt þau rök að við ákveðnar aðstæður í dýrustu skólum þegar aðrir kostir jafn góðir eru annars staðar, þá séu alveg efnisrök fyrir því að menn leggi af mörkum á móti.

Ég vil undirstrika mikilvægi þess að fólk með alls konar bakgrunn og alls konar tækifæri og alls konar aðstæður í lífinu eigi að geta sótt í bestu skóla heims. Það er mjög mikilvægur þáttur þessa kerfis. Það er það sem þetta kerfi gaf mér og er mjög mikilvæg forsenda þess að við búum við hinn margháttaða samfélagslega ávinning af fjölbreytni í námsókn og fjölbreytni í bakgrunni fólks.