145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:24]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í mjög fínar og málefnalegar umræður. Við erum að ræða nokkuð stórt og mikilvægt mál í menntakerfi okkar sem snýr að því að aðstoða og jafna tækifæri fólks, ekki bara ungs fólks, heldur jafna tækifæri fólks til náms. Mig langar til að fagna í heild þessu frumvarpi sem við erum að taka til meðferðar og skoðunar. Ég fagna líka uppsetningu og uppbyggingu á frumvarpinu og hvernig hæstv. menntamálaráðherra setur það fram. Þá vil ég sérstaklega nefna að markmiðið er að bæta námsframvindu sem kemur ríkinu, samfélaginu og einstaklingunum til góða. Svo er verið að auka gegnsæi í þessu kerfi og það er m.a. það sem námsmenn hafa kallað eftir.

Ég er mjög ánægður að sjá að hér sé verið að greina í sundur styrk annars vegar og lán hins vegar en þegar það er gert verður að sjálfsögðu lánið öðrum megin en ekki hinum megin og þess vegna hækkar lánahlutinn. Mig langar að nefna líka tekjutenginguna sem hefur talsvert verið rædd í dag. Mér sýnist eftir að hafa lesið þetta frumvarp að það sé jákvætt skref. Ég er þannig gerður að mér finnst að það sem maður fær lánað eigi maður að greiða til baka. Eins og hitt kerfið var gerðist það ekki. Mér finnst þetta alla vega jákvætt skref í þá áttina að það sem maður fær lánað greiðir maður til baka, því að í upphafi skyldi endinn skoða. Mér finnst mjög rökrétt að það eigi að losa sig við skuldir áður en maður fer á ellilífeyrisaldur.

Það er fleira sem ég vil nefna. Mér finnst líka gríðarlega jákvætt að inn í frumvarpið eru sett tilfinningaleg eða persónuleg hjálp eða naglar þannig að hægt er að aðstoða fólk þegar eitthvað kemur upp í lífi þess sem kallar á breytingar, eins og þegar fólk lendir í fjárhagserfiðleikum, er að kaupa sína fyrstu eign eða jafnvel að stækka við sig. Ég held að við í þingheimi og í menntamálanefnd ættum að huga að því hvort það séu fleiri naglar sem við þyrftum að negla þarna inn í til að aðstoða fólk við að lenda ekki í vandræðum með að greiða upp lán sín.

Ég fagna líka þeirri viðleitni að við séum að reyna að auka aðgang og hjálpa fólki að fara í frumgreinanám, gera iðngreinar lánshæfar og styrkhæfar og auka þar af leiðandi þær greinar en á síðustu árum hefur mikið verið kallað eftir því að við útskrifum fleiri nemendur þar.

Svo ætla ég að nýta restina af tímanum í tvennt sem mér finnst við þurfa að huga betur að í frumvarpinu. Ég ætla að byrja á byggðavinklinum. Ég er með mér til stuðnings umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem kemur með mjög gagnlegar ábendingar og tillögur frá Noregi þar sem veitt er aukin námsaðstoð til þeirra sem búa úti á landi. Við vitum að þeir sem koma utan af landi eiga ekki möguleika á að vera í foreldrahúsum og þar af leiðandi verður dýrara fyrir þá að stunda nám, sér í lagi í bænum.

Síðan leggur sambandið áherslu á að hvetja það fólk sem stundar nám, sem í flestum tilvikum á Íslandi er í Reykjavík, til að fara til baka á heimaslóðir eða annað með þekkingu sína. Sambandið nefnir hér 10% niðurfellingu á námsláni. Í Noregi er það að hámarki 25.000 kr. norskar. Það er meira sem býr þarna að baki en bara að aðstoða námsmanninn og hvetja hann til að flytjast búferlum og fara í nám, t.d. í Reykjavík, og fara síðan aftur til baka. Það er meira sem er á bak við þessa umsögn hjá sambandinu, það er líka það að svona þekkingargrunnur getur verið nærsamfélaginu úti í hinum dreifðari byggðum gríðarlega nauðsynlegur til að ákveðin starfsemi og fjölbreytt atvinnustarfsemi geti þrifist þar. Mér þykir mjög áhugavert að nefndin geti skoðað einhverjar tillögur í þessa átt til að hvetja þá sem koma að hinum dreifðari byggðum, hvort sem það er í fjarnámi eða að koma í staðarnám og síðan fara með þekkinguna til baka.

Síðasti punkturinn sem ég ætla að fjalla um er endurgreiðslan á námslánunum. Ég hef af því ekki bara smááhyggjur, ég hef eiginlega af því virkilegar áhyggjur og ég vona að þeim áhyggjum verði eytt, annaðhvort með rökum eða í umfjöllun málsins eða með breytingu, það á eftir að koma í ljós. Áhyggjur mínar snúa að því að endurgreiðslan á námslánum er að jafnaði, eða á að vera, 40 ár, jafnar greiðslur og verðtryggt. Þetta heitir í námslánakerfi fyrir íbúðalán Íslandslán og eru lán sem ég held að allir í dag séu sammála um að séu ekki góð. Þau eru ekki góð að því leytinu að þau eru mjög ógagnsæ, námsmenn hafa ekki mikið tækifæri til að vita hvernig námslánin eru, hvernig greiðslur muni þróast yfir greiðsluferilinn. Þetta er meira að segja svo flókið að hagfræðingar Seðlabankans geta ekki sagt okkur með nægilega mikilli vissu hvernig verðbólgan muni þróast. Ég mun leggja alveg gríðarlega áherslu á það í vinnu nefndarinnar að skoða hvort þetta sé það eina rétta eða hvort við eigum að gera breytingar á því.

Við vitum að hámarkslánsfjárhæð sem hægt er að taka miðað við þetta frumvarp er 15 milljónir. Eftir alla vinnuna við skuldaleiðréttinguna komumst við að því að margt fólk var með verðtryggð húsnæðislán sem voru þó ekki nema upp að 15 milljónum, 12–15 milljónir, og fólk lenti í vandræðum með þau. Ég ætla að vera alveg viss þegar ég samþykki þessi frumvörp, og vonandi gerist það áður en við menntamálaráðherra hverfum á aðrar brautir fyrir kosningar, að við náum að samþykkja þetta. Ég vil vera alveg viss um að við séum ekki að búa til kerfi sem gerir það að verkum að ungt fólk eða námsmenn lenda í vandræðum með að greiða þetta upp eftir 10 ár, 20 ár, 30 ár. Gallinn við verðtrygginguna er að við borgum ekki verðtrygginguna. Verðtryggingin er í rauninni ekki vextir, hún er uppfærsla á höfuðstólnum. Þegar við uppfærum höfuðstólinn í 40 ár erum við komin fram yfir þann tíma sem við erum með hæstar tekjurnar. Flestir eru með hæstar tekjur um fimmtugt til 55 ára og síðan fara tekjur að minnka aftur. Raungildi á láninu er enn það sama, alla vega miðað við jafnar greiðslur. Þá mundi ég halda að eftir 55 ára til 67 ára muni þyngslin af þessu aukast. Það er léttast fram að 55 ára, svo fer það að þyngjast.

Mig langar einnig að nefna hvort rétt sé að hnykkja á því, af því að hér hefur verið talað um, sem ég er alveg sammála, að við eigum að reyna að hafa þetta létt í upphafi og fólk eigi að ráða við þetta í upphafi, hugsanlega eitthvað sem maður skoðar sem er svipað eftir tekjutengingunni, að þegar fólk hefur meira á milli handanna geti það lagt inn á lánið án þess að greiða uppgreiðslugjald. Ég segi þetta með fyrirvara, ég á eftir að skoða hvernig það mun koma við sjóðinn, en að það sé uppgreiðslugjald líkt og í verðtryggðum húsnæðislánum þannig að þegar fólk hefur meira á milli handanna sé alla vega ekki einhver neikvæður hvati til þess að greiða það upp eða minnka byrðina af því.

Virðulegur forseti. Þetta hafa verið helstu vangaveltur mínar. Í heildina er ég sammála þessu frumvarpi og mér finnst það mjög gott. Ég vona að þingheimur sjái sér fært að klára málið því að svo sannarlega er þetta bót fyrir flesta nemendur og námssamfélagið kallar eftir þessu. Ef ég skildi umræðuna á undan rétt var verið að velta fyrir sér hvernig annars vegar styrkja- og námslánakerfið kæmi á móti barnabótum og vaxtabótum og því um líkt. Ég hef þá misskilið frumvarpið hrapallega og líka góðar umsagnir frá stúdentaráði og öðrum á mínum aldri sem hafa skrifað um þetta frumvarp, um að barnabætur og vaxtabætur skerði ekki námslán eða það sem er verið að lána eða styrkja í frumvarpinu.

Mig langar að benda á góða úttekt eða góða samantekt hjá strák sem heitir Kristófer Már sem var birt á síðunni romur.is í dag. Þar er talsvert ítarlega listað upp eftir stöðu. Hér er m.a. námsmaður í foreldrahúsi, einhleypur í eigin húsi og svo í sambúð, skráðri eða ekki og með börnum. Það er mjög áhugavert að sjá hver niðurstaðan er fyrir hvern hóp fyrir sig. Það er alls ekki verst fyrir þá sem eiga börn eða eru í skráðri sambúð þannig að ég fagna þessu frumvarpi og hlakka til að hlýða á frekari góðar umræður hér í dag.