145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[11:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Grundvöllur fiskveiðistjórnarinnar og gjaldtöku af sjávarútvegi umfram aðra starfsemi í landinu er að nota aflamarkskerfið við úthlutun hlutdeildar í heimiluðum heildarafla einstakra fisktegunda og að leggja veiðigjöld á greinina sem endurspegla með almennum hætti að fyrirtækin eru að nýta auðlind í sameign þjóðarinnar allrar án þess að hafa greitt fyrir það sérstaklega til eigandans sjálfs.

Veiðigjöldin eiga uppruna sinn í tillögum auðlindanefndarinnar sem starfaði á síðustu árum nýliðinnar aldar. Þar var verið að takast á við það að veiðihlutdeildinni hafði verið úthlutað án þess að greitt hefði verið fyrir. Valið stóð á milli þess að innkalla heimildirnar yfir nokkurra ára tímabil eða að nálgast hina vandreiknuðu eða jafnvel óútreiknanlegu auðlindarentu með álagningu veiðigjalda sem tækju mið af afkomu greinarinnar. Niðurstaðan var að leggja á veiðigjöld.

Á síðasta kjörtímabili var þetta mál svo heimsótt aftur þar sem enn var ekki komin góð sátt um hina tímalausu úthlutun. Núverandi ríkisstjórn hefur haft á stefnuskrá sinni að færa fiskveiðistjórnina að hinni svokölluðu samningaleið. Þeirri vinnu hefur ekki lokið. En sú leið naut mests stuðnings í umfangsmikilli yfirferð allra hagsmunaaðila á síðasta kjörtímabili.

Veiðigjöldin taka mið af hreinum hagnaði fyrirtækja í sjávarútvegi samtals. Á árunum 2012–2014 námu veiðigjöld sem lögð voru á á hverju ári um fimmtungi hreins hagnaðar í greininni en höfðu verið mun lægri á árunum þar á undan. Þessi ríkisstjórn lækkaði veiðigjald botnfisks en hækkaði um leið á uppsjávarfisk. Þrátt fyrir það er hlutfall veiðigjalda af hreinum hagnaði hærra árið 2014 en önnur ár. Núgildandi áætlanir gera ráð fyrir eitthvað minni tekjum ríkissjóðs en var þegar mest lét en það stafar miklu fremur af því að hreinn hagnaður hefur dregist saman, miklu frekar en af breytingum á álagningu veiðigjaldanna. Hér verður að hafa í huga að innheimt veiðigjöld og álag horfir til rekstrarára aftur í tímann.

Umræðan nú, eins og mig grunaði, á einhverjar rætur að rekja til nýlegrar reynslu Færeyinga af því að bjóða upp lítinn hluta veiðiheimildanna, einkum kvóta í Barentshafinu. Einhverjir kunna að hafa fengið glýju í augun vegna þess að þeir erlendu aðilar sem þar keyptu greiddu fyrir það hærra verð en veiðigjöldin hérlendis. (Gripið fram í.) En það þarf auðvitað að skoða málið betur en að horfa bara á útboðsverðið eitt og sér. Það mistókst gersamlega að finna dreifðan hóp að þessum nýju heimildum. Í ræðu málshefjanda var vakin athygli á því að einhverjir kynnu að sitja eftir með sárt ennið ef kerfinu væri ekki breytt. Nefnt var nýlegt dæmi úr Þorlákshöfn því til stuðnings. En er það ekki einmitt svo að ef allt fer á uppboð þá er enginn fyrirsjáanleiki, þá er engin vissa? Þá fyrst verður hv. þingmaður að fara til Þorlákshafnar og segja: Ja, það er nú bara þannig, kæru íbúar hér, að það var markaðurinn sem réði? Hver er þá fyrirsjáanleikinn fyrir íbúa hinna dreifðu byggða? Hann er enginn.

Að bjóða aflaheimildirnar allar á uppboði er þannig ekki einungis ákvörðun um að breyta tekjuöflun ríkissjóðs af greininni heldur er með því verið að breyta grundvelli fiskveiðistjórnarinnar sjálfrar. Fiskveiðistjórnarkerfið hefur áorkað því að nýting auðlindarinnar er sjálfbær og sjávarútvegurinn er arðbær atvinnugrein. Eina markmið kerfisins sem ekki hefur náðst nægjanlega er að tryggja þeim byggðum landsins sem eru háðastar greininni stöðugleika og öryggi. Uppboð aflaheimilda mundi að sjálfsögðu kasta algerlega fyrir róða möguleikum stjórnvalda á að tryggja þó þann stöðugleika í byggðaþróun sem hingað til hefur tekist.

Því má ekki gleyma í þessari umræðu allri að fiskveiðistjórnarkerfið okkar er líklega eina dæmið um kerfi sem við Íslendingar höfum þróað og getur orðið öðrum löndum fyrirmynd í auðlindastjórnun. Það stafar ekki af því að á því séu einhverjir grundvallarvankantar sem megi sníða af á augabragði. Því má heldur ekki gleyma að fá pólitísk viðfangsefni hafa fengið eins ítarlega umfjöllun, skoðun og umræðu á undanförnum árum og fiskveiðistjórnarkerfið. Það er algerlega á skjön við þá almennu sátt sem hefur verið að myndast um megindrættina í fiskveiðistjórnarkerfinu að velta fyrir sér hvort ríkissjóður fengi fleiri krónur eða færri í kassann með uppboði miðað við veiðigjöldin eins og þau eru lögð á nú og fórna með því árangri undanfarinna áratuga.

Aðalatriðið er að við gerum ekki breytingar á rekstrarumhverfi okkar mikilvægustu atvinnugreina sem ganga vel í óðagoti og að vanhugsuðu máli. Það gildir það sama fyrir sjávarútveg og aðrar atvinnugreinar að það þarf traust umhverfi til að geta tekið ákvarðanir sem hafa áhrif til langs tíma eins og til dæmis að fjárfesta í (Forseti hringir.) skipum og dýrum tækjum til að auka afrakstur veiðanna. Allt þetta segir: Á sama tíma og ég tek undir það göfuga markmið sem hv. þingmaður segist vera að berjast fyrir, sem er það að þjóðin fái sanngjarna hlutdeild í afrakstri veiða af takmarkaðri auðlind, vil ég segja að það verður ekki gert með því að bjóða allar heimildirnar upp.