145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ísland er ríkt land og hér á að vera best í heimi að lifa, eldast og eiga gott ævikvöld. Það er samt ekki hægt að segja að þannig sé staða allra sem eldri eru hér á landi. Of margir eldri borgarar lifa eingöngu á lágmarkseftirlaunum sem í dag eru 212 þús. kr. á mánuði. Er einhver hér í þessum sal sem getur lifað á rúmum 200 þús. kr. á mánuði? Nei, ég held ekki. Eldri borgarar eru augljóslega af báðum kynjum og fátækt er jafn slæm hvort sem um er að ræða karl eða konu. En samt sem áður er erfitt að horfa fram hjá því að kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á laun kvenna þegar þær eru ungar, launamunurinn hefur áhrif á öll réttindi sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur fá lægri orlofsgreiðslur en karlar og lægri eftirlaun. Þannig eru konur líklegri til að búa við fátækt á sínum efri árum. Margar konur vinna í láglaunastörfum og aðrar hafa unnið hlutastörf vegna ábyrgðar á börnum og heimili, öldruðum foreldrum eða öðrum ættingjum. Þar að auki sjáum við iðulega skýr merki þess að konur reki höfuðið í glerþakið og fái ekki sömu tækifæri og framgang á vinnustöðum og karlmenn. Það hefur líka áhrif á launin og á eftirlaunin.

Ef við getum skipt þjóðarkökunni með réttlátari hætti getum við auðveldlega bætt kjör eldri borgara. Við höfum vel efni á því að hækka lágmarksgreiðslur afturvirkt og framvegis í takt við aðrar launahækkanir í landinu. Það er reisn yfir þjóð sem veitir öldruðum og öryrkjum líka mannsæmandi laun. Samfylkingin ætlar að hækka eftirlaunin, setja á sveigjanleg starfslok og einfalda (Forseti hringir.) fólki að skilja og verja rétt sinn svo það geti (Forseti hringir.) lifað með reisn ævina út.


Efnisorð er vísa í ræðuna