145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Stundum er sagt að Alþingi endurspegli ekki fólkið í landinu, að við séum eitthvað langt frá fólkinu í landinu. Ég held að það sé ekki rétt og sanni sig í því hvað flestir tala hér um í dag, sem eru kaupaukagreiðslur í þrotabúunum. Ég trúi því að um það sé mjög rætt á almennum kaffistofum líka. Vissulega hallar á suðvesturhornið vegna atkvæðamisvægis en vonandi verður það nú lagað fljótt þegar ný stjórnarskrá tekur gildi. En ég ætla ekki að tala um það núna. Ég ætla að tala um að allir hneykslast og sagt er að ekkert sé hægt að gera við þessum kaupaukagreiðslum. Það staðfesti hæstv. fjármálaráðherra í umræðu í gær og var honum þó bent á að hægt er að leggja á skatta. Það er hægt að leggja á mjög háa skatta. Hæstv. fjármálaráðherra hefur yfir mörgum sérfræðingum að ráða. Það gleddi mig mjög ef hann kæmi hér á næstu dögum með tillögu um að lagður verði hár skattur — hvalrekaskattur kalla það sumir, „windfall tax“ á útlensku — á kaupaukagreiðslurnar ef annað er ekki í spilunum. Ég held að það sé ekki annað í spilunum. Við getum ekki falið okkur á bak við að þetta sé innfluttur ósómi.

Ef hæstv. ráðherra hefur ekki sérfræðinga til að gera þetta þá verð ég kannski á undan honum vegna þess að ég fór þess á leit við sérfræðinga í morgun að þeir athuguðu fyrir mig hvernig mætti koma fyrir lagagrein um að leggja himinháa skatta á þessar kaupaukagreiðslur.


Efnisorð er vísa í ræðuna