145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum, líkt og fram kemur í fyrirsögn nefndarálitsins, í daglegu tali kallaðir búvörusamningar, og afgreiðslu þeirra á þinginu sem var mælt var fyrir í vor. Frumvarpið gekk til hv. atvinnuveganefndar til meðferðar og hv. atvinnuveganefnd hefur frá þeim tíma haft það til meðhöndlunar og fengið fjölmarga gesti og umsagnaraðila um þetta stóra mál.

Almennt má segja um umræðu um landbúnað sem er oft fyrirferðarmikil og hörð en yfirleitt alltaf góð og gagnleg að hún er stundum langt umfram eðlilegt umfang atvinnugreinarinnar í einhverjum skilningi, þ.e. við erum að fjalla um 1% af vergri landsframleiðslu í útgjöldum ríkissjóðs, atvinnugrein sem framleiðir matvöru fyrst og fremst, sem tengist búvörusamningum sem eru um 6% af útgjöldum heimilanna. Af umræðunni mætti ætla að þetta væri miklu stærri og fyrirferðarmeiri atvinnugrein.

Auðvitað vakna margar spurningar þegar verið er að fjalla um svo stórt mál eins og búvörusamninga og stefnumörkun í landbúnaði. Við skulum byrja á því að draga það fram hér að sá samningur sem hæstv. landbúnaðarráðherra kom með inn í þingið í vor og við höfum verið að fjalla um er mikil tímamót. Við erum í fyrsta sinn í rúman áratug að ráðast í að breyta áherslum í búvörusamningum og landbúnaðarstefnu á Íslandi. Í mínum huga getur það ekki verið kostur að gera ekki neitt á þessari stundu, láta reka á reiðanum og framlengja eitt eða tvö eða þrjú ár til viðbótar þá samninga sem hafa verið í gildi. Það er búið að gera of lengi. Það eru stóru tíðindin, það er stóra verkefnið sem við höfum fengist við undanfarnar vikur og mánuði og það er verkefni umræðunnar í dag, að við ræðum okkur fram úr því verkefni hvernig við viljum leggja þær áherslur. Auðvitað eru deildar meiningar, auðvitað eru misjafnar áherslur eftir því hvaðan við komum og fyrir hvaða stjórnmálaflokka við störfum, en það vil ég sérstaklega taka utan um í upphafi á framsögu minni að stóru tíðindin eru eftirfarandi: Mestu breytingar á landbúnaðarstefnu líklega í 25 ár eru hér undir og það er ekki eftir neinu að bíða að leggja upp í þá vegferð.

Stór hluti gagnrýni á samningana þegar þeir komu inn í þingið var að þeir væru lokaðir til mjög langs tíma. Þá umræðu tók hv. atvinnuveganefnd mjög alvarlega og vann sérstaklega með og ég mun gera nánari grein fyrir því þegar kemur lengra inn í ræðuna. Eins og oft áður týnast staðreyndir í umræðu um mál sem og veruleiki mála en svo var alls ekki hér. Aldrei stóð til að festa eða meitla í stein tíu ára óbreytta landbúnaðarstefnu eins og mátti skilja á umræðu sem upphófst á vordögum nema síður sé.

Það er eðlilegt að menn spyrji hverju þetta skili. Ég held að mikilvægasta svarið við því sé fyrst og fremst: Við erum að innleiða miklu meiri samkeppni í landbúnaði en við höfum áður staðið frammi fyrir. Þar tengist inn í annað þingmál sem við ræðum hér seinna í dag sem er frágangur á tollasamningi við Evrópusambandið þar sem verið er að innleiða verulega mikla tilslökun á innflutningsheimildum, líklega mestu breytingar í áratug í þeim efnum. Það er líka eðlilegt að spurt sé hvort þessir samningar sem hér eru auki samkeppnina þannig að neytendur geti treyst því að hér verði lægra verð úti í búð. Já, þeir geta treyst því, ekki síst vegna þess sem ég nefndi áðan, að við erum að stækka margfalt innflutningsheimildir sem að öllu óbreyttu munu leiða til mikils verðaðhalds fyrir innlenda búvöruframleiðslu. Síðan má spyrja margra annarra grunnspurninga um hvernig við tryggjum hag bændanna. Eitt af stóru viðfangsefnunum í meðferð nefndarinnar var að taka utan um það. Auðvitað er til einskis barist og unnið ef við með öllum þeim breytingum sem við erum að innleiða röskum á einhvern hátt alvarlega afkomu bænda til lengri tíma. Ég skal viðurkenna, hæstv. forseti, að ég hef ákveðnar áhyggjur af því og um það fjallar að stórum hluta nefndarálit okkar. Ég held að það sé hollt fyrir okkur í þessari umræðu í dag að nálgast hana meira út frá þeim staðreyndum sem oftar en ekki hafa glatast eða farið hjá í þessari miklu umræðu.

Það er mjög gaman að skoða, og ég hef sagt það áður í þessum ræðustól, hvernig umræða um landbúnað er á Íslandi samanborið við mörg önnur lönd. Við lærum þegar við velkjumst í þessum heimi, sem ég hef gert í of langan tíma, að við nálgumst umræðuna misjafnt á milli þjóða. Ef við skoðum fundardagskrá stóru iðnríkjanna þegar leiðtogar þeirra hittast eru mál númer eitt, tvö og þrjú á þeim fundum fæðuöryggi, öryggi matvælanna og hvernig við ætlum að bregðast við því stóra verkefni að framleiða meiri mat í heimi sem er í einhverjum skilningi að verða ofsetinn mannfólki. Það er stórt verkefni en hérna nálgumst við umræðuna oftar út frá einhverjum öðrum hagsmunum en bara bændanna sjálfra. Það er verkefni sem við eigum að takast á við og draga fram mismunandi spil og mismunandi hliðar þeirrar umræðu.

Það hefur komið fram í fréttaflutningi eftir að nefndarálit atvinnuveganefndar fór að fæðast að við værum að gera mjög miklar og róttækar tillögur um breytingar á fyrirliggjandi búvörusamningum. Um það vil ég aðeins segja eitt: Við höfum leitast við það í allri okkar vinnu að brjóta ekki ákvæði samninganna sem hafa verið undirritaðir. Við höfum aftur á móti líka leitast við að nota þau verkfæri sem eru innifalin í þeim samningum til að sækja fram, breikka umræðuna um landbúnaðinn og takast á við það verkefni sem ég rakti áðan, hvort við værum að loka atvinnugreinina inni í einum áratug af óbreytanleika. Svo er alls ekki. Það má vel vera, og ég reikna fastlega með því, að margir þeir sem greiddu atkvæði um þessa samninga í atkvæðagreiðslum meðal bænda í vor hrökkvi við þegar þeir sjá þessa framsetningu og afgreiðslu nefndarinnar á búvörusamningum en ég bið þá hina sömu að rýna vel í hvað er verið að leggja á borðið og til hvers við erum að reyna að þróa málið áfram til að búa til meiri sátt.

Meiri sátt hefur verið boðorð hv. atvinnuveganefndar í allri þessari umfjöllun. Ég held að engin atvinnugrein á Íslandi standi núna frammi fyrir því að rétta betur fram hönd til sáttaumræðu um starfsskilyrði sín og kjör. Í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna 1991 fór fram mikið og breitt samtal um landbúnað og landbúnaðarkerfi á Íslandi. Það samtal var óhjákvæmilegt, það samtal leiddi til grundvallar að þeirri landbúnaðarstefnu sem við ræðum enn hér og erum að breyta í veigamiklum atriðum. Í aðdraganda mjólkursamnings sem gerður var árið 2004 var líka breitt samtal um hagsmuni mjólkurframleiðslunnar, neytendanna og framleiðendanna. Sú vinna varð síðan andlag að mjólkursamningi er gerður var árið 2004. Þeir stóru starfshópar og sú breiða samvinna kenndi okkur fyrst og fremst að atvinnugrein landbúnaðar á taugar víða. Hún er oft og tíðum umdeild og í skotfæri en hún þarf á því að halda að opna bækur sínar og skapa aukinn og mikinn skilning á aðstæðum sínum. Stóra boðorðið sem atvinnuveganefnd leggur til í þeim breytingum sem við fjöllum um í okkar nefndaráliti er að við nýtum þau endurskoðunarákvæði sem felast í samþykktum samningum bændanna og undirritaðir hafa verið af ráðherrum ríkisstjórnarinnar og tökum núna þrjú ár í breitt þjóðarsamtal um íslenskan landbúnað. Hvort sem við beitum til þess aðferðum þjóðfunda eða öðrum slíkum verkfærum skal ég ekki dæma um en við leiðum hér fram sem eina af breytingartillögum okkar að landbúnaðarráðherra myndi þann samstarfsvettvang sem fyrst og að við hefjum það samtal þannig að þegar kemur til endurskoðunarinnar árið 2019 hafi átt sér stað þjóðarsamtal um íslenskan landbúnað, hvert við viljum stefna með hann, hvernig við viljum að hann líti út og hvernig við ætlum að búa okkur undir framtíðina. Það breytir því ekki að hin endanlega samningagerð um sjálfa landbúnaðarstefnuna og framkvæmd hennar verður áfram á hendi bændanna sjálfra og stjórnvalda þó að við höfum undirbyggt hana í breiðu þjóðarsamtali.

Í fjölmörgum umsögnum til nefndarinnar hefur verið velt upp ýmsum hliðum sem of langt mál er að tíunda í þessari framsögu. Meiri hluti atvinnuveganefndar dregur fram í einum níu tölusettu atriðum í nefndarálitinu hvert verkefni þessa þjóðarsamtals ætti að vera.

Í fyrsta lagi tökum við þar fram að menn þurfa miklu nánari greiningu á sérstöðu íslensks landbúnaðar, hvaða sérstöðu við viljum verja til frambúðar í íslenskum landbúnaði og hvernig við getum styrkt samkeppnishæfni hans er varðar gæði og hreinleika. Sú sérstaða er ekki síst í heilbrigðum dýrastofnum okkar, í grasfóðrun okkar, í lítilli notkun tilbúins áburðar sem er óvenjulítil notkun á hér á landi miðað við margan annan landbúnað sem við berum okkur saman við, miklu minni lyfjanotkun en annars staðar og svo banni við því að nota hér vaxtarhvetjandi efni eða vaxtarhormón. Þegar árið 1965, fyrir rúmlega hálfri öld, stigum við það gæfuspor að útiloka það úr okkar landbúnaði. Það var líka undir forustu íslenskra bænda árið 1985 sem stigið var það skref að hvetja stjórnvöld til að draga verulega saman notkun sýklalyfja í fóðri og útiloka þau nánast úr fóðri hér á landi og það skilar okkur þeim árangri að við erum með landbúnað sem í alþjóðlegum samanburði notar einna minnst af fúkkalyfjum til framleiðslu sinnar. Við þekkjum að því miður þarf í mörgum löndum vegna þauleldisbúa þar, sem sumir kalla verksmiðjubú, að nota mikið af lyfjum til þess einfaldlega að láta bústofninn þrífast og vaxa áfram. Þannig er t.d. nauðsynlegt í Þýskalandi að gefa kjúklingahópum tvö til þrjú breiðvirk sýklalyf til að ná þeim upp í sláturstærð. Allt er þetta sérstaða sem íslenskur landbúnaður hefur og við trúum að menn vilji varðveita til lengri tíma og byggja á þeirri sérstöðu og þannig taka utan um samkeppnishæfnina. Þetta er tvímælalaust helsta samkeppnisforskot íslensks landbúnaðar. Þess vegna vekur meiri hluti atvinnuveganefndar líka athygli á því að í þessu ljósi sé tímabært, á þeim tíma sem við notum fram að fyrstu endurskoðun búvörusamninga, að ræða kosti og galla þess að útiloka erfðabreytt fóðurhráefni í íslenskum landbúnaði. Ég tel það persónulega mikið gæfuspor en við skiljum það eftir til nánari greiningar á þessum samráðsvettvangi til þess að við getum farið nánar í þá umræðu á dýptina.

Þriðji tölusetti punkturinn í nefndaráliti meiri hlutans er að eitt af stóru verkefnum samráðsvettvangsins og undirbúnings að næstu endurskoðun varði loftslags- og umhverfismál. Við leggjum til að við endurskoðun samninga árið 2019 hafi farið fram undirbúningur að heildaráætlun um hlutverk landbúnaðarins í aðgerðum er snerta loftslags- og umhverfismál, að við skerpum á þeim atriðum í samningunum er snúa að umhverfismálum og setjum fram tölusett markmið og áfanga í þeim verkefnum sem bændur og ríkisvaldið hyggjast vinna sameiginlega að á næstu árum. Meiri hlutinn er sammála um mikilvægi þessara verkefna og telur að þau þurfi að setja sterkan svip á endurskoðun samninganna árið 2019. Hér er m.a. átt við vegvísi um minni losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði, áætlun um endurheimt votlendis, sívirkt rannsóknar-, mats- og vöktunarkerfi með ástandi og þróun gróðurauðlinda til þess m.a. að tryggja sjálfbærni beitilands, skógrækt á vegum bænda, uppgræðslu í samvinnu við bændur, samanber verkefnið Bændur græða landið, og umhverfisráðgjöf til bænda, t.d. um bindingu kolefnis og minni losun, svo og orkusjálfbærni í landbúnaði.

Það vantar tommustokk til að veita bændum ráðgjöf ef við komum t.d. að loftslagsmálum og hvað við getum bundið og hvernig við getum minnkað losun í íslenskum landbúnaði. Okkur vantar grundvallarþekkingu og grundvallarleiðbeiningartæki til að við getum unnið að þessum verkefnum við okkar sérstaka, íslenska landbúnað að þessu leyti. Við höfum margar vísbendingar og margar erlendar mælingar og niðurstöður sem við þurfum að fara yfir og sannreyna hér heima. Við eigum miklar vísbendingar um að t.d. vegna fóðrunar nautgripa með grasi, sem er fyrst og fremst stunduð hér á landi, sé mun minni losun gróðurhúsalofttegunda frá þeirri búgrein en frá sömu búgrein sem stunduð er í öðrum löndum með mikilli fóðrun á korni.

Fjórði tölusetti liðurinn sem meiri hlutinn leggur til fyrir næstu endurskoðun er að gera alvöruátak í upplýsingagjöf til neytenda um búvöru. Við höfum í vinnu okkar kafað rækilega ofan í það að það þurfi að upplýsa neytendur um vöruna sem er í hillunum, hvernig hún er framleidd og við hvaða aðstæður. Þetta er einn af þeim rauðu þráðum sem við getum sagt að hafi verið í fjölmörgum umsögnum til nefndarinnar, upplýsingagjöf til neytenda og réttur neytandans til að fá upplýsingar um hvernig varan er framleidd. Við höfum sett lög og reglur hér á landi. Við höfum fjölmörg tæki og tól til að ná þessu markmiði. Í nefndaráliti okkar bendum við á að t.d. megi ná þeim markmiðum með því að nota lög sem þegar er búið að samþykkja og setja reglugerðir á grundvelli þeirra. Við hvetjum eindregið til að það verði gert hið fyrsta.

Í fimmta lagi bendum við líka á að við viljum að upptöku á tilskipun Evrópusambandsins um upprunamerkingar verði hraðað sem mest má til að tryggja rekjanleika búvöru. Við höfum fengið upplýsingar um að það mál strandar á Norðmönnum í dag, eftir okkar vitund fyrst og fremst vegna þess að Norðmenn vilja ganga öllu lengra en tilskipunin leyfir. Ég held að það sé umhugsunarvert sjónarmið sem Norðmenn færa fram í þeim efnum. Þeir tala einfaldlega fyrir því að það verði ekki leyfilegt í þeim mæli sem tilskipunin heimilar að nota hráefni í matvælaframleiðslu sem ekki er getið sérstaklega um eða er tekið frá einhverjum öðrum markaðssvæðum en kemur fram í merkingu vörunnar. Ég tek dæmi sem er kannski fjarlægt okkur, þar er heimilað að nota verulegt magn af vínum frá Chile út í evrópsk rauðvín en samt eru þau upprunamerkt sem evrópsk vín. (Gripið fram í.) Það verður líka að geta þess í sambandi við umfjöllun um upprunamerkingar að upprunamerkingar er varða nautakjöt hafa þegar öðlast gildi á grundvelli þessarar tilskipunar og hafa verið innleiddar hér á landi sem var kannski fyrst og fremst viðbragð við hrossakjötssvindli sem stundum hefur verið kallað svo þar sem fór að bera á því að hrossakjöt væri selt neytendum sem nautakjöt. Upprunamerkingar er varða nautakjöt hafa þegar verið innleiddar.

Í sjötta lagi gerir meiri hluti atvinnuveganefndar sérstakar tillögur um að í greiningarvinnunni sem nú fer fram þurfi að ræða tengsl annarra atvinnuvega við landbúnað. Ísland fellur undir hina hreinu ímynd norðurslóða í augum umheimsins og mikilvægt er að hún standist skoðun. Hrein orka, heilnæm og fersk matvæli og tær náttúra eru atriði sem eru ofin inn í markaðsstarf útflutningsgreina og kalla á samræmd vinnubrögð. Vöxtur og viðgangur ferðaþjónustu hefur skapað sveitunum ný tækifæri víða um land, en um leið er það ferðaþjónustunni mikilvægt að viðhaldið sé menningarlandslagi og byggðamynstri í landinu sem landbúnaðurinn getur helst tryggt. Við endurskoðun landbúnaðarstefnu þarf sérstaklega að huga að tengslum landbúnaðar við aðra atvinnuvegi.

Virðulegi forseti. Áherslupunktur meiri hluta atvinnuveganefndar í þessu sambandi er að það er engin ein atvinnugrein sem ekki þarf að taka tillit til annarra. Atvinnugreinar hafa hagsmuni þvers og kruss. Þess vegna er mikilvægt að við greiningarvinnu og þjóðarsamtalið um landbúnaðinn sem nú fer í hönd áttum við okkur á að við erum ekkert eyland í íslenskum landbúnaði frekar en nokkur önnur atvinnugrein getur verið eyland.

Við ræðum um samkeppnismál og starfsumhverfi. Umræðan um samkeppnislög og mjólkuriðnað er oft og tíðum hávær. Ég á von á því að hún verði það áfram í þessari umræðu eins og oft áður. Þegar við skoðum regluverk um íslenska búvöruframleiðslu og um samkeppnislöggjöf og berum saman við önnur lönd er nú ósköp fátæklegt um að litast í okkar lagasafni um hvernig við stöndum að baki íslenskum landbúnaði miðað við mörg önnur ríki. Við höfum innleitt hér og vinnum samkvæmt samkeppnislöggjöf sem á uppruna sinn á hinu stóra Evrópska efnahagssvæði og við notum dagsdaglega hér á landi. (Gripið fram í.) Þau samkeppnislög gilda að sjálfsögðu á því efnahagssvæði sem kallað er Evrópska efnahagssvæðið en það sem ég ætlaði að draga fram er að þar gildir líka stór og mikil tilskipun um markaðsmál landbúnaðarvara. Markaðstilskipun landbúnaðarins í Evrópusambandinu er stór og þungur lagabálkur sem víkur ætíð til hliðar samkeppnislagaumhverfinu. Það er mikilvægt að hafa í huga að við höfum ákaflega fátækleg úrræði í okkar búvörulögum til að halda utan um búvöruframleiðslu og hagsmuni búvöruframleiðslunnar hér á landi miðað við mörg önnur ríki. Það getur bæði verið kostur og galli.

Um það hvort samráðsvettvangurinn eða endurskoðunarvinnan fram til 2019 leiðir það af sér að við breytum hinni frægu undanþágu mjólkuriðnaðarins frá tilteknum atriðum til samstarfs vil ég aðeins segja þetta: Það samstarf er miklu stærri pakki en eitthvert samstarf um uppgjör og verkaskiptingu innan mjólkuriðnaðarins. Sú undanþága er raunverulega hryggjarstykkið í byggðastefnu, hryggjarstykki í því að við getum sagt bændum: Þið hafið frelsi til að búa þar sem þið viljið hvar sem er um landið en þið hafið jafna stöðu gagnvart ykkar framleiðslugrein, í þessu tilfelli mjólkurframleiðslunni, og við leggjum miklar kvaðir á mjólkurfyrirtæki til að standa undir þeim skyldum. Í þeim heimi ætla ég að geta þess að heimild til samstarfs getur líka fætt af sér allt aðra vinkla en hafa endilega komið fram. Þannig er t.d. núna verið að ráðast í, á grundvelli þessarar heimildar um samstarf og samvinnu, stórt verkefni er varðar frárennsli frá mjólkurstöðvum og nýtingu á mysu sem til fellur við framleiðsluna og er stórt og mikið umhverfismál. Okkar ábending til endurskoðunarvinnunnar er að fjalla um samkeppni og starfsumhverfi afurðastöðva almennt.

Á fundi hv. atvinnuveganefndar í morgun vorum við með fulltrúa sláturleyfishafa og fulltrúa frá sauðfjárbændum þar sem við ræddum um verulega kjaraskerðingu bænda sem nú blasir við, líklega 15–25% launalækkun íslenskra sauðfjárbænda. Eðlilega hljótum við að spyrja: Hvað er það sem virkar ekki í starfsumhverfi okkar? Hvað er það sem okkur vantar til að við getum brugðist við slíkri stöðu sem núna er komin upp? Eru einhver tæki og tól sem við höfum lagt frá okkur sem valda þessari stöðu? Við gerð sauðfjársamninga árið 2007 var lagt til hliðar, að kröfu íslenskra stjórnvalda, mikilvægt tól sem hét útflutningsskylda á þeim tíma. Það má eiginlega með nokkrum rökum segja að sú ákvörðun sem þá var tekin komi nú af fullum þunga í hausinn á okkur með þeim veruleika sem blasir við íslenskum sauðfjárbændum þar sem allt samfélagið er á blússandi ferð, aukinn kaupmáttur, en þeir sitja uppi með verri kjör. Ýmislegt í starfsumhverfinu, sem auðvitað verður á hverjum tíma að harmónera við samkeppnislöggjöf og eðlilega samkeppnishætti, er nokkuð sem við þurfum sannarlega á að halda. Einn af áherslupunktunum í okkar breytingartillögum er að við viljum sérstaklega taka utan um hagsmuni þeirra sem standa í að framleiða úr hrámjólk vörur á innlendan markað, oft kallaðir minni vinnsluaðilar.

Í áttunda tölulið þeirra verkefna sem við felum samstarfsnefndinni að ræða er afkoma bænda. Við vekjum athygli á því að það þarf að greina kostnaðarsamsetningu og framleiðslukostnað í íslenskum búgreinum miklu meira en við höfum gert. Ég held að margt áhugavert geti komið út úr slíkri greiningarvinnu. Ég ætla sérstaklega að geta þess að margar vísbendingar eru um að afkoma bænda hafi ekki fylgt almennri launaþróun í landinu. Gera þarf ítarlegan samanburð á kröfum til innlendrar og innfluttrar framleiðslu og kortleggja áhrif á framleiðslukostnað.

Herra forseti. Í okkar huga hlýtur það að verða grundvallaratriði í nýrri landbúnaðarstefnu og nýjum búvörusamningum, eða hvað sem við köllum þá umgjörð sem við tekur, að við römmum inn þær auknu kröfur sem við gerum til innlendrar framleiðslu og þann kostnað sem hlýst af framleiðslu okkar í okkar fámenna landi sem býr við afar sérstakar aðstæður, a.m.k. á margan hátt. Það er líka verðugt að velta upp þeirri spurningu í tengslum við þennan punkt hvort búvöruframleiðsla og afurðaverð til bænda geti í raun og veru eitt og sér haldið uppi byggð í landinu.

Þetta eru þau aðalatriði sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til að samráðsvettvangur ræði ásamt fjölmörgum öðrum atriðum sem hann mun örugglega taka sig til við að greina og átta sig á. Við teljum mjög mikilvægt að hratt verði gengið fram til þess að skapa rými fyrir slíkt þjóðarsamtal um landbúnað sem við erum að leggja upp með og að landbúnaðarráðherra gangi þar rösklega til verks og að þessu mikla starfi verði skapað nauðsynlegt rými sem og nauðsynlegar fjárveitingar. Það er augljóst að miðað við þau viðamiklu verkefni sem við höfum rammað inn í okkar nefndaráliti og fleiri atriði sem vafalaust koma upp í því samtali verður að kosta verulegu til svo við getum haft öflugan, góðan og vandaðan undirbúning að þeim miklu breytingum sem af því geta leitt.

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að gerður tollasamningur blandist líka að verulegu leyti inn í umfjöllun um búvörusamninga. Við höfum eytt talsverðum tíma í að greina hann og við erum hér með tillögur um hvernig við getum komið til móts við aukna samkeppni og þar af leiðandi reynt að styrkja samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu á móti auknum innflutningsheimildum. Það sem ég vil geta sérstaklega er að við sköpum samt enn ekki landbúnaðinum þau tól og tæki að hann geti endurreist framleiðslugetu sína. Við töpum á hverju einasta ári hlutdeild á markaði, í það minnsta í svína- og kjúklingaframleiðslunni, án þess að við höfum skapað þeim búgreinum nein alvörutækifæri til að takast með framleiðslu á við stækkandi markað, því miður. Auðvitað eru engar patentlausnir til í þeim efnum en það er sannarlega eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að takast á við. Í breytingartillögum erum við með tímamótatillögur um að t.d. sérupprunamerktir ostar, sem samið var um í tollasamningi, verði fluttir inn án útboða en úthlutað með hlutkestisaðferð sem nánar er rakin í greinargerð okkar. Við teljum að 230 tonna kvóti með sérupprunamerktum ostum sé þess eðlis að við eigum af fremsta megni að leitast við að láta hann verða til þess að auka hér lífsgæði, getum við sagt, auka vöruval í búðum og að ávinningurinn af þeirri breytingu skili sér hratt og vel til neytenda en reynum á sama tíma að láta það ekki verða til þess að hann verði einhæfur innflutningur á einni ostategund sem stíflar markaðinn á degi eitt frá því að hann kemur til framkvæmda.

Ég held að það sé líka óhjákvæmilegt að við ræðum í tengslum við tollasamning og frágang á búvörusamningum og þessu þingmáli að ýmis iðnaður í landinu notar mikið af landbúnaðarhráefnum. Við tökum sérstaklega utan um hagsmuni þeirra er nota mjólkurduft og vekjum athygli á því að verðlagsnefnd búvöru sem hefur verðlagt búvöru, eðli málsins samkvæmt, lækkaði í sumar um 20% mjólkurduft til matvælavinnslu. Við leggjum eindregið til að á hverjum tíma sé verðlagning á mjólkurdufti í ákveðnu samhengi við heimsmarkaðsverð. Til skamms tíma var heimsmarkaðsverð reyndar mun hærra en mjólkurduftsverð var skráð á Íslandi. Þetta er ein af þeim mótvægisaðgerðum sem við teljum mikilvægt að komi til framkvæmda, til móts við nýjan tollasamning, til að tryggja að íslenskur matvælaiðnaður geti (Forseti hringir.) notið íslenskra hráefna.

Herra forseti. Í nefndarálitinu eru tíundaðar breytingartillögur okkar sem ég hef ekki tíma til að rekja nánar en hlakka til að taka þátt í umræðunni um þetta stóra mál.