145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason stóð tvisvar að því að framlengja gömlu búvörusamningana, og er rétt að taka fram að ég tók þátt í því með honum. Ég get líka þar af leiðandi vitnað um að það var ósköp örðugt að fá eitthvert samtal um það að gera breytingar sem þá þegar þurfti að fara að gera. Það eru þær breytingar sem við erum að leggja af stað með hér. Við erum ekki að segja að undanþága mjólkuriðnaðarins þurfi að standa um aldur og ævi. Ég tek undir orð hv. þingmanns að hún var sett á til að ná fram ákveðnum markmiðum. En veruleikinn er einfaldlega sá að þessi undanþága er mörg hundruð milljóna virði. Förum við nú kannski að nálgast umræðuna um það hvernig við ætlum að aflétta henni eða breyta henni til að ná sömu markmiðum. Það getur líka þýtt að við þurfum að stofna til annarra ríkisútgjalda og annarra aðferða til að takast á við það. Ef við tökum bara nákvæmlega stöðuna eins og hún er í dag, að hið ágæta mjólkurvinnslufyrirtæki Arna í Bolungarvík, (Forseti hringir.) sem vonandi nýtir bráðum alla þá mjólk sem til fellur á Vestfjörðum, hefur þá rétt á að láta stóran (Forseti hringir.) markaðsráðandi aðilann, Mjólkursamsöluna, keyra til sín mjólk alls staðar að af landinu án þess (Forseti hringir.) að borga neitt sérstaklega fyrir það.