145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir nefndarálit hans og framsöguræðu sem endurspeglar ekki síður bara góðan hug og vinnu hans í nefndinni að þessu mikilvæga máli. Það sem ég vildi segja í andsvari við ræðu hans er að taka kannski upp þráðinn um sértæka byggðastuðninginn og það sem hann ræddi m.a. í framsögu sinni um hann. Auðvitað er þar verið að þróa nýtt stuðningsform sem í sjálfu sér liggur fyrir, þannig að búið er að róa fyrir þær víkur sem hann hefur áhyggjur af þar.

Hitt sem ég vildi nefna um afnám framleiðslustýringarkerfisins og þá umræðu sem hefur orðið vegna þess, af því að í framsögu hans kom fram að menn hafi heykst á því með einhverjum hætti að lagt hafi verið af stað með það í upphafi, að afnám framleiðslustýringar er stórt mál að því leyti að það getur líka leitt til mikillar sóunar. Þar höfum við í sjálfu sér bara tekið mjög öflugt námskeið hjá Evrópusambandinu eftir að framleiðslustýring var þar aflögð á síðasta ári. Það sem aftur á móti hefur borið minna á í fréttum hér heima er að Evrópusambandið afnam ekki framleiðslustýringuna með öðrum hætti en að færa hana yfir til framleiðenda samvinnufélaganna og eftir þeim fréttum og fréttaveitum sem ég hef ágætan aðgang að enn þá, eru framleiðendasamvinnufélögin í Evrópu núna að taka upp eigið kvótakerfi, þannig að framleiðslustýring er áfram. Ég trúi því að framleiðslustýring muni þurfa að vera áfram. Ég segi líka að þær breytingar sem gerðar eru á stuðningsformi í þeim búvörusamningi sem við ræðum eru þá til þess fallnar að skilja í sundur stuðningsformið og framleiðslustýringuna. Ég mundi því vilja fá hv. þm. Kristján L. Möller til að fjalla um hug hans til framleiðslustýringar og afnáms hennar.