145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins fyrst um framleiðslustýringuna sem hv. framsögumaður málsins gerir hér að umtalsefni og spyr mig út í. Ég get sagt að ég hef sveiflast svolítið til og frá í því máli eftir gestakomur og eftir umræðu um málið. Það má líka segja í þessu efni að Mjólkursamsalan, og það kom fram í reikningum Mjólkursamsölunnar á Auðhumlu, að á árinu 2015 óskaði hún eftir að bændur mundu framleiða meiri mjólk og bauðst til að kaupa það allt saman. Það gerðist á seinni hluta ársins 2015. Í ársriti þessara tveggja félaga kemur fram að þetta sé hluti af tapi annars vegar Auðhumlu og MS vegna aukins innvegins mjólkurmagns. Það hefur hins vegar komið fram og verið rætt um og kom líka fram núna við lokin, sem mér kom mjög á óvart, að fyrir umframmagnið í mjólk er Mjólkursamsalan að greiða 20 krónum minna á lítra en aðra mjólk. Það held ég að hafi komið fram síðar, eftir þá hvatningu.

En framleiðslustýringin, já, vafalaust þarf hún að vera eitthvað áfram en þá kemur önnur hlið á teningnum upp sem ég vitnaði hér í, í ágæta kynningu Haraldar Benediktssonar, þáverandi formanns Bændasamtakanna, á fundi Samfylkingarinnar, þar sem kvótakaupaliðurinn var það sem stakk mest í stúf við reikningshald og reikningssamanburð hjá bændum á Íslandi og í Skandinavíu. Þá er það spurning sem má setja fram, þó að ég eigi ekki í andsvari að setja fram, til hv. þingmanns: Hvernig afnemum við það sem Bændasamtökin ætluðu að leggja upp með í byrjun?

Ef til vill, virðulegi forseti, hef ég tíma í seinna andsvari mínu til að fjalla um það sem var rætt um áðan, sem mér fannst vera aðalatriðið, um starfsskilyrði sauðfjárræktar, þ.e. um svæðisbundna stuðninginn. Ég reyni að koma að því á eftir.