145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli aftur á því sem ég sagði í upphafi máls míns í andsvari við hv. þingmann að aðskilnaður framleiðslustýringar og stuðningsgreiðslna er að eiga sér stað við þessa samþykkt. Það verkefni, að minnka útgjöld búanna vegna þess þáttar, er í sjálfu sér bara áfram innbyggt í samninginn.

Hv. þingmaður kom að öðru atriði í nefndaráliti sínu og varðar sauðfjárræktunina sérstaklega og málefni sauðfjárbænda. Það sem mig langar að heyra er: Hann gerði að umtalsefni útflutning og lágt verðmæti sauðfjárafurða og mikla framleiðslu. Við getum haft á því margar skoðanir en við höfum skapað atvinnugreininni þennan ramma, höfum sagt henni: Þið eigið að gera sem mest úr innanlandsmarkaði, síðan eigið þið að taka það sem umfram er á erlendan markað og það skilar ykkur þessu og það sveiflast með heimsmarkaðsverðinu. Veruleikinn er sá, virðulegi forseti, að við breytinguna á sauðfjársamningunum 2007 voru íslenskir bændur settir undir heimsmarkaðsverð á sauðfjárafurðum. Það sveiflast mikið til og það endurspeglar að hluta til þá miklu erfiðleika sem þeir eru í núna. En til að takast á við það sem hv. þingmaður fjallaði um í nefndaráliti sínu verðum við að taka aftur upp kvótastýrða sauðfjárrækt, framleiðslustýrða sauðfjárrækt, ef þingmaðurinn vill boða það sem mótvægisaðgerð við það sem hann var að gagnrýna í nefndaráliti sínu og ræðu sinni.