145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má margt segja um framleiðslustýringu og stundum getur hún átt við og stundum ekki. Stundum gagnast það þeim sem eru í greininni að hafa einhver takmörk á. Ég held að óheft offramleiðsla geti oft komið í hausinn á bæði neytendum og þeim sem framleiða. Ég veit ekki betur en að í Evrópu hafi farið af stað mikil offramleiðsla sem síðan olli því að verð hrundi. Ég held að bændur í Evrópu margir hverjir séu ekki of sælir af sínu og lifi ekki af því lága botnverði sem þeir fá fyrir framleiðslu sína. Það er lítil framtíð í því að hafa það svona óraunhæft, jafnvel þótt verð falli og allir hoppi hæð sína af því að þeir geta keypt ódýra vöru, sem aftur verður til þess að margir bregða búi og færri verða eftir. Hvað þýðir það? Þegar færri eru eftir þýðir það oftar en ekki að vara hækkar, verð rýkur upp aftur og varan verður enn dýrari. Ég held því að alveg eðlilegt sé að farið sé varlega í því að hvetja menn í að framleiða og framleiða án þess að hafa nokkra sýn á það hvar það endar. Það getur endað í því að það verður algjört verðfall og að viðkomandi bóndi hafi ekki neina möguleika til þess að halda áfram rekstri.

Varðandi undanþágu Mjólkursamsölunnar er ég hlynnt því að það sé jöfnunarverð. Ég hefði haldið að hv. þingmaður væri jöfnunarmaður og fylgjandi jöfnun varðandi búsetu, að bændur gætu fengið sama verð fyrir mjólkina og neytendur fengju sama verð fyrir mjólkina hvar sem er á landinu. Ég tel það vera ágæta innbyrðis jöfnun og eiginlega flutningsjöfnun, eins og hv. þingmaður flutti mál um á sínum tíma á Alþingi.

Varðandi Örnu sem er í kjördæmi mínu þá komu fulltrúar hennar á okkar fund og sögðu að þeir mundu aldrei fara sjálfir út í það að safna mjólk og voru ánægðir með að geta keypt mjólkina frá (Forseti hringir.) öðru fyrirtæki en vildu fá hana á sanngjörnu verði, sem ég tek hjartanlega undir.