145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:30]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir nefndarálit hennar og fyrir samstarfið í atvinnuveganefnd. Eins og hv. þingmaður komst að orði ríkir alveg sérstakur andi í atvinnuveganefnd þar sem menn leggjast allir á árarnar til finna lausn á málinu. Einnig get ég tekið undir með hv. þingmanni að framsögumaðurinn í málinu, hv. þm. Haraldur Benediktsson, hefur staðið sig mjög vel í þessu og hefur verið fínt að hafa hann í þessum störfum og þolinmæðin sem hann sýndi hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur var alveg einstök. Þess vegna hljóta það að hafa verið mikil vonbrigði fyrir hv. þm. Harald Benediktsson að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir skyldi svo stökkva af vagninum þegar átti að fara að skrifa undir. Nei, þá ég verð ekki með. Ég verð því að segja að það hljóta að hafa verið mikil vonbrigði fyrir hv. þingmann rétt eins og mig.

Ég veit að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir vill landbúnaðinum vel. Mig langar að spyrja hana, því að það hefur ekki komið alveg fram hjá henni með þessar upphæðir. Menn eru ýmist með eða á móti þessum landbúnaðarsamningi en það tala fáir um hvort þeim finnist þessi styrkur of hár eða of lágur. Útgjöld á þessu ári eru um 12,8 milljarðar og fara í 13,7 milljarða á næsta ári, 2017, og enda í 13,6 milljörðum. Finnst hv. þingmanni of mikið í lagt með þessum styrkjum til bænda, eða finnst henni þetta of lágt? Eða er hún bara sammála um þessa upphæð, að þetta sé akkúrat (Forseti hringir.) upphæðin og sátt við hana?