145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara hér nokkrum orðum um búvörusamninginn og um þær breytingartillögur sem meiri hluti atvinnuveganefndar gerir. Ég vil fyrst lýsa miklum vonbrigðum með að við skulum búa við ríkisstjórn sem gerir búvörusamning á síðustu metrunum og er að reyna að berja hér í gegn samning til tíu ára, kveður samt á um að í honum skuli vera einhvers konar endurskoðun eftir þrjú ár, sem er þó óljóst hvort yrði gert lagalega með þeim hætti að ríkinu sé frjálst að ganga frá samningnum. Þegar málið var kynnt fyrir mér á sínum tíma meðan á samningsgerðinni stóð af hæstv. þáverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra lagði ég sem formaður Samfylkingarinnar á það þunga áherslu að kallað yrði til alvörusamráðs um þetta mál. Það væri eðlilegt þegar svona stórir hagsmunir væru í húfi að ríkisstjórnin hefði skýrt samningsumboð frá Alþingi áður en lagt væri af stað í samninga. Við þeim viðvörunum var skellt skollaeyrum. Reyndar lýsti ráðherrann þó athyglisverðum markmiðum sem öll lutu að því að losa um þetta stífa framleiðslustýringarbixerí sem landbúnaðurinn hefur illu heilli verið hnepptur í, en síðan kom samningur til tíu ára um mjög litlar breytingar. Í lagafrumvarpinu sem hér var lagt fram upphaflega er afturför á mörgum sviðum og sérstaklega hvað varðar samkeppnisþátt málsins.

Það er alveg ótrúlegt að þessi uppgefna ríkisstjórn, þar sem samskipti milli manna eru algjörlega hrunin, ætli að fara fram á það við Alþingi að við þolum frá henni að hún og meiri hlutinn, sem er hér á síðustu metrunum, bindi hendur næsta þings og reyna að búa til ramma sem geti bundið Alþingi til tíu ára.

Það er líka athyglisvert að hér er ekki um að ræða neinar smáfjárhæðir. Útgjöldin samkvæmt þessum samningi og verðmæti tollverndarinnar saman nema um 200 milljörðum á tíu árum. Það er eins og dýrasta útgáfan af óhagstæðasta Icesave-samningnum. Mér þykja stjórnarflokkarnir nálgast þetta verkefni af gríðarlegri léttúð, svo ekki sé meira sagt. Það er fagnaðarefni að nefndin skuli leggja upp með þetta víðtæka samráð á næsta kjörtímabili, en það er algjörlega fráleitt að byrja á að gera samning til tíu ára og fara svo í að leita samráðs um hvernig haga eigi samningsgerðinni.

Við í Samfylkingunni höfum verið fylgjandi opinberum stuðningi við landbúnaðarframleiðslu, en það er lykilatriði þegar honum er fyrir komið að hann raski ekki samkeppni meira en nauðsyn krefur og tryggi bændum og neytendum hámarksávinning. Það gerir núverandi kerfi ekki og það gerir þetta kerfi ekki heldur með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Við getum horft á breytingar sem gerðar hafa verið í fortíðinni í öðrum atvinnugreinum. Grænmetisframleiðslan var nefnd hér fyrr í dag og hún er mjög gott dæmi. Það er nefnilega þannig að í henni hefur tekist að búa til kerfi þar sem vissulega eru umtalsverð framlög úr ríkissjóði til greinarinnar, en það hvetur til samkeppni, það ýtir undir vöruþróun og frumkvæði bænda og auðveldar greininni að keppa við innflutta framleiðslu. Það hlýtur að vera markmið okkar, ekki að skapa atvinnugreinum falskt öryggi með tollmúrum og höftum heldur búa til þannig kerfi að þær geti keppt á ágætisgrundvelli í frjálsum viðskiptum.

Ég nefndi hér áðan að upphafleg markmið um afnám framleiðslustýringar og aukið markaðsaðhald hafi þynnst svo út í gerð samninganna að ekkert hafi staðið eftir. Nú er sem sagt meiri hluti nefndarinnar búinn að leggja það alfarið á hilluna. Við erum því að samþykkja hér samning sem mun hvorki tryggja greininni né neytendum fullnægjandi ávinning. Í samningnum er líka fullt af glötuðum tækifærum.

Hér hefur umhverfisþáttur málsins verið nefndur. Það liggur fyrir að Ísland þarf að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum. Af hverju í ósköpunum var tækifærið ekki notað núna og fjármagn sett í það að gera bændum kleift að starfa við það að endurheimta votlendi og draga þannig úr loftslagsáhrifum? Við þurfum að grípa til aðgerða sem þjóð. Ég held við séum öll sammála um að það sé mjög skilvirk leið. Af hverju í ósköpunum var ekki tækifærið notað núna?

Það er líka athyglisvert að hér er ekkert gert til þess að auka fjölbreytnina í greiðslufyrirkomulagi. Það skortir að stuðningur sé veittur með fjölbreyttari hætti og ekki er neitt gert til þess að greiða fyrir samkeppnisstöðu minni keppinauta í afurðasölu.

Í því samhengi er vert að hafa í huga að undanþágan frá samkeppnislögum sem Mjólkursamsalan nýtur var sett á árið 2004 og yfirlýst markmið hennar þá var að gera greininni fært að sameina afurðastöðvar án samrunaeftirlits en ekki að undanskilja eftirlit með markaðsráðandi stöðu. Það ætti að vera tímabundið til að draga úr dreifingarkostnaði, draga úr kostnaði í afurðakerfinu og búa greinina undir samkeppni erlendis frá. Það tókst svo vel að árið 2007 var fjallað um lagabreytingar í athugasemdum með frumvarpi til breytinga á búvörulögum sem hæstv. þáverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og núverandi forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, lagði fram. Hann fjallaði um undanþáguna með eftirfarandi hætti:

„Var því talið nauðsynlegt þar til markaðurinn yrði talinn þroskaður í þeim skilningi, að verðmiðlun og verðtilfærsla afurðastöðva í mjólkuriðnaði yrði undanskilin gildissviði samkeppnislaga. Frá setningu breytingalaganna hefur átt sér stað mikil hagræðing og er staða iðnaðarins í dag talin það stöðug að óþarft sé lengur að lögbinda undantekningu um verðtilfærslu og verðmiðlun frá samkeppnislögum.“

Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, í athugasemdum með frumvarpi í árslok 2007.

Engu að síður er áfram haldið með þessa undanþágu sama þótt við blasi að hún hefur reynst Mjólkursamsölunni skálkaskjól til ofbeldisaðgerða gagnvart samkeppnisaðilum og að Mjólkursamsalan hefur misbeitt valdi sínu ítrekað og reynt að túlka þessa undanþágu miklu víðar en hún gildir í raun samkvæmt orðanna hljóðan. Undanþágunni er viðhaldið núna af meiri hluta nefndarinnar.

Hvað kom síðan fram fyrir nefndinni? Jú, að undanþágan er óþörf. Hún er óþörf ef markmiðið er að tryggja að hægt sé að safna mjólk á sama verði um allt land og selja hana á sama verði um allt land. Það er engin þörf fyrir undanþágu frá samkeppnislögum til þess að ná þeim árangri. Þetta sagði Samkeppniseftirlitið og stafaði það ofan í nefndarmenn. En fulltrúar meiri hlutans ákveða að taka ekki einu sinni mark á efnislegum rökum og halda þessari undanþágu áfram. Þetta er víðtækari undanþága en landbúnaðurinn nýtur frá samkeppnislögum í nokkru nágrannalandi okkar.

Og það sem verra er, tilburðir Mjólkursamsölunnar til þess að misnota þessa undanþágu með mismunun í verðlagningu, sem hefur valdið gríðarlegum sektum frá Samkeppniseftirlitinu, góðu heilli, hafa verið látnir óátaldir af meiri hluta nefndarinnar.

Það er líka vert að hafa í huga að í frumvarpinu eins og það útbúið var í upphafi var gert ráð fyrir að undanþágan yrði enn hert og að bannið við misnotkun á markaðsráðandi stöðu mundi ekki lengur gilda um ofbeldismanninn. Það átti sem sagt bara að opna upp á gátt möguleika Mjólkursamsölunnar til ofbeldisaðgerða.

Blessunarlega er nú undið ofan af því í breytingartillögunum sem nefndin gerir nú, vona ég. Ég tek eftir því að menn tala um óbreytt ástand í greinargerðinni. Ég tel þess vegna afar mikilvægt að halda því hér til haga að í því lögskýringargagni og í þeim umræðum sem hér fara fram að það sé hafið yfir vafa að Samkeppniseftirlitið hefur áfram eftirlit með misnotkun á markaðsráðandi stöðu í mjólkuriðnaði. Undanþágan dugar ekki til að koma ofbeldismanninum í skjól enn einn ganginn.

Það er síðan athyglisvert að í umfjöllun meiri hluta nefndarinnar er gefið í skyn að samningurinn sem nú verði staðfestur sé einungis til þriggja ára. Mér þykir það samt veikburða þegar aðstæðurnar eru eins og hér um ræðir því að í fjölmörgum greinum frumvarpsins er vísað til ársins 2026, þannig að við erum að fara að lögfesta skuldbindingar til 2026. Hefur ríkið frjálst val um það eftir þá endurskoðunarvinnu sem nú á að fara af stað, það mikla samtal sem menn eru búnir að ákveða að taka um hvert þeir vilji stefna eftir að þeir ákveða að fara af stað? Það er svolítið fyndið. Þetta er eins og að við búum við stjórnarmeirihluta sem er lagður af stað vesturleiðina til Akureyrar, en hann er ekki alveg viss hvert hann er að fara, hann veit ekki hvort hann er að fara til Akureyrar, til Vestmannaeyja eða hvert hann er að fara og sýnir það betur en nokkuð annað ráðleysi ríkisstjórnarmeirihlutans í þessu máli.

Ég vil algjörlega skýr svör um að ríkið hafi fullt svigrúm til þess að víkja frá þessum samningi eftir þrjú ár ef það er vilji meiri hlutans þá, sem blessunarlega margt bendir til að verði frjálslyndari og opnari fyrir markaðslögmálum í þessari atvinnugrein en nú er. Það stefnir í að hér verði ákveðin landhreinsun af þingi af fulltrúum afturhaldsaflanna og það sé von til þess að hér komi sterkari hópur frjálslyndra þingmanna á nýju kjörtímabili. Það er kannski þess vegna sem við sjáum krampakennda tilraun þessarar úrvinda ríkisstjórnar sem drattast fram úr til að troða þessu máli í gegn til þess að reyna að láta hina afturhaldssömu samsetningu þessa þings gilda út yfir gröf og dauða og langt fram yfir lok þessa kjörtímabils. Það er kannski það sem er raunverulega í gangi hér.

Ég held að við munum þess vegna gera breytingartillögu sem hv. þm. Kristján L. Möller mælti fyrir fyrir okkar hönd hér fyrr í umræðunni um að gildistíminn verði ótvírætt til þriggja ára. Við munum líka gera breytingartillögu um brottfall 71. gr. Ég hlýt að horfa á þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa látið teyma sig eins og blindingja í þessu máli. Hvað á þessi þjónkun við ruglið að ganga langt? Það liggur fyrir eftir umfjöllun í atvinnuveganefnd að það eru engin efnisleg rök fyrir undanþágunni. Það er engin þörf á því að viðhalda henni til þess að tryggja að hægt sé að safna mjólk á sama verði um allt land og selja hana á sama verði um allt land. Af hverju er þá verið að viðhalda þessari undanþágu? Það verður mjög athyglisvert að sjá hvort enn þá finnist einhverjir talsmenn atvinnufrelsis í Sjálfstæðisflokknum þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þetta mál. Ég er efins um það, en ég bind þó vonir við að nokkrir þeirra eru að leita eftir endurkjöri akkúrat þessa dagana og nokkrir þeirra þurfa að setja upp sparifrjálslyndissvipinn, þótt ekki væri nema til þess að fá endurkjör. Ég sé tvo fulltrúa þeirra í þessum sal, hv. þingmenn Vilhjálm Bjarnason og Birgi Ármannsson. Ég held að það væri virkilega gleðilegt ef gæti kviknað hjá þeim og tekið sig upp langdeyfð og dauð frjálslynd taug við afgreiðslu þessa máls.

Þó að við séum ekki að ræða tollasamninginn við Evrópusambandið er mjög mikilvægt að hafa heildarsamhengið í huga vegna þess að til að heildarsamhengið virki þarf ákveðið jafnvægi. Við styðjum útgjöld til stuðnings við landbúnaðarframleiðslu og markmiðið hlýtur að vera að stuðningurinn raski sem minnst heilbrigðri samkeppni og markaðslögmálum, skili bændum og neytendum hámarksávinningi. Hluti af þeirri heildarmynd hefur verið að Ísland hefur undirgengist skuldbindingar um að leyfa innflutning á landbúnaðarvöru annars vegar á lágum tollum og hins vegar á kvótum. En framkvæmdin hefur verið sú af varðstöðumönnum um óbreytt ástand áratugum saman að menn hafa búið til kerfi til þess að reyna að koma í veg fyrir að það skapist nokkurt verð- eða gæðaaðhald með þessum innflutningi. Yfirlýst markmið þessara samninga af hálfu Íslands þegar Ísland hefur skrifað undir þátttöku í þessum samningum hefur verið að menn vilji að þeir skapi aðhald í verði og gæðum. En þegar innflutningskvótarnir eru boðnir upp skapast hvorugt. Verðið verður nokkurn veginn það sama og á hinni innlendu framleiðslu og vegna þess hve mikið er borgað fyrir kvótana fara menn í það að flytja inn lélegustu vöruna, ódýrustu vöruna.

Þess vegna er mjög mikilvægt, líka í ljósi þess að fyrir liggja hæstaréttardómar um ágalla í þessu innflutningsuppboðskvótakerfi, að breyta lögum og úthluta innflutningskvótum með hlutkesti. Við munum gera breytingartillögu þar um. Samtök verslunar og þjónustu hafa sent Alþingi aðrar hugmyndir þar sem þrír fjórðu hlutar ættu að úthlutast á grundvelli reynslu og fjórðungur á grundvelli hlutkestis. Ég tel það einfaldlega ófært vegna þess að í fortíðinni hafa framleiðendur keppst um að bjóða hátt í þessa kvóta til þess að verja sig fyrir erlendri samkeppni. Ég sé þess vegna enga ástæðu til að byggja á sögulegri reynslu þegar kemur að úthlutun þessara kvóta. Það er þvert á móti mjög mikilvægt að úthluta þeim með hlutkesti, með eins einföldum hætti og mögulegt er, rétt eins og meiri hluti nefndarinnar leggur til. Það er kannski eitt af því fáa sem ég get hrósað meiri hlutanum fyrir, þ.e. að sama fyrirkomulag muni gilda fyrir alla innflutningskvóta eins og meiri hlutinn gerir ráð fyrir að gert verði hvað varðar upprunamerkta osta. Það er mjög mikilvægt til þess að árangurinn af heildarsamhengi hlutanna verði fullnægjandi og að aðhald skapist bæði í gæðum og verði.

Virðulegi forseti. Það er gott að sjá af hálfu meiri hluta nefndarinnar að menn leggja upp með alvöruvinnu á næstu árum í endurskoðun búvörusamninga. En það er ekki þessa afturhaldssama þings að binda hendur næstu þinga. Það á þvert á móti að vera þannig að ný ríkisstjórn komi að hreinu borði. Það skiptir mjög miklu máli að nýr meiri hluti Alþingis hafi frjálst val um með hvaða hætti þetta mál verði þróað aftur. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætli að standa að því að binda hér afturhald og forsjárhyggju í sessi næstu tíu árin með óafturkræfum hætti. Ég held þess vegna að það sé mjög mikilvægt að gengið verði ríkt eftir því að það sé ótvírætt að ný stjórnvöld hafi fullt frelsi til þess að taka ákvarðanir á miðju næsta kjörtímabili.

Það er ágætistími til stefnu ef við horfum til þriggja ára, þannig að samningarnir gildi til ársloka 2019. Það þarf auðvitað að eiga um það samtal. Það þarf að þróa nýjar hugmyndir og nýjar leiðir. Við eigum það öll skilið. Landbúnaðurinn þarf mjög nauðsynlega á því að halda að öðlast meira frelsi í framleiðslu, í vöruþróun og fá þannig tækifæri til þess að nýta alla þá miklu möguleika sem samfélagsbreytingarnar sem við lifum núna skapa, aukin ferðaþjónusta, mikill fjöldi munna að metta í þessu landi og ný tækifæri sem geta skapast í útflutningi.