145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:28]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að ræða um kerfisbreytingu á íslenska almannatryggingakerfinu. Lengi hefur verið beðið eftir þessu réttlætismáli og vonbrigði að það hafi tekið ráðherra allan þennan tíma að koma því inn í þingið. Hæstv. ráðherra talaði sjálf um að þetta væri mál sem hefði verið unnið í bútum. Sannleikurinn er auðvitað sá að hér eru loksins að koma breytingar sem kosta einhverja peninga og hún hefur væntanlega ekki treyst sér til að kreista þá úr hnefa hinnar nísku hægri stjórnar, hægri stjórnarinnar sem hefur aðallega verið að koma fé frá þeim efnaminni til þeirra efnameiri.

Hvað varðar þá kerfisbreytingu sem hér er lagt upp með er verið að einfalda kerfið og það er mjög jákvætt. Það sem er líka verið að gera er að verið er að afnema krónu á móti krónu skerðingu sem er mjög réttlát aðgerð og nauðsynleg. Þessu fagna ég. En það eru þættir sem ég hef áhyggjur af og það mun auðvitað koma fljótlega í ljós í nefndinni hvort eitthvað er hægt að gera í því og hvaða áhrif það hefur á afgreiðslu frumvarpsins.

Þegar eru komnar fram athugasemdir um að skerðingarprósentan sé of há, 45%, og þá ekki síst í samspili við það að engin frítekjumörk verða í kerfinu. Einföldunin felst í því að verið er að sameina bótaflokka og afnema frítekjumörk og slíkt, en það voru mismunandi frítekjumörk á mismunandi tekjum í mismunandi bótaflokkum. Sá fjöldi fólks sem reiðir sig á framfærslu úr þessu kerfi bjó við þær ömurlegu aðstæður að vera kannski aldrei alveg viss hvaða áhrif það kynni að hafa ef tekjur þeirra ykjust, hvort sem það voru fjármagnstekjur, lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur eða leigutekjur.

Þarna er auðvitað um stóra kerfisbreytingu að ræða og við í nefndinni munum þurfa að fara mjög ítarlega yfir afleiðingar hennar. Síðan stendur það í okkur mörgum, þó að um það séu mjög deildar meiningar í samfélaginu, að grunnlífeyririnn sem er í dag og lífeyrissjóðstekjur, þ.e. mjög margir halda að sumt fólk hætti að fá greiðslur úr almannatryggingunum, en ég persónulega er þeirrar skoðunar að almannatryggingakerfið eigi að vera sameign okkar allra og allir eigi að eiga einhver grunnréttindi í því kerfi. En deildar meiningar eru um slíkt. Þetta er líka einn af þeim þáttum sem ég veit að munu koma til umræðu í nefndinni. Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í þessa kerfisþætti. Þetta er bara eitthvað sem við munum fá inn umsagnir um og velta fyrir okkur og nefndin mun fara yfir.

Það sem ég hef áhyggjur af er að ekki er verið að hækka greiðslur lífeyristrygginga. Þó að fjöldi fólks hækki um einhverjar krónur þá er það vegna afnáms krónu á móti krónu skerðingarinnar, en hámarksréttindin verða áfram 212.776 kr. fyrir þann sem býr með öðrum og 246.902 kr. fyrir þann sem býr einn. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Mér finnst þetta metnaðarleysi og mér finnst í ljósi þeirra særinda í garð stjórnvalda út af almannatryggingakerfinu og þeirra láta sem hér voru þegar við í Samfylkingunni reyndum að knýja í gegn hækkanir, en þær voru felldar af stjórnarmeirihlutanum, þá finnst mér merkilegt að ráðherra yfir höfuð hafi kjark til að koma með þessar fjárhæðir óbreyttar.

Það sem við í Samfylkingunni viljum og vildum um síðustu áramót og viljum enn er að leiðrétting á almannatryggingum nái aftur til 1. maí 2015 og sé þá með sama viðmiðunartíma og fyrir launafólk á vinnumarkaði. Við hefðum viljað meiri hækkanir og skýr áform um að lífeyrir fylgi kjaraþróun í kjarasamningum. Hættan er sú að núna þegar launaskrið verður og ef ekki er gripið í taumana og almannatryggingar lagaðar að því, þá myndist kjaragliðnun. Kjaragliðnun veldur ójöfnuði. Ójöfnuður er vondur. Hann er ranglátur fyrir hvern þann einstakling sem fyrir honum verður, en hann er líka samfélagslegt mein. Þess vegna segir OECD við þjóðir heims: Lítið þið sérstaklega til þróunar jafnaðar því jöfnuður er svo mikilvægur, ekki síst fyrir hagvöxt. En hann er mjög mikilvægur fyrir heilsu. Hann er mjög mikilvægur fyrir félagslega samheldni í samfélögum og þess vegna megum við ekki láta reka á reiðanum með almannatryggingakerfið og láta greiðslur þar dragast aftur úr þróun þeirra sem eru á vinnumarkaði.

Samantekið, frú forseti, er ég ánægð með að loksins eigi að gera einföldun á kerfinu og afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Ég er ósátt við að við ætlum að hætta að hafa kerfið almannaeign. Ég hef efasemdir um ákveðnar útfærslur þarna, og svo virðist vera sem töluvert alvarlegar athugasemdir séu m.a. frá Félagi eldri borgara í Reykjavík. Síðan tel ég greiðslurnar koma allt of lágar og hefði viljað sjá hækkun á þeim.

Þá langar mig að tala um tvo aðra þætti, annan sem ég tel mjög til bóta, sem er bráðabirgðaákvæði í 18. gr. Eins og staðan er í dag ef fólk fer inn á hjúkrunarheimili þá fara allar greiðslurnar þeirra inn á hjúkrunarheimilið upp að vissu marki og fólk fær bara ráðstöfunarfé, hámark um 70 þús. kr. á mánuði. En hér er verið að breyta þessu þannig að fólk fái inn sínar greiðslur eins og vanalega og borgi svo fyrir þjónustuna á hjúkrunarheimilunum.

Farið var yfir það í gær, ég tel það rétt munað hjá mér, frú forseti, að það hafi verið hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sem benti á að þetta gæti falið í sér þá gildru að einhverjir hópar lentu í vandræðum með greiðslur. Ég tek undir þær áhyggjur. En þetta er tilraunaverkefni þar sem á að gera samkomulag við eitt eða fleiri dvalar- og hjúkrunarheimili um að prófa þetta fyrirkomulag. Kallað hefur verið eftir þessu mjög lengi og ég fagna því og tel mjög mikilvægt að við stígum nú fyrsta skrefið og sjáum hvað sé mögulegt í þessum efnum.

Þá er það ákvæðið um hækkun á lífeyrisaldri. Nú hafa verið umræður um þetta í nefndinni. Það sem ég hef hvað mestar áhyggjur af hvað þetta varðar er þegar við hugsum um örorkulífeyrisþega. Mjög margar konur um sextugt fara á örorkulífeyri vegna stoðkerfisvanda af því að þær vinna álagsstörf og vinna við þannig aðstæður að þær hafa ekki líkamlega burði til þess að vinna til 67 ára aldurs. Konur sem eru vanar að vinna mikið og vinna fyrir sér, standa uppi og geta það ekki vegna líkamlegs álags. Mér finnst í raun og veru ekki hægt að gera svona kerfisbreytingu nema það sé gert með frekari lýðheilsugreiningu. Og vinnuvernd er þarna lykilatriði. Nú er það þannig að 67 ár eru ekki greipt í stein. Þetta er aldur sem tilheyrir gamla Bismarck-kerfinu og er orðið nokkuð eðlislægt viðmið. Ég ætla ekkert að draga í efa að það kunni ekki að vera full ástæða til að hækka eftirlaunaaldur því að við erum miklu heilbrigðari og verðum miklu eldri. En ég hef áhyggjur af því að þetta kunni að koma illa niður á ákveðnum hópum. Mér finnst við þurfa að skoða þetta í því samhengi að þó að við sem tökum ákvarðanir í samfélaginu búum yfirleitt yfir meðaltali við velmegun þá er fjöldinn allur af vinnandi fólki í samfélaginu sem hefur ekki starfsþrek til sjötugs. Þá þurfum við að vera miklu metnaðarfyllri í vinnuvernd ef við ætlum að fara að breyta þessum viðmiðum.

Að lokum, frú forseti, er algjörlega óviðunandi að ekki sé verið að gera sambærilegar breytingar fyrir örorkulífeyrisþega og að þeir eigi að sitja eftir með krónu á móti krónu skerðingu, sá hópur sem kannski einna helst verður fyrir barðinu á þessu ákvæði. Nú hefur heyrst að eitthvað sé verið að skoða þetta í ráðuneytinu. En það er nú líka þannig að við ætlum að kjósa 29. október en ekkert mál um þetta hefur komið inn á okkar borð og er afskaplega óheppilegt að við séum ekki að ræða þetta allt í samhengi. Ég harma það að örorkulífeyrisþegar séu ekki þarna inni og að sjálfsögðu munum við í nefndinni ræða við Öryrkjabandalagið og meta hvort ásættanlegt sé að skilja þá eftir í þessari breytingu.