145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um það þingmál sem í daglegu tali er kallað afgreiðsla á búvörusamningum. Við áttum langa og ítarlega umræðu í 2. umr. um búvörusamninga. Sú ítarlega umræða sem þar fór fram skilaði okkur á þann veg að okkur þótti nauðsynlegt að árétta við 3. umr. nokkur efnisatriði sem við vildum taka frá þeirri umræðu og gera betur skil.

Eins og segir í nefndaráliti sem ég ætla að rekja fékk nefndin á sinn fund Ólaf Friðriksson og Rebekku Hilmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarnefnd og Benedikt S. Benediktsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu við frumvarpið sem leiðir af breytingum sem gerðar voru við 2. umr. og felst í því að ný verðlagningaraðferð mjólkur verði ekki lögfest strax eins og kveðið var á um í frumvarpinu. Í því skyni eru lagðar til breytingar á 8. og 13. gr. laganna. Nefndin fjallaði ítarlega um tilnefningu fulltrúa í verðlagsnefnd búvara á fundum sínum á milli umræðna. Við 2. umr. var samþykkt breytingartillaga sem felur í sér að ráðherra tilnefni fulltrúa minni vinnslufyrirtækja mjólkur sem áheyrnarfulltrúa í nefndina. Meiri hlutinn bendir á að þetta fyrirkomulag sætir allt endurskoðun í því ferli sem mun eiga sér stað við endurskoðun búvörusamninga til ársins 2019. Meiri hlutinn leggur ekki til frekari breytingar á tilnefningum í verðlagsnefndina en beinir því til ráðherra að leitast verði við að horfa til fjölbreyttari sjónarmiða við tilnefningu fulltrúa í nefndina. Meiri hlutinn bendir á að fjölmargir aðilar í íslenskum iðnaði hafi þörf fyrir hráefni úr mjólk og því mikilvægt að skipan nefndarinnar endurspegli fjölbreytt sjónarmið. Nefndin steig ekki það skref sem m.a. kom fram í breytingartillögum er fluttar voru við 2. umr. um málið einfaldlega vegna þess að fyrirkomulagið allt sætir endurskoðun og það mun taka breytingum við næstu endurskoðun. Hins vegar beinum við því eindregið til hæstv. landbúnaðarráðherra að við skipan í nefndina verði reynt að horfa til fleiri sjónarmiða, ekki bara til þess að við höfum núna samþykkt að breyta lögum á þá leið að áheyrnarfulltrúi sitji í nefndinni. Þó að við stígum ekki skrefið lengra að þessu sinni má benda á að þau félagasamtök sem eiga tilnefningarrétt til ráðherra um skipan í nefndina geta líka hoggið á hnútinn — við getum sagt að það sé hnútur, að það þurfi að endurspegla fleiri sjónarmið — og þar sem Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði tilnefna í nefndina er þeim í lófa lagið að horfa til fleiri þátta. Ég held að það sé líka ástæða til að nefna úr þessum ræðustóli að þau ágætu samtök, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, endurskoði líka sitt félagslega fyrirkomulag. Án þess að þingið eigi að skipta sér af frjálsum félagasamtökum held ég að slík vinna gæti stuðlað að meiri sátt um framkvæmd landbúnaðarstefnunnar.

Í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umr. var í nokkrum liðum getið um helstu verkefni samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga og m.a. gert ráð fyrir því að loftslags- og umhverfismál féllu undir endurskoðunina. Við 2. umr. var lögð fram breytingartillaga þess efnis að búvörusamningar yrðu metnir samkvæmt aðferðafræði umhverfismats áætlana, samanber lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Ákvæði þeirra laga gilda um umhverfismat skipulags- og framkvæmdaáætlana sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Búvörusamningar falla ekki undir lögin en nefndin telur að þau markmið sem felast í umhverfismati áætlana eigi vel við í því samhengi og að það bæti undirbúning breytinga og endurskoðunar að hafa þau til hliðsjónar. Nefndin beinir því til ráðherra að framangreint tilheyri þeirri endurskoðun sem fram undan er. Í áliti meiri hlutans við 2. umr. var mælst til þess að kannaður yrði sá kostur að stefna í landbúnaðarmálum byggðist að einhverju leyti á áætlanagerð, svipaðri áætlanagerð til að mynda og Alþingi samþykkir á hverjum tíma í málaflokknum samgöngumál. Eftir atvikum gæti slík áætlun fallið undir umhverfismat áætlana.

Við 2. umr. um málið var rætt um úrræði gagnvart þeim sem brjóta gegn lögum um velferð dýra, nr. 55/2013. Í X. kafla laganna er kveðið á um heimildir Matvælastofnunar sem felast m.a. í eftirlitsheimsóknum á staði þar sem dýr eru haldin, stöðvun á starfsemi, dagsektum og vörslusviptingu. Í 37. gr. laganna er kveðið á um að heimilt sé að svipta umráðamenn dýra vörslu þeirra ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests og sér Matvælastofnun um framkvæmd vörslusviptingar en er jafnframt heimilt að leita aðstoðar lögreglu. Vörslusviptingu er ekki beitt nema fyrirmælum stofnunar hafi ekki verið sinnt innan tiltekins frests og ítrekað hafi verið brotið gegn ákvæðum laganna.

Meiri hlutinn leggur til að samhliða vörslusviptingu verði Matvælastofnun gefin heimild til að fella niður opinberar stuðningsgreiðslur samkvæmt ákvæðum búvörulaga og búnaðarlaga sem nánar er fjallað um í búvörusamningum og búnaðarlagasamningum. Þar með verði niðurfellingu opinberra stuðningsgreiðslna í landbúnaði ekki beitt nema þegar um er að ræða ítrekuð brot á lögum um velferð dýra og að undangenginni áminningu samhliða vörslusviptingu. Þá er mælt fyrir um að þær greiðslur sem Matvælastofnun hefur heimild til að fella niður séu greiðslur er varða það dýr sem vörslusviptingin tekur til, t.d. beingreiðslur út á greiðslumark, gripagreiðslur, álagsgreiðslur á gæðastýrða framleiðslu o.s.frv. Niðurfellingin skal ekki ná til opinberra stuðningsgreiðslna sem ekki varða hið vörslusvipta dýr eins og t.d. jarðræktarstuðning samkvæmt búnaðarlagasamningi. Ef Matvælastofnun afléttir vörslusviptingu og umráðamanni er falin varsla dýrsins að nýju skulu opinberar stuðningsgreiðslur vegna dýrsins hefjast frá því að umráðamaður hefur fengið dýrið afhent að nýju. Nefndin bendir á að Matvælastofnun hefur nú þegar ríkar heimildir til inngripa ef dýravelferð er ábótavant samkvæmt X. kafla laganna um velferð dýra, nr. 55/2013, m.a. með stjórnvaldssektum, stöðvun starfsemi, leyfissviptingu og fleiru. Að auki liggur almenn refsiábyrgð við brotum á lögum. Meiri hlutinn leggur til að úrræði um sviptingu opinberra stuðningsgreiðslna bætist við en leggur áherslu á að Matvælastofnun nýti það í samhengi við önnur úrræði sem lögin mæla fyrir um og að stofnunin leiti samráðs við beitingu þess eins og í sambærilegum tilvikum. Jafnframt telur meiri hlutinn mikilvægt að Matvælastofnun ræki leiðbeiningarhlutverk sitt og vinni í samstarfi við leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði til að tryggja að markmið laga um velferð dýra séu uppfyllt.

Virðulegi forseti. Það spannst mikil umræða um breytingartillögur frá minni hluta við afgreiðslu við 2. umr. um þetta efnislega. Umræða um dýravelferð verður oft á tíðum óskaplega svart/hvít. Enginn þingmaður í þessum sal, ég leyfi mér að fullyrða það, eða nokkur í okkar samfélagi vill nokkurn tíma bera blak af þeim sem fara illa með dýr. Síður en svo. Meiri hlutinn gat hins vegar ekki stutt þær tillögur sem þar voru fluttar einfaldlega vegna þess að þær gengu úr samhengi við aðra kosti eða önnur tæki sem Matvælastofnun hefur til að vinna með á hverjum tíma. Ég held að það sé mikilvægt að við setjum öll þessi tæki og tól, þessi íþyngjandi tól, í heildarsamhengi. Við leggjum líka áherslu á, eins og ég las upp úr nefndarálitinu, að Matvælastofnun eins og aðrar eftirlitsstofnanir í landinu ræki líka hlutverk sitt sem leiðbeinandi aðili. Það er því miður þannig með mjög margar eftirlitsstofnanir í samfélaginu að þær eru mjög ferkantaðar, svo ég leyfi mér að nota það orð, þar sem þær fara rækilega eftir sínum skyldum og hlutverki en eru lítið tilbúnar til að veita leiðbeiningar, svo ég leyfi mér að fullyrða kannski svolítið gróft.

Ég verð var við það í umræðum um dýravelferðarmál núna og í tengslum við búvörusamninga sem við erum að afgreiða að í þessu tilfelli eru bændur svolítið ráðvilltir hvað bíður þeirra. Það er mikil umræða um básafjós og framtíð básafjósa, það er mikil umræða um stærð bása og önnur atriði er snúa að aðbúnaði dýra. Ég leyfi mér að segja að mér finnst ég heyra í of mörgum bændum sem hafa algerlega ótímabærar hugmyndir um að leggja niður búskap vegna þess að þeir halda að einhverjar reglur séu að fara að bíta þá eða verið sé að dæma þá úr framleiðslu vegna tiltekinna reglna. Þess vegna leggur meiri hlutinn á það ríka áherslu, um leið og hann bætir við þessu úrræði Matvælastofnunar að heimila að fella niður opinberar stuðningsgreiðslur, að Matvælastofnun í samstarfi við leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði leiti leiða til þess að vinna að velferð dýra með uppbyggilegum og markvissum hætti. Í þessum orðum felst ekki neinn áfellisdómur um starfsemi Matvælastofnunar hingað til, nema síður sé. En ég vil ítreka að öll umræða um meðferð á dýrum, sérstaklega um slæma meðferð, hefur tilhneigingu til að verða of svart/hvít. Það eru margir viðkvæmir fyrir þeirri umræðu, líka þeir sem dýrin eiga og finnst á einhverjum tímapunkti það standa meira upp á sig að eiga einhverja sök í þeirri umræðu að ósekju.

Við erum líka að ramma inn með þessari breytingu, sem því miður ekki var í þeim breytingartillögum sem voru fluttar, að við getum ekki fært meiri heimildir til Matvælastofnunar til niðurfellingar á opinberum stuðningi en þá sem miðast við þá tilteknu búgrein sem við á hverju sinni. Um þetta má að sjálfsögðu deila. En ég tel að í því réttarumhverfi sem við störfum og viljum að virki í kringum okkur sé mikilvægt að ramma hlutina skýrt inn og hafa þá skiljanlega þannig að við eigum ekki á hættu að menn blandi saman óskyldum málum. Mál eru alltaf mismunandi. Ég vil líka leyfa mér að segja að þegar því miður er komið í slík úrræði sem hér um ræðir, vörslusviptingar, ítrekaðar sektir, ítrekaðir frestir hafa verið gefnir til úrbóta, er það yfirleitt þannig að það er ekki bara ein ákveðin búgrein sem bóndinn á í vandræðum með heldur allt búið. Þó að við sníðum úrræðið eingöngu að þeirri búgrein eða þeim dýrum sem falla undir viðkomandi stuðningsgreiðslur viljum við hafa mörkin skýr í þeim efnum.

Nefndinni bárust ábendingar um breytingar sem nú er verið að gera á tollalögum er varða önnur ákvæði mjólkursamnings sérstaklega og því leggur meiri hlutinn til að ný grein bætist við frumvarpið sem felur í sér breytingar á 7. gr. tollalaga. Þar er lagt til að 3. töluliður hennar falli brott enda hefur ekkert reynt á hann í framkvæmd. Forsaga þessa máls er sú að líklega árið 2003 var með litlum eða stuttum aðdraganda lögum um tollalög breytt í þinginu þar sem mögulega átti að stofna kjötvinnslu á grænlensku kjöti norður á Húsavík, ef ég man rétt. Af því hefur ekki orðið. Þetta Grænlandsákvæði hefur setið eftir í lögunum en það snerist í öllum aðalatriðum um að hingað mætti flytja inn kjöt án magntolla, vinna það hér og flytja síðan aftur úr landi. Þetta var hráefni til framhaldsvinnslu. Ef kjötið átti aftur á móti að ganga til neyslu innan lands átti að greiða eðlilega tolla af því. Það kemur rækilega fram í lögskýringargögnum og þeim umræðum sem urðu í þinginu í tilefni þessara breytinga til hvers þær voru hugsaðar og til hvers átti að nota þær. Breytingartillaga nefndarinnar felur líka í sér breytingar á 11. tölulið sömu greinar sem var í raun tvítekning á 3. tölulið sem ég rakti áðan. En jafnframt leggjum við til breytingu á 11. tölulið, sem hefur samt sem áður fest í sessi ákveðna framkvæmd við að heimila tolllausan innflutning eða innflutning án magntolla á tilteknum vöruflokkum, og setjum í breytingartillögu okkar tollnúmerin einfaldlega þar undir. Þetta eru sérhæfðar vörur. Þetta er hráefni til matvælavinnslu hér á landi sem við viljum ekki setja íþyngjandi tolla á þrátt fyrir að við gerum þessa breytingu. Þetta eru vöruflokkar eins og ostaduft, sérstök gerð af kartöflum til framhaldsframleiðslu í franskar kartöflur, tollskrárnúmer er nær yfir smjörlíki í fimm kílóa pakkningum eða stærri og nær líka yfir vörur er í daglegu tali kallast brauðmylsna.

Við afgreiðslu búvörusamninga og þingmálsins því tengdu var gerð breyting á ákvæði sem var undirritað í samningum við bændur um uppfærslu á verðmæti magntolla í tilteknum vöruflokkum. Meiri hluti atvinnuveganefndar gerði á því nokkrar breytingar en náði ekki að útfæra þær tæknilega til enda í nefndaráliti við 2. umr. Því fylgir hér við 3. umr. tæknileg útfærsla á þeim breytingum enda var það kynnt við 2. umr. að sú breyting yrði gerð og að til þess væri ætlast, þó að tekin væri upp ný viðmiðun og miðað við SDR-tollgengi, að hún mundi uppfærast árlega héðan í frá miðað við þá viðmiðun. Því þarf að gera tvær breytingar á tollalögum í þessu sambandi. Í fyrsta lagi bráðabirgðaákvæði er gildir frá tímanum sem við samþykkjum þingmálið og til 1. mars nk. Og síðan mun tollurinn uppfærast 1. mars hvert ár með sérstökum útreikningi og verður birtur í Stjórnartíðindum árlega eins og rakið er í breytingartillögum okkar.

Að lokum er áréttaður í nefndaráliti, án þess að því fylgi bein lagabreytingartillaga, vilji meiri hluta atvinnuveganefndar til að hraða innleiðingu á auknum kvótum vegna innflutnings á sérostum og hefur meiri hlutinn hefur sammælst um það við ráðherra landbúnaðarmála að hraða þeirri innleiðingu, samanber breytingartillögu sem meiri hlutinn flutti við málið við 2. umr. og tengist 65. gr. B búvörulaga, þannig að hún komi til framkvæmda á fyrsta ári gildistíma samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Um er að ræða sérosta er falla undir vörulið úr 0406 samkvæmt tollskrá í viðauka I við tollalög og eru skráðir í samræmi við reglur um vernd afurðaheita með vísan til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Nú er sá sérbundni tollkvóti rétt um 20 tonn og verður samkvæmt tillögu meiri hlutans og samkvæmt ákvæðum þess samnings sem ég vísaði til, í daglegu tali kallaður tollasamningur við Evrópusambandið, 230 tonn. Það muni taka gildi frá og með 1. janúar nk. Jafnhliða því að nefndin leggur þetta til beinir hún því eindregið til ráðherra að gildistöku aðgangsheimilda fyrir íslenskar mjólkurvörur á innri markaði Evrópu verði líka hraðað sem frekast er unnt þannig að hægt sé að byggja þessi ákvæði upp samhliða enda um gagnkvæman samning að ræða.

Ég vil að lokum taka fram um auknar innflutningsheimildir á ostum og þá sérstöku meðhöndlun sem við höfum á sérostum með sérupprunamerkingum að hér er um verulegt magn af ostum að ræða. Þetta þýðir í tonnum talið og í því hráefni sem undir liggur eitthvað um 6 milljónir lítra mjólkur í innanlandsframleiðslu sem þarna gæti opnast markaður fyrir. Það er verulega há tala. Það er væntanlega stór hluti kúabúa á Vesturlandi í magni séð ef við reynum að bregða upp einhverri mynd af því hvað um er að ræða mikið magn. Árið 2015 voru flutt inn 215 tonn af ostum innan þeirra tollkvóta sem gilda í margvíslegum samningum. Þegar títtnefndur Evrópusambandssamningur um osta verður að fullu genginn í gildi verða það um 610 tonn. Það er ljóst að mjólkurframleiðendur standa frammi fyrir róttækum breytingum á sinni starfsaðstöðu. Tilgangur nefndarinnar með tillöguflutningnum sem ég hef rakið var líka að tryggja að þeir sérostar sem um ræðir sem hafa sérstakar merkingar verði fluttir hingað inn án aðflutningsgjalda eða útboðsgjalda sem oft eru til umræðu til þess að hraða innleiðingu þeirra ákvæða og til þess að auka strax á nýju ári úrval þeirra osta. Það er í sjálfu sér ekki einfalt að segja hvað þetta þýðir nákvæmlega fyrir neytendur. Til þess vantar okkur nánari upplýsingar sem við getum vonandi birt síðar. Í sjálfu sér vitum við ekki hversu mikið af sérupprunamerktum ostum hefur verið flutt inn hingað til þannig að við getum gefið skýr dæmi um breytt verðlag. Meginatriðið er þetta: Samkvæmt okkar tillögu á ekki að leggja nein útboðsgjöld eða gjöld á þann innflutning sem fer inn á þessum 230 tonna innflutningskvóta sem nær til osta með sérstakri upprunamerkingu.

Virðulegi forseti. Ég læt vera að rekja í smáatriðum þær breytingartillögur sem fylgja nefndarálitinu. En eins og ég segi, í öllum aðalatriðum erum við að hnykkja á þeim breytingum sem við kynntum við 2. umr. Ég vil þó vekja athygli á því að vegna ákvæða um verðlagsnefnd og verðlagningu á mjólk tökum við betur utan um þau atriði er komu fram í nefndaráliti okkar um að mikilvægt væri að verðleggja t.d. mjólkurduft til iðnaðar á Íslandi þannig að íslenskur iðnaður hefði tækifæri á að nýta sér það hráefni. Því setjum við inn þá breytingu að við 4. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Á eftir orðunum „framleiðnikröfur til afurðarstöðva“ í 2. mgr. 13. gr. laganna, kemur: og einstakra framleiðsluvara.

Þetta þýðir í raun og veru að við gefum verðlagsnefnd heimild til að undirverðleggja ákveðna vöruflokka með þetta markmið í huga.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn í meiri hluta nefndarinnar Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Geir Jón Þórisson, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.