145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég hafði óskað eftir að komast á mælendaskrá í störfum þingsins út af öðru máli eða annarri ræðu sem ég ætlaði að flytja en hún má alveg bíða, hún er tímalaus snilld. En hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir beindi til mín spurningu sem mér er bæði létt og ljúft að svara um þá skýrslu sem hefur verið aðeins til umfjöllunar undir þessum dagskrárlið. Um það vil ég segja að á fundi fjárlaganefndar 27. apríl, ef ég man rétt, var spurningalisti á dagskrá og sýndur nefndarmönnum og öllum í nefndinni kynntur hann og þeim boðið að bæta við hann þannig að málið fór formlega af stað þá í nefndinni og hefur þar af leiðandi verið á dagskrá hennar áður. Spurningar hv. þingmanns um aðdraganda skýrslunnar verða því að skoðast í því samhengi.

Í öðru lagi vil ég segja að í sjálfu sér er ég ekkert ósammála niðurstöðu úttektar hv. þm. Brynjars Níelssonar. En ég vil líka benda á að í skýrslu hans segir, með leyfi forseta:

„Því kann að vakna sú spurning, með hliðsjón af óvissu um verðmæti eignanna, af hverju ekki var gert samkomulag um skiptingu virðisauka eins og gert var í samningum um Landsbankann.“

Hann hefur því líka uppi ákveðin viðvörunarorð og spurningar sem er kannski verið að reyna að fjalla um í þeirri skýrslu sem nú hefur verið unnin og hún byggir líka á nýjum upplýsingum. Ég vil líka benda á að í þeirri skýrslu eru dregin saman þau fylgiskjöl og heimildir sem vísað er í þannig að fólk getur flett því upp.

Skýrslan kemur til umræðu í fjárlaganefnd á morgun. Þar sitjum við hv. þingmaður bæði. Þá höldum við þessari umræðu áfram.


Efnisorð er vísa í ræðuna