145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fór líkt og aðrar þingkonur og fjölmargar aðrar konur á ráðstefnu í morgun um konur í fjölmiðlum. Það var mjög athyglisvert og gaman að hlusta á það sem þar fór fram. Allir vita svo sem hvernig staðan er. Konur eru miklu sjaldnar viðmælendur í fjölmiðlum en karlar. Það er ýmislegt sem kemur til. Margt áhugavert kom fram eins og það að þær konur sem tóku til máls sögðu að þær hefðu það sem prinsipp að segja já ef þær væru beðnar að koma í viðtal. Þáttastjórnandi benti á að það gæti stundum verið erfitt að fá konur og svo væru oft þeir sem væru í forsvari fyrir hin ýmsu mál, hvort sem það eru ríkisstjórnir, ráðherrar, í atvinnulífinu eða annars staðar, karlar.

Ég fór að hugsa um hvort fjölmiðlar gætu t.d., ef það er erfitt að fá konur sem viðmælendur, víkkað svolítið sjóndeildarhringinn og horft t.d. líka til landsbyggðarinnar. Ég held að það væri ótrúlega fróðlegt að sjá ef það væri tekið saman hvar viðmælendurnir eru, sérstaklega konurnar. Eru konurnar sem viðmælendur bundnar við höfuðborgarsvæðið eða eru þær úti á landi? Það eru konur úti um allt. Mér fannst það flott framtak þegar konur tóku sig saman og skráðu sig á lista og töldu sig tilbúnar að sitja í stjórnum fyrirtækja. Svona lista mætti búa til yfir konur sem eru sérfræðingar í ýmsum málefnum og senda á fjölmiðla. Mig langar líka að nefna að nú lenti ég í því og við hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, að við vorum beðnar um að vera í beinni útsendingu á Stöð 2 í gær. Við sögðum að sjálfsögðu já vegna þess að sem kona segir maður ekki nei því maður vill ekki að þetta hlutfall skekkist. En þá var akkúrat atkvæðagreiðsla um fullgildingu Parísarsamningsins (Forseti hringir.) á sama tíma sem við hv. þm. Oddný G. Harðardóttir misstum af (Forseti hringir.) því við vildum sinna þessu hlutverki okkar að vera í fjölmiðlum. (Forseti hringir.) Ég vil bara taka fram að að sjálfsögðu hefðum við Oddný verið á græna takkanum í þeirri atkvæðagreiðslu.


Efnisorð er vísa í ræðuna