145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[15:44]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil hérna rétt í lokin bregðast við nokkrum atriðum sem fram hafa komið í þessari umræðu og vil byrja á að þakka hv. þingheimi fyrir málefnalega og góða umræðu.

Fyrst vil ég bregðast við því sem síðasti hv. ræðumaður sagði. Ég get algjörlega tekið undir það að við þurfum að draga þann lærdóm af þessu og að við breytum fyrirkomulagi leyfisveitinga undirbúnings verkefna af þessu tagi á þann hátt að þegar ákvarðanir hafa verið teknar, allt ferli undirbúið, að menn geti treyst því að ekki verði aftur snúið. Það gerðum við með lagabreytingu hvað raforkukerfið varðar fyrr á kjörtímabilinu þegar við breyttum kerfisáætlun í raforkulögunum og færðum kæruferli og umsagnarferli fram í tímann. Það var ekki gert til þess að draga úr kæruleiðum eða takmarka aðkomu almennings og eftir atvikum náttúruverndarsamtaka og annarra hagsmunaaðila að ferlinu, heldur til þess að færa það á það stig sem á að vera þegar framkvæmdir eru í undirbúningi, til að koma í veg fyrir að svona geti gerst. Sá lærdómur sem ég dreg af þessu máli er í fyrsta lagi að þetta ferli allt saman er orðið allt of flókið, þannig að það þarf að skoða. Og líka að það er ekki nóg, eins og við sjáum glögglega á þessu, að gera breytingar á raforkulögum, þetta eru lagabálkar sem heyra undir mörg ráðuneyti og það þarf að samræma stjórnsýsluna hvað þetta varðar heilt yfir. Ég mun beita mér fyrir því að slík skoðun verði sett af stað hið fyrsta þannig að við getum dregið lærdóm af þessu og komið í veg fyrir að við stöndum í svipuðum sporum aftur.

Varðandi samskipti Landsnets og annarra í þessu máli finn ég mig knúna til þess að koma Landsneti aðeins til varnar. Þeir mega sjálfsagt þar eins og allir aðilar í þessu ferli líta í eigin barm og athuga hvort eitthvað hefði mátt gera með öðrum hætti. En ég minni samt á að þetta ferli, eins og hv. þingmaður rakti ágætlega áðan, hefur verið mjög langt. Ég lét taka saman og má lesa um það líka í greinargerð í hvaða farvegi nákvæmlega þessar línur hafa verið innan stjórnsýslunnar og í opinberri umræðu og opinberu umfjöllunarferli frá árinu 2006 til dagsins í dag eða í tíu ár. Í fyrsta lagi hafa þær verið til umfjöllunar í verndar- og landnýtingaráætlun fyrir háhitasvæðin á Norðausturlandi. Það var árið 2006. Þar var víðtækt samráð haft m.a. við Landvernd, náttúruvernd Þingeyinga, SUNN, sem er Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi. Þetta var samþykkt í öllum sveitarstjórnum svæðisins árið 2006, fyrir tíu árum.

Í öðru lagi svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007–2025. Það var samþykkt árið 2008. Þar var líka víðtækt samráð, alls konar kynningarfundir, umsagnarbeiðnir, einhverjar athugasemdir bárust, þar á meðal frá Landvernd sem hafði þó engar athugasemdir varðandi háspennulínurnar.

Síðan hefur þetta farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Það var árið 2010. Þar var víðtækt samráð haft og athugasemdir bárust við drög og endanlega tillögu, en engar athugasemdir frá Landvernd. Það bárust einhverjar athugasemdir í þessu ferli við frummatsskýrslu. Landvernd fór þar fram á að lagður yrði fram kostur með báðum línum samsíða alla leið en ekki er búið að sækja um leyfi fyrir annarri línunni og óvíst hvort svo verði. Talið var nauðsynlegt þegar menn voru búnir að ræða álver að hafa tvær samsíða línur.

Í fjórða lagi má nefna sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum á Bakka við Húsavík. Þetta er árið 2010.

Í fimmta lagi aðalskipulag Norðurþings 2010–2030 og breyting á aðalskipulagi. Þá er færsla á stoðkerfi rafveitu að iðnaðarsvæði á Bakka. Þar barst ein athugasemd, ekki frá Landvernd eða öðrum hagsmunasamtökum. Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010–2022. Þar bárust þrjár umsagnir, m.a. frá Umhverfisstofnun, ekki frá Landvernd eða öðrum hagsmunasamtökum. Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011–2013 sem samþykkt var 2013. Þá bárust tvær athugasemdir, ekki frá Landvernd eða öðrum hagsmunasamtökum. Framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps vegna Kröflulínu 4, það var árið 2016. Þá var þetta framkvæmdaleyfi kært af Landvernd og Fjöreggi í Mývatnssveit. Það er kannski ástæða þess að við erum hér í dag vegna þess að fallist var á stöðvunarkröfuna.

Framkvæmdaleyfi Þingeyjarsveitar vegna Kröflulínu 4, það var kært líka. Framkvæmdaleyfi Norðurþings vegna Þeistareykjalínu frá árinu í ár, það var líka kært. Og ekki fallist á stöðvunarkröfuna þar. Síðan framkvæmdaleyfi Þingeyjarsveitar vegna Þeistareykjalínu 1, þar var fallist á stöðvunarkröfu á hluta leiðarinnar.

Það er því alveg ljóst í þessu ferli öllu saman að Landvernd og allir aðrir aðilar sem hafa hagsmuna að gæta við lagningu háspennulínu frá Kröflu að Bakka hafa haft fjöldamörg tækifæri til koma að athugasemdum og hafa áhrif á ferlið. Það hefur þó ekki verið gert nema á síðari stigum málsins, þ.e. vegna framkvæmdaleyfanna. Þetta er eitthvað, og þar tek ég aftur undir með hv. þingmanni, sem við þurfum að breyta. Þessi ferli þurfa að tala saman, ef svo mætti að orði komast, og koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.

Virðulegur forseti. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir benti á að það væri ekki nýlunda að hraun sé verndað, enda er það ekki það sem þessi ágreiningur snýst um. Ágreiningurinn snýst ekki um hvort hraun sé verndað. Ágreiningurinn snerist um það hvort framkvæmdaleyfin væru gild vegna breytinga á náttúruverndarlögum sem snýr að ákveðnu umsagnarferli. Þrjú framkvæmdaleyfi voru kærð, eitt sveitarfélag gerði það rétt og sendi þetta út aftur til umsagnar, hin tvö sveitarfélögin gerðu það ekki þar sem þau töldu að þau hefðu sinnt þessari umsagnarskyldu eða beiðnum á fyrri stigum þessa máls. Það er því ekki verið að efast um að hraun eigi að vera vernduð með einhverjum ákveðnum hætti.

Varðandi sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir spurði einnig um, þá er það nú þannig að þetta er gert með fullu samþykki þessara sveitarfélaga. Lögmannsstofan sem við leituðum til komst að þeirri niðurstöðu að þetta hefði ekki áhrif á þennan mikilvæga rétt, sem er sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga. En þar að auki vildi ég koma því á framfæri, sem ég heft gert hér áður í þessari umræðu, að þetta er gert með fullu samþykki og raunar að beiðni þeirra, enda farið að lögum um eftirlit með framkvæmdinni eins og þau sjálf hefðu veitt framkvæmdaleyfi.

Ég læt hv. atvinnuveganefnd eftir að leita þeirra umsagna sem hún telur, en hvort hún leiti með formlegum hætti til umhverfisnefndar eða ekki, ég fel það í hendur nefndarinnar. Ég vil ítreka hversu mikilvægt það er að þetta mál verði klárað sem allra fyrst og vona svo sannarlega að okkur muni takast að gera það núna á næstu dögum og þakka enn og aftur fyrir liðsinni þingsins í þessu máli.