145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Með kosningunum sem fram undan eru verða ákveðin kaflaskil og með þeim tækifæri til að gera svo margt sem skiptir máli, tækifæri til að gera svo margt sem hefur beðið allt of lengi og mun færa okkur fram á veginn, tækifæri til að skipa okkur í sveit með hinum Norðurlöndunum sem eru með bestu heilbrigðisþjónustu í heimi, tækifæri til að taka á spillingu og sérhagsmunagæslu, tækifæri til að jafna leikinn á milli kynjanna og færa konum völd til jafns við karla, til að taka afdrifaríkar ákvarðanir í samfélaginu, tækifæri til að samþykkja nýja stjórnarskrá og tækifæri til að vera samfélag sem okkur langar öll að búa í.

Það er nefnilega ekki lögmál að Íslendingar búi við lakari kjör en þekkjast í hinum norrænu ríkjunum. Það er engin ástæða fyrir því að fólkið okkar fái ekki bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, að við getum ekki séð til þess að eldri borgarar hafi það gott, að barnafjölskyldur séu á vergangi á erfiðum húsnæðismarkaði eða að góðærið nái aðeins til fárra. Þessu er vel hægt að breyta því að á Íslandi er til nóg af peningum, það þarf einfaldlega að skipta þjóðarkökunni með réttlátari hætti.

Hér hefur áður ríkt góðæri sem náði bara til sumra á meðan aðrir sátu eftir. Samfylkingin ætlar að sjá til þess að nú þegar vel gengur fái allir að njóta þess.

Góðir landsmenn. Þing er rofið og við göngum til kosninga vegna skorts á trausti og trúnaði milli þjóðarinnar og stjórnvalda og vegna atburða þar sem spilling og skattaskjól voru í lykilhlutverki. Almenningur fékk innsýn í það hvernig auðmenn fara að, hvar þeir geyma peningana sína í skjóli fyrir skattinum og hvernig sumir þeirra láta aðra bera sinn hlut í velferðarkerfinu. Á kjörtímabilinu hafa ákvarðanir stjórnvalda einkum staðið með þeim sem standa mjög vel og sérhagsmunagæslan hefur sannarlega staðið vaktina á meðan heilbrigðisþjónustan er í miklum vanda og menntakerfið líka. Menn tala um góðæri en nú situr fjöldi fólks heima í stofu og kannast ekkert við þetta góðæri.

Það er mál að linni.

Mér finnst nánast spaugilegt á köflum að hlusta á forustumenn ríkisstjórnarinnar tala um afrek sín á þessu stutta kjörtímabili. Þeir tala eins og það sé ofar mannlegum skilningi hversu stórkostleg afrekin eru. Þegar orð þeirra eru dregin niður á jörðina og skoðuð í samhengi kemur hið sanna í ljós, þeir fengu í heimanmund hallalausan ríkissjóð og því til viðbótar lágt olíuverð, metfjölda ferðamanna og fullt af makríl. Við slíkar aðstæður ætti í það minnsta velferðarkerfið að styrkjast og samgöngur að batna, en svo er ekki. Þeir ríku verða bara ríkari og hitt er látið danka.

Það var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem kom á efnahagslegum stöðugleika. Í kjölfarið var beygt til hægri. Næstu ríkisstjórnar bíður það verkefni að koma einnig á félagslegum stöðugleika þar sem hugað er að velferð fólksins í landinu.

Kæru landsmenn. Í kosningunum sem nú fara í hönd gefst kjósendum tækifæri til að fylkja sér að baki gildum jafnaðarmanna sem skapað hafa bestu samfélög í veröldinni og standa fyrir breytingum sem tryggja öllum Íslendingum bestu lífsskilyrði sem völ er á, óháð því hvar þau eiga heima eða hvað þau eiga mikið af peningum. Þetta er allt hægt því að við búum í gjöfulu landi sem er auðugt að auðlindum og hér eru til nægir peningar. Þá er m.a. að finna í orkuauðlindum okkar sem hafa verið niðurgreiddar til erlendra fyrirtækja. Stórir orkukaupendur hafa vissulega skapað hér störf en þau eru flest einhæf og stærsti hluti arðsins runnið úr landi, eins og dæmin sanna.

Við höfum nýtt sjávarauðlind okkar af skynsemi en aðgangur að auðlindinni hefur safnast á fárra hendur og arðurinn að mestu runnið til fámenns hóps. Sjávarþorp um land allt hafa misst lífsviðurværið og eiga fárra kosta völ. Í því er ekkert réttlæti. Með útboði á aflaheimildum fáum við fullt verð fyrir auðlindina og meira verður til skiptanna fyrir velferðarkerfið og til atvinnuuppbyggingar um allt land.

Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem vaxið hefur mest og þar eru tækifæri. Flestir eru sammála því að ferðamenn eigi að greiða gjöld sem færu í viðhald vega og til að létta álagi af löggæslu og heilsugæslu, en á meðan við þrösum um mismunandi gjaldtökur er ferðamönnum gefinn afsláttur af virðisaukaskatti af gistingu og afþreyingu. Þar til á síðasta ári greiddum við með gistingu ferðamanna á hótelum landsins. Tæpir 3 milljarðar kr. voru samtals greiddir úr ríkissjóði á sex ára tímabili. Á sama tíma var dregið úr framlögum til viðhalds vega, lögreglunnar og heilsugæslunnar. Samdrátturinn heldur áfram. Í sumar var skorið niður um 13 stöðugildi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, á svæði þar sem flestir ferðamenn fara um og á meðan gumar ríkisstjórnin sig af góðæri.

Við viljum sækja arðinn af auðlindunum bæði vegna þess að það er réttlátt og vegna þess að við þurfum á honum að halda til að skjóta styrkari stoðum undir samfélag jafnaðar og samhjálpar. Það þarf kjark og hugsjónir til að standa með því að almenningur fái réttlátan hlut af þjóðararfinum — arðinn af auðlindunum.

Það þarf líka kjark til að þora að standa á sannfæringu sinni. Íslenska krónan er minnsta sjálfstæða mynt veraldar. Það er stundum eins og lagt sé að jöfnu að vera sjálfstæð þjóð og hafa sjálfstæða mynt. Ekkert er fjær lagi. Íslenska krónan er okkur dýr og hamlar í raun framförum. Á meðan við erum ekki í stærra myntbandalagi verðum við að bera þann kostnað. Það er bjargföst trú mín að Ísland eigi samleið með Evrópusambandinu í framtíðinni. Þjóðin þarf hins vegar að taka sameiginlega ákvörðun um næstu skref í þeirri vegferð.

Ágætu landsmenn. Með réttlátara skattkerfi og arðinum af auðlindunum ætlar Samfylkingin að bæta heilbrigðisþjónustuna um allt land og gera hana gjaldfrjálsa í nokkrum ákveðnum skrefum. Við ætlum að gera okkar góða menntakerfi enn betra og tryggja að allir geti sótt sér menntun óháð aldri, búsetu og fjárhag og að hér verði til vel launuð og góð störf. Við ætlum að skapa fjölskylduvænt samfélag, létta lífið fyrir barnafjölskyldur og fyrir eldri borgara landsins sem lögðu grunninn að samfélagi okkar. Verkefnin eru ærin en við höfum efni á þeim öllum. Við höfum líka efni á því að taka á móti fólki sem flýr stríð eða hungur og leitar hjálpar hjá okkur. Loftslagsbreytingar þekkja engin landamæri og vandi stríðshrjáðra heimshluta er vandi okkar allra. Ég hef í hreinskilni sagt litla þolinmæði fyrir stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem ala á ótta og fordómum og etja saman þeim Íslendingum sem þurfa á velferðarþjónustu að halda og því fólki sem leita hér ásjár í neyð. Ég treysti því að kjósendur muni hafna slíkum málflutningi í komandi kosningum.

Kæru landsmenn. Með kosningunum sem fram undan eru fáum við tækifæri upp í hendurnar til að gera góðar breytingar. Panama-skjölin, hrunið og öll sérhagsmunagæslan sem viðgengst hefur gera það að verkum að þjóðin þolir ekki lengur bið eftir réttlæti og sanngirni.

Samfylkingin er klár í baráttuna fyrir einmitt þessu með fólkinu í landinu. — Góðar stundir.