145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:38]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Frú forseti. Ég vil taka undir þetta kall eftir fundi þingflokksformanna með forseta og um leið þakka forseta fyrir hennar orð áðan. Auðvitað er það alveg óþolandi að við séum hérna á síðasta degi þingsins samkvæmt áætlun og það liggur í loftinu að hún eigi ekki að standast. Þetta er ekki bara óþolandi gagnvart þinginu og okkur sem erum hér að störfum heldur líka gagnvart þeim þúsundum Íslendinga sem skipuleggja sig út frá því að fylgjast með þinginu á netinu og í sjónvarpinu. Það er lýðræðisleg spurning, hreinlega, að einhver hugmynd sé um það hvernig störfin hérna á þinginu eru. Ég vil taka fram að ég hitti formenn stjórnarflokkanna í morgun á framboðsfundi úti í bæ. Það er spurning um lýðræðislega þátttöku fyrir fólk að velja hvort það á að fara á framboðsfundi eða fylgjast með Alþingi. Það er mjög mikilvægt að við vitum hvernig restin af störfum Alþingis eigi að vera, ekki bara út frá okkur heldur líka út frá almenningi og lýðræðislegri þátttöku hans.